02.03.1928
Neðri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

1. mál, fjárlög 1929

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg ætla að byrja með að þakka fjvn. fyrir að hafa orðið við þeim tilmælum, sem jeg bar fram við 1. umr. fjárlaganna, um að afgreiða fjárlögin á skemri tíma en venja hefir verið undanfarið. Jeg hygg, að það sje ekki óviðeigandi við þetta tækifæri að beina sömu ummælum til hv. þm. yfirleitt, svo að þeir fari að dæmi nefndarinnar og tefji ekki afgreiðslu fjárlaganna með óþarfa málalengingum. Jeg álít, að í þessu máli sem öðrum beri að varast að tala bæði í tíma og ótíma.

Út af brtt. nefndarinnar hefi jeg ekki mikið að segja. Vil jeg fyrst minnast á tekjubálkinn. Nefndin hefir komið með nokkrar brtt. við hann, sem ekki eru stórfenglegar, en niðurstaðan er sú, að nefndin gerir ráð fyrir hækkun, sem nemur 300 þús. kr. Þrátt fyrir það, að nefndin hafði betri aðstöðu en jeg, þar sem hún hafði betri upplýsingar, hygg jeg, að reynslan ein geti skorið úr um það, hvort nefndin hafi komist nær því rjetta en jeg gerði í upphafi. Það má engan veginn skoða orð mín svo, að jeg sje að finna að brtt. nefndarinnar. Það er fjarri því, enda skal það viðurkent, að nefndin hefir gefið mjer kost á að segja álit mitt um flestar brtt. við tekjuhliðina. En þar sem svo er ætíð um tekjurnar, að aðeins er um áætlunarupphæðir að ræða, skiftir það ekki miklu máli, hvort skakkar þúsundinu til eða frá. Þetta, sem jeg hefi sagt, á í raun og veru einkum við nál. og brtt. nefndarinnar, að því leyti sem hún hefir öll starfað að þeim og orðið á eitt sátt. Það er eiginlega ekki hægt að segja, að það sje verulega mikið, sem á milli ber, en jeg lít svo á, að tveir nefndarmenn hafi tekið sjer sjerstöðu um nokkur atriði. Að því er snertir brtt. þeirra, kemur það auðvitað fyrst til greina, þegar til atkvgr. kemur, hvernig verður á þær litið. Þó get jeg ekki látið hjá líða að lýsa yfir því, að mjer finst þeim hafa verið gjarnt á að láta sparnaðartillögur sínar koma niður — jeg vil ekki segja þar, sem síst skyldi — en þar, sem það virðist vera ómaklegt, eins og til dæmis gagnvart Laugaskólanum eða Alþýðuskóla Þingeyinga og fjárveitingunni til Björns Jakobssonar leikfimikennara. Þar er ekki um háa upphæð að ræða, en hinsvegar á sá maður þá viðurkenningu skilið, að óviðeigandi er að útiloka hann frá þessum styrk. Enda er það svo, að styrkurinn er ekki beinlínis veittur honum sjálfum, heldur til þess, að hann geti látið enn meira gagn af sjer leiða en hann hefir gert hingað til. (JS: Nú er hæstv. ráðherra, kominn út í annan kafla). Jeg þykist mega tala alment um það mál, sem hjer liggur fyrir, en læt ekki setja mjer neinar reglur um það, hvar jeg gríp niður.

Jeg ætla ekki að víkja frekar að einstökum brtt. og kem jeg þá að brtt. hv. þm. yfirleitt. Það er ekki að undra, þó að allmargar brtt. komi fram. Jeg hefi farið lauslega yfir þær og get í raun og veru ekki sjeð, að neinar af þeim sjeu svo mikilvægar, að þær geti haft nokkra verulega, almenna þýðingu. Víðast hvar er um smáupphæðir að ræða, sem betur fer. Jeg ætla ekki að fara frekar út í þær að svo stöddu. Síðar gefst mjer væntanlega tækifæri til þess að taka afstöðu til hverrar fyrir sig.

