15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

30. mál, tilbúinn áburður

Halldór Stefánsson:

Á þskj. 419 á jeg brtt. við 2. gr, frv., og virðist hún einnig geta tekið yfir 1. brtt. nefndarinnar á þskj. 447.

Brtt. mín er að því leyti frábrugðin ákvæðum frv., að ekki er ætlast til, að farmgjöldin landa á milli sjeu greidd úr ríkissjóði, en í stað þess semji ríkisstjórnin um framhaldsflutning (gennemgaaende Fragt) á áburðinum til allra hafna á landinu, sem millilandaskip, strandferðaskip og flóabátar, sem styrks njóta af opinberu fje, koma á. Yrði þá farmgjald jafnt til allra hafna á landinu. Ennfremur verður stj. heimilt að greiða frekar fyrir dreifingu áburðarins með því að verja fje til að greiða frekari dreifingu áburðarins á sjó hafna á milli og að einhverju leyti landflutning frá sjó. Vera má, að ríkissjóður þurfi að leggja jafnmikið fje fram, en samanburð um það er ekki hægt að gera, svo ekki verður um það sagt. Hvað snertir flutning áburðarins á landi, þá er það einungis tekið fram með almennum orðum, að stjórninni sje heimilt að greiða hann að einhverju leyti, en ekki nánar teknar fram reglur fyrir því. Jeg áleit, að ekki færi vel á því í lögunum sjálfum að setja slík ákvæði, en það má taka nákvæmar fram í reglugerð.

Jeg skal því taka það fram hjer, hvað fyrir mjer vakir með þessu og hvernig jeg hefi hugsað mjer, að þessum greiðslum mætti koma fyrir og yrði varið. Þegar um stuttar vegalengdir er að ræða, t. d. fyrir vegalengdir alt að 15 km., væri ekkert greitt. En fyrir lengri vegalengdir væri greitt hlutfallslega við vegalengdina, það, sem stj., í samráði við Búnaðarfjelag Íslands, þætti hæfilegt.

Það, sem jeg tel till. mína hafa fram yfir frv. og brtt nefndarinnar, er, að hún er yfirgripsmeiri og, að því er mjer virðist, rjettlátari. Aðalhugsun mín er sú, að allir standi sem jafnast að vígi um verð á áburðinum, hvar á landinu sem þeir búa, — fyrst og fremst að flutningskostnaður verði jafn á allar hafnir og að ljett verði svo sem unt er undir með þeim, sem langt eiga til aðdrátta. Að vísu er ekki hægt að búast við, að fullkomið samræmi náist meðal hinna ýmsu hjeraða landsins á þennan hátt, en það næst þó betur en ef farið er eftir frv. að viðbættri brtt. nefndarinnar. Eftir frv. koma þessar ívilnanir niður þar, sem minst er þörfin, en eftir till. mínum þar, sem aðflutningar eru örðugastir og dýrastir og þörfin mest. Þykir mjer ekki ólíklegt, að menn geti fallist á þær, engu síður en frvgr.