25.02.1928
Efri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

30. mál, tilbúinn áburður

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg vil benda hv. 3. landsk. á, að í síðari ræðu sinni var hann að verja hringana, sem hann vildi lasta í hinni fyrri. Síðari ræða hans hafði það m. a. að markmiði að sýna, að þeir hefðu leyst af hendi þrekvirki í verslunarmálum. Þetta er nokkuð hvort á móti öðru hjá hv. þm.

Jeg talaði ekki um óheiðarlega verslun og áfeldist ekki heldur hringana. Þeir eru afleiðing af því ástandi, sem nú ríkir alment í verslunarmálum. Það er beinlínis lögmál, að menn slá sjer þannig saman vegna eigin hagsmuna. Er ómögulegt að koma í veg fyrir þetta, nema því aðeins, að þjóðfjelagið taki í taumana. Þegar einhver hringur hefir náð í sínar hendur versluninni með vissa vörutegund, þá kemur einmitt sjerstaklega til álita, hvort ekki sje hentugt að stofna þar til ríkiseinkasölu.

Hv. 3. landsk. talaði um, að í þessu máli ætti að haga áburðarsölunni eingöngu eftir þörfum viðskiftamannanna. Ef nú farmgjaldið er greitt og áburðurinn síðan seldur kaupmönnum, þá fer allur gróðinn út í veður og vind. Ef kaupmenn þurfa að liggja með áburðinn, er ekki vafamál, að þeir leggja á hann fyrir flutningsgjaldinu líka. — Engin vandkvæði verða á því fyrir nokkurn bónda að afla sjer áburðar eftir frv., og það veit hv. 3. landsk. ofurvel sjálfur.

Þá vil jeg benda á, að 5% álagningarheimildin lítur nokkuð öðruvísi út, ef áburðurinn er gerður að almennri verslunarvöru. Þá má skilja ákvæðið svo, að smásalarnir hafi heimild til þessarar álagningar, en ríkið ekki til neinnar, gagnstætt því, sem í frv. segir eins og það er nú. Hjer er það ekki venjuleg verslunarleið, sem farin er, því að búnaðarfjelögunum, bæjar- og hreppsfjelögum og Samvinnufjelögum bænda er ætlað að deila út áburðarpöntununum, án þess að þeim sje ætluð þóknun fyrir.

Ef brtt. hv. 3. landsk. nær fram að ganga, þá gerir það verslunina erfiðari, og það er áreiðanlegt, að varan verður við það dýrari.