15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2208 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

30. mál, tilbúinn áburður

Jón Ólafsson:

Það er nú búið að ræða mál þetta allmikið, og það, sem um er deilt, virðist mjer smámunir einir. Sumum hv. deildarmönnum finst óbragð af frv. þessu, af því að það er kent við einkasölu, en jeg lít svo á, að það sje hjegómi, því að frá verslunarlegu sjónarmiði skiftir þetta litlu máli. Það, sem aðallega er hjer um að ræða og aðaláherslan er lögð á, er það, að hlunnindi þau, sem hjer á að veita, nái til sem flestra. Og úr því að búið er að ákveða það, að kaupmenn hafi útsölu á vöru þessari eins og aðrir, þá er ekki eftir nema heildsalan, og jeg held, að hún sje ekki svo stór biti, að verslunarstjettin þurfi að sjá eftir henni. Það er því aðeins „principið“, sem hjer getur gefið tilefni til deilu.

Það má vitanlega altaf þrátta um, hvort rjett sje að gefa bændum eitthvað eftir af flutningsgjaldi vöru þessarar, en úr því að það er ákveðið, þá fæ jeg ekki sjeð, hvernig það verður hægt á annan hátt en að láta ríkið annast söluna að einhverju leyti.

Jeg held, að það geti ekki komið til mála, að komið verði á verslun í þessu efni í gegnum aðra milliliði en þá, sem frv. gerir ráð fyrir, vegna þess að með því er grundvallarhugsun frv. kollvarpað.

Mjer skildist helst á orðum hv. þm. Barð., að honum þyki ekki mikið til frv. koma í heild eða stefnu þess. Þá skoðun getur hann haft út af fyrir sig án þess jeg fari að deila um það. En þar sem hann var að tala um, að fyrst ætti að kenna bændum að hirða um og nota betur sinn heimafengna áburð, áður en hafist sje handa að flytja inn tilbúinn áburð, þá er því til að svara, að jeg geri ekki ráð fyrir, að með þeim bændum, sem ekki hugsa um sinn heimaáburð, þurfi að reikna. Það eru aðeins dugnaðarmennirnir, sem manndáð hafa í sjer til búskapar, sem hvorttveggja gera: nota vel sinn heimaáburð og kaupa erlendan áburð til aukinnar ræktunar, sem við reiknum með. Hina, sem ekkert vilja gera, látum við eiga sig. Jeg held lítið leggjandi upp úr því í þessu sambandi að skylda menn til þess að kaupa áburðinn og nota; það er búið um margt ár að leggja bændum styrk til þess að örva þá til framtakssemi. Það hefir eflaust komið mörgum að góðu gagni, eða þeim, sem eitthvað vilja gera. Um hina er ekki að tala, sem engum ráðleggingum vilja taka.

Þá er það fyrirkomulag það, sem frv. gerir ráð fyrir um ókeypis flutning áburðarins til landsins. Mjer heyrist nú á ýmsum háttv. þdm., að sú ívilnun eða þau þægindi, sem frv. veitir í þessu efni, komi helst niður á kaupstöðunum; það verði þeir, er eingöngu eða að mestu leyti njóti þessara hlunninda.

Þetta má nú kannske til sanns vegar færa, en um leið mætti þá minna á það, að kaupstaðirnir eru taldir að leggja allríflega af mörkum í ríkiskassann, svo að það ætti þá ekki að vera nein höfuðsök, þó að þeir njóti slíkra hlunninda í staðinn, enda mun það tilgangur hæstv. stj. og annara, sem að frv. standa, að gera ekki upp á milli manna í þessu.

Hvað því viðvíkur að hjálpa upp á fjallabúana, sem fjarri kaupstöðunum búa, þá er það ekki nema sjálfsagt að reyna að bæta úr þörfum þeirra, eftir því sem hægt er. Þó geri jeg ráð fyrir, að þau hjeruð, sem ennþá notast að mestu við flutninga á klökkum eða smávögnum, eigi langt í land að verða aðnjótandi þeirra hlunninda, er notkun tilbúins áburðar veitir. Hjer kemur fram það sama og raunar víða, að yfirleitt er ekki hægt að hlynna að bændum og auka framtakssemi þeirra nema með góðum samgöngum. Þeir eiga erfitt með að draga að sjer um langa vegu alla þungavöru á þeim flutningatækjum, er þeir hafa yfir að ráða. Það verður því sauðfjárræktin, sem borgar sig best í þessum fjallahjeruðum á meðan verið er að bæta samgöngurnar, og afleiðingin þá sú, að þær jarðir, sem fallnar eru til kúaræktar, munu nota þennan tilbúna eða innflutta áburð fyrst um sinn.