Þó að það sje að vísu gott og blessað, að hv. nefnd hefir gengið frá frv. án tekjuhalla, virðist mjer einnig þurfa að taka til greina við ákvörðun útgjalda, að verða munu allmiklar útgjaldaupphæðir, sem stafa frá sjerstökum lögum. Það er svo margt, sem menn hafa komið auga á, að nauðsynlegt sje að koma fram sem fyrst á sviði verklegra framkvæmda. Það hafa þegar komið fram allmörg frv., sem hafa aukning útgjalda í för með sjer. Jeg skal minnast á nokkur þeirra, þó að mjer sje að svo komnu máli ekki fullkomlega ljóst, hversu mikinn kostnað þau leiða af sjer. Jeg skal fyrst nefna frv. um ríkisrekstur á víðvarpi. Það hefir mikinn útgjaldaauka í för með sjer. En menn mega ekki skilja orð mín svo, að jeg sje að leggja á móti því máli. Það er síður en svo. Jeg bendi aðeins á þetta til þess að sýna, hve margt það er, sem Alþingi þarf að taka tillit til, ekki einungis við ákvörðun útgjaldaliða í fjárlögunum, heldur líka einstakra frv. Þá vil jeg nefna frv. um byggingar- og landnámssjóð, frv. um tilbúinn áburð, frv. um aukna landhelgigæslu, frv. um betrunarhús og letigarð, frv. um stofnun nýbýla, frv. um atvinnuleysistryggingar, frv. um sundhöll í Reykjavík, frv. um veðlánasjóð fiskimanna o. m. fl. Það er eiginlega ekki nóg með það, þó að menn sjái fram á, að þeir eigi í vændum að standa straum af ýmsum óhjákvæmilegum útgjöldum, heldur eru í fjárlögunum sjálfum nokkrir liðir, sem ekki er hægt að áætla nákvæmlega. Af þessu leiðir, að gera má ráð fyrir, að allmikill útgjaldaauki verði fram yfir það, sem áætlað er. Til dæmis var til jarðræktarlaganna áætlað fyrst 50 þús. kr. árlega. Brátt kom í ljós, að það náði engri átt. Útgjöldin voru miklu meiri en það, enda fór svo innan skamms, að upphæðin tvöfaldaðist, og meira en það. En þegar svo er komið, er ekki gott að vita, hvar muni staðar numið. Jeg vil ekki gefa í skyn, að fjenu sje illa varið. Það er öðru nær. En úr því gengið er inn á þá braut, að gefa mönnum fyrirheit um að endurgreiða þeim kostnað, sem þeir hafa af mikilli framtakssemi sinni og dugnaði við ýmiskonar framfaraviðleitni, þá er sjálfsagt að efna þau fyrirheit. Það dugir ekki að segja, þegar reikningarnir koma: Það er ekkert í kassanum. — Það er betra að gera sjer það ljóst fyrirfram, að þessi útgjöld verða að greiðast, og hafa hliðsjón af því við frekari framkvæmdir í fjármálunum.

Annað atriði er það, sem ekki hefir síður reynst erfitt viðfangs, en það er kostnaðurinn við berklavarnalögin. Mjer hefir ofboðið, hvernig sá kostnaður á örstuttum tíma hefir farið hraðvaxandi. Það hefir verið búist við, að hann mundi vera búinn að ná hámarki sínu, þegar breytingar þær, sem gerðar voru á lögunum á síðasta þingi, væru farnar að verka. Enn hefir samt ekki borið á, að þær hafi komið að nokkru liði, og jeg býst ekki við, að þess gæti að mun á þessu ári, og varla á næsta ári heldur. En fari kostnaðurinn vaxandi, eins og verið hefir, sjá allir, að hann getur orðið svo mikill, að varla verði undir honum risið. En þar sem um slíkt mannúðarmál er að ræða, getur ekki verið að tala um að neita mönnum um þá hjálp, sem þeir þarfnast, ef það eru þurfandi sjúklingar. Það hafa að vísu heyrst raddir um, að í ýmsum tilfellum væri gengið lengra en góðu hófi gegnir um sjúkrahúsvist slíkra sjúklinga, og það hefir verið látið í ljós, að ýmsir góðir læknar muni eiga þátt í því að letja menn ekki til sjúkrahúsveru.

