12.03.1927
Efri deild: 26. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Jónas Jónsson:

Jeg ætla að gera grein fyrir atkvæði mínu, og hún er sú, að jeg mun fylgja frv. þessu til nefndar, en þar með er engu heitið um það, hvort jeg fylgi máli þessu áfram.

Úr því að jeg kvaddi mjer hljóðs, þá eru það aðallega tvær spurningar, sem jeg vildi beina til hæstv. forsrh. viðvíkjandi vinnutilhögun hans um þetta mál.

Í fyrsta lagi vildi jeg spyrja, hvort hann vildi ekki skýra málið, svo að það lægi ljóst fyrir, og þar með láta hverfa launung þá, sem hvílt hefir yfir þessu máli í allri meðferð hans á því. Jeg er fyllilega sammála hv. 5. landsk. (JBald) um það, að það sje best fyrir alla parta, að hæstv. stjórn dragi nú ekki lengur að skýra opinberlega frá því, hvað meint sje eiginlega með þessari lántöku. Það er talað um, að lánið eigi að vera 9 miljónir, en þó veit enginn, hvað satt er í því, og svo á að taka annað lán síðar í vor. Alt þetta er nauðsynlegt að upplýsa, enda á deildin heimting á því áður en hún segir sitt síðasta orð um málið.

Þá er hin spurningin, að þar sem hæstv. forsrh. ætlast til, að helgidagavinna sje lögð í það að athuga frv., hvort hann búist við því sjálfur að leggja á sig að gefa nefndinni þær upplýsingar, er hún óskar, á helgidegi, og hvort hann jafnhliða veiti nefndinni það vald, að hún geti kvatt bankastjóra beggja bankanna á fund sinn. Jeg legg mikla áherslu á þetta, að bankastjórarnir komi til viðtals við nefndina og skýri henni frá, hvaða nauðsyn beri til að taka þetta nýja miljónalán. Ætla jeg svo að bíða átekta um það, hvernig hæstv. forsrh. svarar þessum spurningum.