09.05.1927
Efri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

113. mál, tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg gat þess á síðasta þingi, og eins gerði jeg grein fyrir því í hv. Nd., þá er frv. þetta var til umr. þar, og eins við 1. umr. fjárlaganna í hv. Nd., að jeg teldi efasamt, að ríkissjóður kæmist af með tekjur sínar, að þessum gengisviðauka á tollum og gjöldum meðtöldum, eftir lækkun vörutollsins á kolum og salti og afnámi tunnutollsins, er gekk í gildi 1. júlí síðastl. Með lögunum um lækkun vörutollsins voru tekjur ríkissjóðs svo skertar, að eitthvað þurfti að koma í staðinn, og jeg skýrði frá því, að stjórnin mundi telja sjer skylt að bera fram þetta frv. á þessu þingi.

Þegar stjórnin undirbjó fjárlagafrv., vissi hún ekki, hvort nokkurn tekjuauka þyrfti. Vildi hún bíða þess, að sýnt væri, hver væri afkoma ársins 1926 og hverjar horfurnar 1927, en það kom ekki í ljós fyr en komið var fram á þing.

Þegar frv. kom fram, hafði stjórnin afráðið það, þótt búast megi við tekjuhalla árið 1927, að koma ekki fram með frv., um nýjar álögur, en hún sá líka, að ekki mátti á þessu þingi skerða þá tekjustofna, sem til eru, frekar en gert var á síðasta þingi.

Hv. 1. landsk. (JJ) spurði, hvað jeg hugsaði um framtíð gengisviðaukans. Jeg get svarað honum því, að jeg býst ekki við því, að meðan jeg er fjármálaráðherra muni jeg stinga upp á því að lækka núverandi tolla á munaðarvörum, svo sem tóbaki og vínföngum, og væntanlega ekki heldur á kaffi og sykri. Sykurtollurinn var lágur áður en gengisviðaukinn kom; hafði hann staðið óbreyttur síðan 1911. Þetta eru þeir tollar, sem gengisviðaukinn hvílir á, og svo skipagjöld.

Stjórnin fer ekki fram á neina breytingu með þessu frv., heldur hitt, að löggjöfin um gengisviðaukann haldist óbreytt 1928.