30.04.1927
Efri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Háttv. þm. A.-Húnv. (GÓ) sagði, eins og rjett er, að frv. væri að vísu lagfæring á lögunum. Það er t. d. dálítil lagfæring á viðskiftum milli sýslusjóða og bæjarsjóða við ríkissjóð, en lengra nær sú lagfæring ekki, en hitt er aftur talsvert spor í rjetta átt, og jeg álít mikið spor í rjetta átt, að reikningar og allur kostnaður sje undir eftirliti eins aðilja, sem hjer er ætlast til, að sje stjórnarráðið. Þetta er í mínum augum talsvert meiri lagfæring, og jeg vona, að í væntanlegri löggjöf verði bæði þessi atriði tekin til athugunar, því að það er eitt, sem gerir eftirlitið með kostnaðinum við berklavarnalögin svo erfitt og ófullkomið, að reikningarnir eru úrskurðaðir á svo mörgum stöðum, sumir af sveitarstjórnum eða sýslu- eða bæjarstjórnum og sumir af stjórnarráðinu.

Jeg tók ekki eftir því í ræðu hæstv. ráðherra (JÞ), þegar hann mintist á, að hann væri samþykkur því, að stjórnin tæki berklavarnalögin til athugunar, hvort hæstv. ráðherra talaði sjerstaklega um það, að athugun færi fram á framkvæmd laganna, en jeg get ef til vill skilið það þannig, að þegar hæstv. ráðherra talaði um löggjöfina, muni hann hafa átt við hvorttveggja; en nefndin leggur allmikið upp úr því, að athuguð sje framkvæmd laganna.

Það kom fram í ræðu hv. 2. landsk. (IHB), þar sem hann mintist á þetta mál, að hv. þm. (IHB) benti sjerstaklega á eitt atriði, sem þó eftir lögunum virðist liggja opið fyrir, hvernig á að framkvæma, en það kom þó fram, að það er ekki gert eins og lögin ætlast til. Það er um það, hvaða læknir skuli staðfesta skýrslu sveitarstjórnar. Í lögunum er sagt, að hjeraðslæknir skuli gera þetta, en eins og hv. þm. (IHB) upplýsti, mun þetta vera gert af ýmsum læknum, af hjeraðslækni eða öðrum, og þannig mun það vera um mörg fleiri atriði, að þau eru öðruvísi framkvæmd heldur en á að vera eftir bókstaf laganna.

Hv. 5. landsk. (JBald) var eitthvað að tala um, að andinn í ræðu frsm. (JBald: Og nefndarálitinu) hefði verið eitthvað öðruvísi en hann vildi vera láta, og eitthvað mjög ógeðfeldur (JBald: Jeg sagði það nú ekki), og að við vildum höggva skarð í berklavarnalögin. (JBald: Jeg sagðist vera hræddur um, að það leiddi til þess).

Þá hjelt hv. þm. (JBald) því fram, að tilgangurinn með lögunum hefði verið að veita fátækum sjúklingum læknishjálp. Jeg sagði, að það hefði verið hvorttveggja, bæði það og að varðveita sjúklingana og þjóðina í heild fyrir berklaveikisbölinu. Svo munu menn ef til vill hafa gert sjer einhverja von um að geta útrýmt veikinni, en það þykir mjer þó ekki líklegt, að margir hafi gert sjer miklar vonir um, að það væri hægt að útrýma berklaveikinni frekar hjer á landi heldur en annarsstaðar, því að hún er víst þannig, að það er ekki hægt að gera sjer miklar vonir um algera útrýmingu hennar. (JBald: Það var líka sagt um sullaveikina). En það getur vel verið, að ráðstafanir eins og þessar hafi leitt til takmarkana á henni; jeg legg það atriði frekar undir dóm þeirra í þjóðfjelaginu, sem því eru best kunnugir, heldur en undir dóm hv. 5. landsk., og held jeg, að við stöndum þar ósköp líkt að vígi, því að við getum ekki felt neinn úrskurð um það; en hvert sem markmiðið er, þá er ekki unt annað en að viðurkenna það, að kostnaðurinn, ef hann heldur áfram að vaxa eins mikið á næstu árum og hann hefir gert undanfarin ár, verði okkur ofurefli. Jeg skal ekkert fullyrða um það, að hann sje þegar orðinn okkur ofvaxinn, en hinu held jeg að enginn geti neitað, að með slíkri aukningu, sem verið hefir undanfarin ár, geti hann mjög bráðlega orðið okkur ofvaxinn.

Það leiðir því af sjálfu sjer, að það verður að endurskoða þessa löggjöf, en það á ekki eftir mínum skilningi að draga úr vonum manna í baráttunni gegn veikinni eða draga úr því, sem gert er af skynsamlegu viti, eða því, sem gert er af ráðdeild og rjettlæti í framkvæmdum til þess að draga úr berklaveikisbölinu, heldur á að gera endurbætur á löggjöfinni og framkvæmd hennar, sem jeg efast ekkert um, að háttv. 5. landsk. muni sjálfur vita um marga galla á. Með því einu móti, að horfið sje að því ráði, er nokkur von til, að hægt sje að halda í framtíðinni þeirri stefnu, er upphaflega var sett, að reyna að draga eitthvað úr þessu þjóðarböli.

Jeg skal svo láta útrætt um málið, nema sjerstakt tilefni gefist. Þeir hv. þm., sem telja sig frv. fylgjandi, að undanskildum hv. 5. landsk., hafa látið á sjer skiljast, að þeir æski samt endurskoðunar á þessari löggjöf, eins og meiri hl. nefndarinnar ætlast til.