Þar sem kannske er ekki ástæða til að minnast frekar á einstakar brtt. hv. þm., fyr en þeir hafa gert grein fyrir þeim, verður það ekki öllu meira, sem jeg þarf að taka fram nú, enda mun fara best á því, þar sem jeg hefi verið að hvetja menn til að greiða sem mest fyrir afgreiðslu fjárlaganna. En að endingu vil jeg geta þess, að mjer virðist svo, sem komið hafi fram raddir í þá átt að reyna að gera sem mest úr því, hvað stjórnin hafi leyft sjer að ganga langt í takmörkun fjárframlaga til verklegra framkvæmda. Það hafa verið gerðar tilraunir til þess að gera það landfleygt, að hin núverandi Framsóknarstjórn hefði brugðist vonum manna í þessu efni, þar sem ekki væri mikið framsóknarbragð að fjármálatillögum hennar, einkum að því er snertir verklegar framkvæmdir. En það hefir ekki verið farið nákvæmlega út í það að gera mönnum ljóst, að hve miklu leyti þessar takmarkanir ættu sjer stað og í hverju þær lægju: Jeg viðurkenni ekki, að þetta sje rjett. Jeg hygg, að þessum orðasveimi sje á lofti haldið til þess að reyna að vekja andúð á móti stjórninni og Framsóknarflokknum yfirleitt. Jeg skal geta þess, að til vegalagninga hefir verið gert ráð fyrir álíka miklu fje nú og síðustu undanfarin ár, svo að á því sviði býst jeg ekki við, að ástæða sje til kvartana. Auk þess hefir verið lagt ríflega til viðhalds vegunum, og enn bætist við, að síðastl. ár var varið miklu umfram það, sem veitt var í fjárlögum í þessu skyni, og vel getur farið svo, að sú verði einnig niðurstaðan nú, þó að það sje í sjálfu sjer æskilegast, að sem allra skemst sje farið út fyrir þann ramma, sem markaður er með fjárlögunum. Það, sem gefur tilefni til þeirrar óánægju, sem heyrst hefir, mun vera það, að í fjárlögunum er frá stjórnarinnar hendi ekki beinlínis gert ráð fyrir framlagi til nýrra vita eða nýrra brúa. En auðvitað er ríflega lagt til nauðsynlegs viðhalds og rekstrarkostnaðar þeirra, sem nú eru. Það er hvorttveggja, að eins og allir sjá, eru það fyrst og fremst hin lögboðnu útgjöld, sem ekki er hægt að hliðra sjer hjá og sem verða að sitja í fyrirrúmi fyrir öllum öðrum, og þar sem síðasta ár reyndist svo miklu tekjurýrara en við var búist, er ástæða til að ætla, að svo muni einnig verða um þetta ár. Það er því þýðingarlaust að gera ráð fyrir háum upphæðum í þessu skyni, því að fyrst verður að gera sjer grein fyrir, hvernig fjenu verði náð. Jeg og fleiri hafa litið svo á, að ekki væri hægt að veita svo mikið fje í fjárlögum hvers ár, að það væri í rjettu hlutfalli við framfaraþrá almennings. Þess vegna þótti nauðsyn til bera að veita heimild í brúalögunum til að taka lán til slíkra hluta og til opinberra bygginga. Þetta hefir lítið verið notað, en til þess að friða menn, sem hafa áhyggjur út af þessum málum, skal jeg geta þess, að það er opin leið til að hrinda hinum verklegu framkvæmdum áfram, með því að hagnýta sjer þá lánsheimild. Mjer finst, að það ætti að vera öllum ljóst, að svo margskonar framkvæmdir bíða úrlausnar á þessu landi, að ekki er hægt að ætlast til, að fje verði veitt til þeirra allra af fjárlagatekjum hvers árs. Núverandi kynslóð hefir, eins og kunnugt er, ekki tekið mikið að erfðum frá undanfarandi kynslóðum um ýmsar nauðsynlegar umbætur. Nálega á öllum sviðum hefir verið vanræksla um verklegar framkvæmdir fram undir síðustu aldamót. Ef um þesskonar framkvæmdir er að ræða, sem hafa varanlegt gildi, þá er það ekki með öllu ósanngjarnt, að næstu ættliðir beri að einhverju leyti nokkuð af þeim kostnaði, sem fer í mannvirki, sem reist eru með komandi tíma fyrir augum.

Jeg vil taka það skýrt fram, að það eru sjerstaklega tveir fjárveitinganefndarmenn, þeir hv. þm. Borgf. (PO) og hv. 2. þm. Skagf. (JS), sem hafa nokkra sjerstöðu og virðast ekki hallast að þeirri skoðun að taka lán til brúabygginga eða annara framkvæmda.

Jeg vænti þó þess, að niðurlagsorð þeirra í nál. fjvn. sje ekki fullkomlega alvarlega meint; þeir hafi aðeins viljað láta það koma skýrt í ljós, að þeir væru ekki ánægðir fyr en meira fje væri fyrir hendi til framkvæmda.

Þessir ágætu sparnaðarmenn og búhöldar hljóta að sjá fram á, að það er ekkert snjallræði, ekkert heillaráð, sem þeir benda til í aths. sinni. Allra síst ættu þeir að verða til þess að afgreiða fjárlögin með tekjuhalla, ef annars er kostur. Jeg býst heldur ekki við, að sú sje meining þeirra, heldur hafi þeir verið að gera að gamni sínu.

Jeg vil benda þessum hv. þm. á það, að vænlegasta ráðið til að komast að því takmarki, sem þeir keppa eftir að ná, er það, að taka nú vingjarnlega í þau tekjuaukafrv., hvort heldur eru frá stjórninni eða einstökum þm., sem borin eru og borin kunna að verða fram á þessu þingi. Ef þeir snúast að því ráði, hygg jeg, að úr muni rætast um fjárframlög til þeirra framkvæmda, sem þeir bera helst fyrir brjósti.