25.02.1928
Efri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

30. mál, tilbúinn áburður

Jón Þorláksson:

Hæstv. forsrh. misskildi orð mín og afstöðu til verslunar kaupmanna á útlendum áburði. Jeg átti við það, að álagningin væri svo lítil, að kaupmönnum væri þess vegna engin eftirsjón að því að vera lausir við verslun á honum, þar sem verslunarhagnaðurinn yrði svo lítill, að verslun með tilbúinn áburð yrði kaupmönnum fremur til þyngsla. Jeg hjelt ekki, að jeg þyrfti að fara að gera grein fyrir því, hvernig verslun bænda er háttað, sem er á þann veg, að á vorin, þegar þeir verða að gera kaup á tilbúna áburðinum, hafa þeir engan gjaldeyri. Þeir verða því að leita til þeirra, sem þeir versla við, kaupmanna eða kaupfjelaga, um gjaldfrest til hausts. — Þeir bændur, sem versla við kaupfjelög, munu því venjulega geta fengið áburðinn með þessum gjaldfresti, en hinir ekki, sem við kaupmenn versla. Þeir bændur munu því yfirleitt verða útilokaðir frá að fá áburðinn til notkunar, meðan ekki er kostur á rekstrarfje öðruvísi en nú er. Þetta mun því draga úr notkun tilbúins áburðar. Úr því vildi jeg bæta með brtt. þeirri, er jeg hefi borið fram.

Þá talaði hæstv. forsrh. um það, að hann gæti verið hlyntur brtt., sem trygði bændur fyrir því, að þeim væri seldur áburðurinn með mismunandi verði. En jeg geri ráð fyrir því, að áburðurinn verði seldur með sama verði til allra, er fá að kaupa hann. Því hefir verið haldið fram, að kaupmenn myndu leggja á þetta meira en aðrir. En slíkt er alveg fyrirbygt. Viðskiftamennirnir munu sjálfir sjá um það, að þeir fái sömu kjör hjá sínum kaupmanni og aðrir fá annarsstaðar.

Þá þótti mjer hv. þm. Ak. vera heldur svartsýnn um sölu áburðarins. Hann heldur, að það geti gengið til lengdar, að enginn tilbúinn áburður sje til boða annar en sá, sem pantaður er fyrirfram, og því aðeins fluttur og afhentur samkvæmt ákveðnum pöntunum. En þetta held jeg sje fjarstæða. Ef vara á að ganga út og menn eiga að læra að nota hana, þá þarf hún að vera á boðstólum og fyrirliggjandi, einnig handa þeim, sem ekki hafa getað ráðið það við sig fyrirfram, hvort þeir ætluðu að nota hana eða ekki.