18.03.1927
Efri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Það hefði nú eiginlega verið rjett að geyma til 3. umr. að svara háttv. 1. landsk. (JJ) og hv. 5. landsk. (JBald). Þeir hafa nú endurtekið í annað sinn sömu ræðurnar og þeir fluttu við 1. umr. Þeim hefir fundist þörf á þessari endurtekningu eftir þau fáu orð, sem jeg hefi sagt í þessu máli, því að þeim hefir fundist, að fullyrðingar sínar verði þeir að endurtaka til þess að þeim verði trúað.

Jeg ætla nú í þetta sinn að víkja frá þeirri reglu, sem jeg oft viðhef til þess að fækka innihaldslausum og andlausum ræðum þessara hv. þm., nfl. að spara mjer svör til þeirra, þó jeg með því gefi þeim tilefni til að halda 3. ræðuna hvorum fyrir sig.

Hv. 1. landsk. ljet í ljós sorg sína yfir því, að feld hefðu verið frá 2. umr. nokkur af þessum frv., sem hann er að flytja og eru svo illa samin, að deildin getur ekki litið við þeim. Getur þetta verið skýring á því, hvernig skapsmunum hans er nú háttað viðvíkjandi þessu máli. Hv. þm. byrjaði ummæli sín með því að segja, að það hlyti að vera þörf fyrir lánið, annars sje það tóm vitleysa. Jeg hafði nú gert grein fyrir þessu láni með því að segja, að þetta sje tryggingarráðstöfun gegn fjárskorti. Þetta veit jeg, að hv. þm. hefir skilið; en þyki honum ekki þörf á því að gera þessar ráðstafanir, nema fyrirsjáanlegt sje, að til hennar þurfi að grípa, þá fer honum eins og manni, sem hugsar sem svo, þegar hann brunatryggir muni sína, að þeir hljóti innan skamms að brenna, því að annars sje vitleysa að vera að brunatryggja þá. Þegar um er að ræða að tryggja atvinnuvegina, verður að meta það, hvort svo dýrt sje að tryggja þá, að það borgi sig að kaupa öryggið því verði, sem í boði er. Jeg held nú, að engum þeim þm., er kynt hefir sjer lánskjörin og skilmálana, sem láninu fylgja, geti blandast hugur um það, að þetta tryggingargjald sje svo lágt, að ekki sje í það horfandi að greiða það til tryggingar og öryggis atvinnuvegum þjóðarinnar.

Sami hv. þm. (JJ) sagði, að málið hefði ekki fengið þinglega afgreiðslu. Það var nú borið fram af nefnd, og þá er ekki siður að vísa slíkum frv. til nefndar.

Þá kom hv. þm. að stöðvun útgerðarfyrirtækjanna á Ísafirði. Bæði hv. þm. og eins hv. 5. landsk. (JBald) segja hana af pólitískum rótum runna, án þess þó að færa nokkur rök fyrir því. Hv. 5. landsk. framdi það ógætnisverk í gær að segja, að útibússtjóri Íslandsbanka þar hefði verið hlutdrægur síðan 1924. En hv. þm. gáir ekki að því, að það var ekki hann, heldur aðalbankastjórnin hjer í Reykjavík, sem gekk að þessum 3 fyrirtækjum; en þá vildi hv. þm. það ólán til, að hann var nýbúinn að gefa henni óhlutdrægnisvottorð.

Hv. 1. landsk. sagði, að stjórnin væri potturinn og pannan í því að hafa lánið svona stórt. Jeg hefi nú gefið nefndinni upplýsingar um þetta, og þarf engu þar við að bæta, nema því, að ekki hafði jeg hugmynd um, að Landsbankinn væri að leita samninga við þennan ameríska banka, fyr en mjer barst skeyti um það frá Kaupmannahöfn, að Landsbankinn hefði samið við þennan bankastjóra þar á staðnum um lán, að áskildu samþykki ríkisstjórnarinnar, Jeg hefi oft gert grein fyrir því, að þetta eigi ekki að verða fast lán, en þá þarf heimildin að vera svo rúm, að reikningslánssamninginn megi framlengja eftir 12 mánuði. Menn geta aldrei treyst því, að tilkostnaður atvinnuveganna verði kominn inn eftir 12 mánuði; það getur dregist lengur, að afurðirnar seljist. Og þótt verð þeirra sje komið inn eftir 12 mánuði, þá getur verið þörf á tilsvarandi stuðningi við atvinnuvegina á næsta ári eins og á hinu fyrra, þannig að á hverju ári þurfi eitthvað að nota það. Þá fór hv. 1. landsk. að tala um áfall, sem jeg hefði orðið fyrir. Ónei, ekki hefir það komið ennþá. Við sjáum nú til, hvernig málið fer út úr þinginu. Hv. þm. ætti ekki að hrósa neinum sigri fyr en lokið er vopnaviðskiftunum.

