29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

109. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þetta frv. er komið frá Ed. og er þess efnis að veita til dýpkunar á höfninni í Vestmannaeyjum 1/3 kostnaðar, alt að 70 þús. kr. Nú stendur svo á, að fengið er skip í sumar til þess að dýpka hafnir, og búast Vestmannaeyingar við að verða þess aðnjótandi, og því hefir bæjarstjórnin samþykt að leggja fram nú þegar fje til verksins. Enda er ekki vanþörf á að dýpka Vestmannaeyjahöfn. Inn í hana geta stærri skip ekki siglt, og veldur það vandkvæðum við útskipun fisks o. fl. Til þess að bæta úr þessu ástandi, leggur bæjarfjelagið á sig mikil útgjöld, og samkvæmt gildandi hafnarreglugerð eru hafnargjöld af uppskipaðri og útskipaðri vöru hærri þar en líklega nokkursstaðar annarsstaðar á landinu, og það jafnvel þrefalt og upp í sjöfalt hærri. Þennan aukakostnað leggur bærinn á sig til þess að búa í haginn fyrir sig. En ríkisvaldinu er og málið skylt, því að eins og kunnugt er, eru Vestmannaeyjar ein hin ágætasta verstöð hjer á landi, sem mjólkar ríkissjóði drjúgum. Tekjur ríkissjóðs þaðan nema rúmlega 1/2 milj. kr. á ári. Ríkissjóður er í raun og veru aðeins að endurbæta sína eigin eign og búa í haginn fyrir framtíðina. Frá því höfnin var endurbætt þar síðast, hefir mannfjöldi í bænum aukist um helming, atvinnurekstur blómgast æ meir og tekjur ríkissjóðs af atvinnurekstrinum margfaldast. Ef höfnin væri nú endurbætt svo, að inn í hana gætu siglt stærri skip og fleiri bátar rúmast á henni, má vænta framhalds á tekjuaukningu síðustu ára. Frv. hafði mikið fylgi í Ed. Fjhn. fylgir því óskift. Jeg vænti þess, að viðtökur hv. deildar verði eftir því.