21.02.1927
Neðri deild: 11. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

14. mál, óskilgetin börn

Frsm. (Jón Kjartansson):

Allshn. hefir athugað þetta frv. og leggur hún til, að það verði samþykt með ofurlitlum breytingum. — Frv. fer fram á að skýra nokkuð ákvæðin í 26. gr. 1. nr. 46, 27. júní 1921. Eftir þessari lagagrein hefir legið vafi á um það, hvenær fyrndur væri rjettur barnsmóður til að krefjast meðlags frá dvalarsveit. Nái frv. fram að ganga, er af skorinn allur vafi um það, og verður tíminn þá eitt ár. Einnig hefir orkað tvímælis um það, hvenær barnsmóðir mætti krefjast meðlagsins og fyrir hvað langan tíma í einu. Samkv. 24. gr. 1. nr. 46, 1921, eru gjalddagar tveir, og á meðlagið að greiðast fyrirfram. En 26. gr. hefir verið skilin svo, að gjalddagi væri aðeins einn á ári hverju, og er því nú kipt í lag, svo að barnsmóður er heimilt að krefjast greiðslunnar fyrirfram á missiri hverju.

Auk þessara skýringarákvæða fer frv. fram á þá breytingu á gildandi lögum, að breytt sje tilhögun um það, hver ákveði meðalmeðlag með óskilgetnum börnum. Hingað til hafa sýslunefndir og bæjarstjórnir ákveðið þetta, en eftir frv. á það að falla undir atvinnumálaráðuneytið. Það á að ákveða meðalmeðgjöfina eftir tillögum sýslunefnda og bæjarstjórna. Hefir þótt kenna nokkurs ósamræmis um meðlagið, þótt staðhættir væru líkir, en ákveði ráðuneytið það, ætti að fást á því nokkur leiðrjetting. Allshn. telur þetta ákvæði tvímælalaust til bóta.

Loks fer frv. fram á að takmarka nokkuð skyldu dvalarsveitar til meðlagsgreiðslu, þegar svo er ástatt, að faðirinn er annaðhvort farinn úr landi eða dáinn. Eftir gildandi lögum nær framfærsluskyldan til 16 ára aldurs, en frv. vill, að hún falli niður við 14 ára aldur, þegar svo er ástatt, sem jeg nefndi, að faðirinn er annaðhvort farinn úr landi eða látinn. Allshn. hefir ekki getað fallist á, að þetta sje rjettmætt. Þar sem framfærsluskyldan að vorum lögum nær til 16 ára aldurs, þykir nefndinni ekki rjett að gera undantekningu með þennan flokk barna, sem oft eiga versta aðstöðu. Að vísu getur átt sjer stað misnotkun á þessu ákvæði, þannig að meðlagið gangi ekki til framfærslu barnsins, en það verður ekki lagfært, þótt þessi fáu börn sjeu tekin út úr. Og þar sem atvrn. á að ákveða meðalmeðgjöfina fyrir alt landið, má helst sjá við misnotkun með því að láta meðgjöfina vera lága fyrir börn á aldrinum 14–16 ára.

Þarf jeg svo ekki að orðlengja um þetta, en vænti þess, að hv. deild samþykki frv. með brtt. allshn.