Um pólitíska tísku og fjármáladrengjakoll ætla jeg ekki að ræða, en gott væri fyrir hv. þm. að hugsa þá hugsun á enda, hversu ómögulegt og óstarfhæft löggjafarþing þjóðarinnar yrði, ef þar ættu sæti 42 menn eins og hv. þm. (JJ) sjálfur.

Þá fór hv. þm. á víð og dreif út fyrir málið, talaði um skuldaskýrslur sínar og heilsuleysi atvinnuveganna, nokkuð sem jeg ætla ekki að þreyta hv. deild á að tala um. En jeg verð að benda hv. þm. á eina fjarstæðu, sem hann hjelt fram, að gengishækkun norsku krónunnar hefði orðið til þess að fella verð á íslensku saltkjöti í Noregi. Þetta sama sagði einn flokksbróðir hv. þm. í Nd. (HStef). En rjett áður hafði annar flokksmaður þeirra (TrÞ) í Nd. sagt, að hækkun ísl. krónunnar hefði valdið meiri innflutningi hjá okkur, vegna aukinnar kaupgetu, en við raunverulega gætum risið undir. Hjer koma fram tvær andstæðar skoðanir á því, hvaða áhrif gengishækkunin hafi á kaupgetu manna: Á Íslandi örvar hún innflutninginn um of, en í Noregi verkar hún þannig, að Norðmenn geta ekki keypt frá útlöndum þá matvöru, sem þeir eru vanir að kaupa. Þegar menn hampa svona andstæðum röksemdum, aðeins til þess að styðja þær fullyrðingar, sem þeir í þann svipinn setja á oddinn, þá geta þessir menn ekki búist við því, að röksemdir þeirra verði teknar gildar. Þær ályktanir, er hv. þm. (JJ) dró af gengishækkuninni, að hún sje uppspretta alls böls og ófarnaðar í heiminum, eru sama staðleysan og alt annað hjá þessum hv. þm. Það var umrót og tjón styrjaldarinnar, sem er undirrót þeirrar fátæktar og kreppu, sem nú er í heiminum.

Þá talaði hv. þm. um blómgun atvinnuveganna í Finnlandi og Þýskalandi. Það er nú svo, að í Þýskalandi hafa gengið yfir sárari hörmungar en í nokkru landi öðru og almenningur þar hefir átt við hungursneyð að búa og á við megnan skort að búa enn í dag, meðan okkur hefir liðið vel og við haft svo að segja alls nægtir. En þjóðin hefir barist fyrir tilveru sinni með miklum krafti, lengt vinnutímann svo, að almenningur vinnur þar fyrir mjög lágt kaup og lifir við mjög þröngan kost, sem stafar af því, að atvinnuvegirnir hrundu, er aftur leiddi til þess, að allir urðu öreigar aðrir en þeir, sem áttu fasteignir. Að fara að vísa á það eymdarástand og syngja gengishruninu lof sem einhverju allsherjar hjálparráði, það lýsir alveg yfirgengilegri vanþekkingu. Hv. þm. (JJ) lauk ræðu sinni með því að segjast vera hræddur við þetta lán. En sú hræðsla getur ekki stuðst við neitt annað en að stjórn bankans sje ekki fær um að fara með þetta fje. Jeg er á þveröfugri skoðun og tel, að hún muni ekki misnota það.