Þá var það hv. 1. þm. N.-M., sem fórust orð á þá leið, að ýmsir hefðu sjeð ljón á vegi þeirra framkvæmda, sem brtt. hans á þskj. 419 miðar að. Það er svo með mig, að jeg sje ýms ljón á þeim vegi og get því ekki áttað mig á, hvernig þessu verði komið fyrir á þann hátt, sem brtt. gerir ráð fyrir. Mjer skilst, að erfitt væri að ákveða, hvað mikið ætti að greiða, ef styrkurinn t. d. væri miðaður við kílómetra. Því að sjálf vegalengdin er enginn mælikvarði. Hitt mætti að sjálfsögðu: flokka niður hreppana í landinu og ákveða fyrirfram, hvað mikil ívilnun skuli gefin, svo ekki yrði hægt að villast um, hvað mikið þetta yrði. En væri þetta ekki ákveðið fyrirfram, er jeg hræddur um, ef miðað væri við kílómetra, þá yrði reynt að teygja sig eins langt og hægt er, enda hefir venjan verið sú, þegar menn hafa getað komist í ríkissjóðinn, að hlífa honum ekki.

Jeg sje því ekki aðra leið færa, ef breyta á frá stjfrv., en að flokka hreppa landsins og ákveða fyrirfram, í hvaða flokki hver hreppur eigi að vera, hvað hann eigi að fá mikinn styrk, miðað við eina smálest, og hvað hinn. Jeg held, að hafa mætti fyrir sjer skýrslur, er sýndu áburðarnotkun hvers hrepps undanfarin ár, og miða styrkinn við það.

Annars hefði jeg nú haldið, að hv. deild færi ekki að hrófla við grundvallaratriðum frv., af því að hjer er um nýmæli að ræða, sem lagfæra mætti síðar, þegar reynslan hefði sýnt, að annað skipulag mundi heppilegra. En eigi brtt. hv. 1. þm. N.-M. að koma til framkvæmda, sem eru mjög víðtækar breytingar á frv. frá því, sem það nú er, þá kemur margt til athugunar, ef greiðslan á að miðast við kílómetra, t. d. hvort um góðan akfæran veg er að ræða eða vegleysur, eins og flestar sveitir eiga við að búa. Því vitanlega á það ekki saman nema nafnið að flytja vörur sínar úr kaupstaðnum heim til sín á baggahestum eða bíl.

Þá hefir það verið látið klingja, að það væri svo sem auðsjeð, að Sunnlendingar væru í meiri hl. í landbn., þar sem hún legði til, að ókeypis flutningur næði einnig til landleiðarinnar úr Reykjavík austur að Selfossi og Þjórsárbrú. En það erum ekki við austanmenn í nefndinni, sem höfum sett þetta inn, heldur þeir, sem sáu, að ekki var hægt að fá áburðinn inn í sýslurnar austanfjalls á annan hátt en í gegnum Reykjavík. Þetta er fleirum ljóst en nefndinni, sem taldi ýms vandkvæði á, hvað gera ætti til þess að ljetta undir með þessum frjósömu sveitum að ná í áburðinn. En hitt er satt, að okkur austanmönnunum þykir það engin ósanngirni, þó að bændur austanfjalls njóti þeirrar ívilnunar, sem 1. brtt. nefndarinnar fer fram á.

Hæstv. atvmrh. hefir svarað spurningum hv. 1. þm. N.-M. um álagningu áburðarverslunarinnar, svo að jeg þarf ekki að eyða orðum að því.

Að lokum vildi jeg þá segja það, að við nefndarmenn munum tregir til að breyta frv. og stofna til fjárútláta eitthvað út í bláinn, enda finst mjer engin frágangssök að láta sitja við það, sem hæstv. stj. hefir lagt til, t. d. um eitt ár, og mætti þá breyta um, ef reynslan bendir til, að annað muni hagkvæmara.

Mjer dettur ekki í hug að halda svo stíft fram rjetti kaupstaðanna um þessi hlunnindi, að jeg vilji ekki, að athugað sje, á hvern hátt sveitirnar geti orðið slíkra ívilnana aðnjótandi betur en gert er ráð fyrir í frv.

Mín skoðun er, að þetta mál eins og það liggur fyrir eigi að verða til þess, að bændur hefjist handa og auki jarðræktina til stórra muna. En eins og allir vita, byggist afkoma landbúnaðarins í framtíðinni á aukinni ræktun landsins og framtakssemi einstaklinganna, og hana verður að örva og henni verður að veita lið á allan mögulegan hátt.