05.03.1927
Efri deild: 20. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

56. mál, sandgræðsla

Flm. (Einar Jónsson):

Það má vera, að einhverjum hv. þm. þyki undarlegt, að frv. þetta skuli fram komið. En ástæðan fyrir því er sú, að því hefir verið veitt eftirtekt, að breyting sú, sem gerð var 1923 á sandgræðslulögunum frá 1914, hefir orðið mjög til hins lakara í garð landeiganda, og framkvæmd laganna því ekki orðið svo sem skyldi. Í lögunum frá 1914 var ekki fastákveðinn sá hluti kostnaðar, er landeigendur skyldu greiða, og jeg hygg, að þeir hafi komist ljettar út af girðingarkostnaðinum þá en nú, þar sem lögin frá 1923 mæla svo fyrir, að landeigandi skuli greiða helming kostnaðar, en ríkið hinn helminginn. Í lögunum frá 1914, 4. gr., er þetta orðað svo:

„Kostnað við girðing, umfram það er eigandi eða aðrir, þeir er að standa, leggja fram, skal greiða úr landssjóði að 3/4, en úr sýslusjóði að 1/4.“

Jeg býst við, að í flestum tilfellum hafi það orðið svo, að landeigendur hafi greitt mjög lítið af kostnaðinum, og breytingin 1923 hafi því orðið æðihörð í þeirra garð. Öllum er kunnugt, hve gífurlegu tjóni sandfokið veldur bændum þeim, sem á sandfoksjörðum búa, og þótt sumir þeirra sjeu efnaðir menn, mun hitt tíðara, að þá skorti fje til kostnaðar við uppgræðslu, ef þeir verða að leggja þetta mikið fje í girðingar. Mjer sýnist, að það væri í góðu samræmi við þann áhuga, sem Alþingi hefir sýnt í sandgræðslumálinu, og meiri hvatning fyrir bændur, ef lögunum væri aftur breytt í svipað horf og þau voru 1914. — Jeg skal ekki fara út í neinn meting um framlög úr ríkissjóði til annara hjeraða, en þegar talað er um þetta mikla nauðsynjamál Rangvellinga, sandgræðsluna, er ekki alveg hægt að ganga fram hjá því að minna á hið mikla fje, sem veitt er til strandferða. En þess nýtur Rangárvallasýsla að engu. Með tilliti til þessa væri ekki hægt að segja, að aukið framlag til sandgræðslu væri ósanngjarnt.

Þá vil jeg minnast á annað atriði, sem breyst hefir landeigendum í óhag með lögunum frá 1923. Eftir þeim lendir kostnaðurinn af vegum milli hliða á landeigendum einum. Mjer er þetta dálítið ríkt í huga, því að þegar reist var þessi rækilega girðing í mínum hreppi, sem er ágætlega af hendi leyst, var mikil tregða á að fá eins mörg hlið og þurft hefði. En á þessum slóðum er engin leið að gera upphleypta vegi. Slík verk eru gersamlega ónýt á sandsvæði. En víða hagar svo til, þar sem komið er upp stórum sandgræðslugirðingum, að fjölfarnir vegir lokast. Það geta verið teknar af kirkjuleiðir, leiðir til lækna, aðdráttavegir, heybandsvegir o. s. frv. Með harðneskju gagnvart landeigendum gæti Alþingi krafið þá um að leggja upphleypta vegi á slíkum stöðum, en slíka harðneskju hefir Alþingi ekki sýnt landeigendum fram að þessu,

Jeg vænti, að þessu frumvarpi verði tekið með vinsemd og sanngirni. Jeg skal játa, að það hefir nokkra útgjaldaaukning í för með sjer frá hinu opinbera, en hins vegar styður það að framkvæmdum í þessu máli og ljettir baráttu þeirra, sem orðið hafa fyrir þungum búsifjum af völdum sandfoksins. Eins og jeg hefi lýst yfir áður, er jeg fús að breyta tölunum 3/4 og í 1/4 og 1/3, ef það yrði hagkvæmara fyrir framgang frv.

Þau óþægindi, sem verða af sandgræðslugirðingunni, að því leyti sem vegir teppast, finst mjer Alþingi eiga að bæta fyrir og samræma við vegalögin frá 1924, þar sem bannað er að girða fyrir alfaravegi.

Að sjálfsögðu vænti jeg, að frv. þetta verði ekki drepið nú, heldur verði því lofað að ganga til nefndar. Til hvaða nefndar það fer, læt jeg mig litlu skifta, en mjer finst það eiga best heima í landbn.