Hv. 5. landsk. (JBald) byrjaði ræðu sína með því að segja, að jeg hefði gengið inn á allar aðfinslurnar við þetta frv. Jeg vil nú taka það fram vegna þeirra manna, sem lesa þessar umr., að þetta er tómur hugarburður. Sami hv. þm. fann ennfremur að því, að ekki væri hægt að skifta um banka, svo að hægt væri að láta annan banka hafa það, ef hentugra reyndist. Þetta er nú aðeins 2. umr., og getur hv. þm., ef honum finst þetta veigamikið atriði, því komið með brtt. við 3. umr. um þetta. Jeg skal hjálpa honum til þess að orða hana, ef hann er ekki einfær um það. Það þarf ekki annað en að bæta við nokkrum orðum um, að endurnýja megi lánið í öðrum bönkum. Hv. þm. (JBald) ætti, í stað þess að tala svo mjög um annmarka frv., að reyna að lagfæra þennan smíðisgrip minn. Hv. þm. lýsti því einnig, hversu mikið böl af því leiddi fyrir þjóðina, ef atvinnuvegirnir stöðvuðust. En nú er það einmitt hlutverk Landsbankans að halda atvinnuvegunum uppi, og því er það bein skylda löggjafarvaldsins að veita bankanum alla aðstoð í því efni, sjerstaklega þegar þess er gætt, að bankinn er ríkiseign. En það er einmitt fram á það, sem farið er með frv. Væri því í sjálfu sjer eðlilegra, að hv. þm. væri stuðningsmaður frv. en andófsmaður þess. Háttv. þm. kveðst heldur ekki sannfærður um nauðsyn þessa máls. Taldi hann það mjög óheppilegt, að pólitísk stjórn blandaði sjer inn í bankamál. En hjá því verður ekki komist eins og bankalöggjöf vorri er nú háttað. En sje það óheppilegt, að ríkisstjórnin blandi sjer inn í bankamál, þá er það ekki síður óheppilegt, að hver og einn þingmaður geri sig að yfirdómara í þeim málum. En hv. þm. hefir gert sig að yfirdómara yfir bankastjórn Landsbankans um þörfina á lántöku þeirri, sem um er að ræða. Jeg skil það vel, að menn haldi því fram, að bankastjórnin verði að vera sjálfstæð gagnvart hinum pólitísku valdhöfum, en þá verður hún einnig að vera sjálfstæð gagnvart hverjum einstökum þingmanni. Hv. þm. verður að draga þá rjettu ályktun af orðum sínum, að setja sig ekki sem yfirdómara yfir Landsbankastjórninni um nauðsyn lántöku þeirrar, er frv. fer fram á.

Hv. þm. mintist á 15. gr. frv. til laga um Landsbanka Íslands, sem nú er á ferðinni, og spurði um það, hver afstaða þeirrar greinar væri til lántökunnar. Það atriði liggur alveg opið fyrir. Eftir að samkomulag er orðið um þetta frv. og það er orðið að lögum, þá tæki ríkisstjórnin ekki ábyrgð á öðrum lánum en þeim, sem löggjafarvaldið hefði gefið henni skýlaust leyfi til að ábyrgjast. Þá væri búið að taka fullnaðarákvörðun um það atriði í 15. gr. Landsbankafrv., og mætti það því falla í burtu úr því frv., því það væri þá leitt til lykta með þessu frv.

Við samþykt slíks frv. sem hjer er um að ræða, virðist rjett og óhjákvæmilegt að taka til greina athugasemdir bankastjórnarinnar við Landsbankafrv. og bendingar hennar um það, að nauðsynlegt sje að kveða á um ábyrgð ríkissjóðs á lántöku Landsbankans. Jeg lít svo á, að ábyrgðin sje svo rífleg, að bankinn þurfi ekki að biðja um frekari ábyrgð. En færi svo, að bankastjórninni þætti þörf á frekari ábyrgð, þá gæti það ekki komið af öðru en að svo stórkostleg breyting yrði á ástandinu, að eðlilegt væri, að það kæmi einnig fyrir Alþingi.

Út af ummælum hv. þm. um það, að ábyrgðarheimild frv. væri eins og heimild til þess að skrifa upp á víxil „in blanco“, þá skal jeg taka það fram, að háttv. þm. hefir viðurkent, að honum sjeu kunn ákvæði lánssamningsins. Það er því ekki hægt að segja, að hjer sje um ábyrgð „in blanco“ að ræða — ekki frekar en ef hv. þm. skrifaði upp á víxil án þess að skýra frá því, hversu hár hann væri. (JBald: Hvað er víxillinn hár?). Það veit hv. þm. (JBald: Vill hæstv. ráðh. ekki skýra frá því? — Stendur á svari?).

Út af lokaummælum hv. þm. þá skal jeg taka það fram, að það verður vitanlega stjórn Landsbankans, sem ráðstafar því fje, sem notað verður.