15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2212 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

30. mál, tilbúinn áburður

Hákon Kristófersson:

Þessi fáu og hógværu orð, sem jeg sagði hjer í dag, hafa orðið til þess, að ýmsir hv. þdm. hafa risið upp og fundið ástæðu til að víkja ræðum sínum til mín. Jafnvel hv. 3. þm. Reykv. hefir nú gengið fram fyrir skjöldu til þess að verja hæstv. stj., og verð jeg að segja það eins og það er, að jeg hefði ekki búist við því fyrirbrigði, því jeg hafði nú haldið, að öðrum stæði það nær að verja stj. í þessu máli en honum. En af því að hann talaði síðastur þeirra hv. þdm., sem beint hafa orðum til mín, þá ætla jeg að svara honum fyrst.

Í sambandi við þau orð, sem jeg ljet falla í dag um áburðarhirðingu bænda, vildi hann láta líta svo út, að jeg hefði meint, að bændur væru yfir höfuð þeir dæmalausir trassar, að ekkert tillit ætti að taka til þeirra í þessu efni. Jeg hjelt nú, að hv. 3. þm. Reykv. væri vandari að virðingu sinni en svo, að hann fyndi hvöt hjá sjer að snúa þannig út úr orðum þeirra, sem eru á annari skoðun í einhverju máli en hann. En þetta hefir hann gert og farið þar að dæmi hv. frsm., sem jeg kem síðar að.

Jeg sagði ekkert annað en það, að talsvert væri af áburði úti um sveitir, sem ekki mundi notaður, og benti á, að hagkvæmara mundi vera að kenna bændum að meta gildi síns heimafengna áburðar með betri hirðingu hans og meiri notkun, og styrkveitingum í því skyni, heldur en að ætlast til, að þeir hinir sömu færu að flytja heim til sín erlendan áburð með ærnum kostnaði. — Eins og hv. sama þm. mátti vera fullljóst, þá hnigu orð mín að því einu að gera ráð fyrir takmörkun á getumöguleikum hinna smærri bænda og fátækra einyrkja í sambandi við áburðarkaupin. En með slíkum mönnum virtist hv. þm. alls ekki vilja reikna; þeir kæmu ekki til greina í þessu efni. Eftir sama hugsunargangi mætti með sama rjetti segja, að ekki bæri að telja sem útgerðarmenn aðra en Kveldúlf og Alliance eða aðra slíka „stórlaxa“, en útvegsmenn mótorbáta og annara smærri báta ættu þá að teljast eitthvað annað — jeg veit ekki hvað. A. m. k. eins og orð hv. þm. fjellu, koma þau manni til að álykta á þessa leið.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði í þessu sambandi, að kaupstaðirnir legðu alldrjúgan skerf í ríkiskassann. Því neitar enginn, en það gera sveitirnar líka, þó að jeg geti ekki sýnt það með tölum nú, hvað það sje mikið, því það er í rauninni ómögulegt. Og þó að kaupstaðirnir leggi mikið af mörkum, þá held jeg, að ekki verði gott að sýna það reikningslega, hvað sje hið raunverulega framlag kaupstaðanna og hvað sveitanna í þarfir ríkisins. Eins og kunnugt er, greiðast tollarnir af út- og innfluttum vörum í kaupstöðum víðsvegar á landinu, en þær vörur fara að allmiklu leyti út um sveitirnar til notkunar, eins og líka sumar útflutningsvörur eru þaðan komnar til kaupstaðanna. Sannleikurinn er sá, að því aðeins eru kaupstaðirnir til, að sveitirnar hjálpa þeim í lífsbaráttu þeirra og styðja þá til þess að ná því bjargræði, sem afkoma kaupstaðanna byggist á. Annars er það ekkert undarlegt að heyra slík orð frá þeim, sem rífa vilja niður það þjóðskipulag, sem nú er, og telja sveitirnar ómaga bæjanna, en það er hart, að jafnmætur maður og hv. 3. þm. Reykv. skuli láta sjer jafnógætileg orð um munn fara, því sú er spá mín, enda hefir reynslan sannað það, að sveitirnar mundu lífseigari verða en kaupstaðirnir, ef vandræði bæru að höndum, t. d. aflaleysisár eða þvíumlíkt. Hitt er auðvitað mál, að báðir þessir aðiljar komast því aðeins vel af, að hvor geti styrkt annan.

Orð þau, sem jeg talaði hjer í dag, voru eingöngu mælt gegn grundvallarstefnu frv. Jeg sagði það, að þó tilgangur frv. væri góður, þá hjálpaði hann ekki mikið upp á þá, sem fátækari væru eða mættu sín minna fjárhagslega. Jeg trúi því, þegar slíkt skeður, að mörg hreppsfjelög eða búnaðarfjelög borgi fyrir þá, sem vöruna hafa pantað, en geta ekki staðið í skilum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að slík fjelög hafa ekki peninga á reiðum höndum fram yfir þarfir sínar. Við skulum segja, að varan sje send gegn eftirkröfu og verður ekki greidd. Á hverjum lendir þá tapið?

Það var einmitt þetta, sem jeg benti á í dag í ræðu minni, og taldi varhugavert að öllu væri slöngvað á ríkissjóðinn. Hitt tók jeg líka fram, að ekki mundi minni ástæða til að styrkja áburðarflutninginn eftir að til landsins kemur og farið er að dreifa honum út um sveitirnar.

Það hefir verið talið hægt að semja um þennan áburðarflutning til landsins við Eimskipafjelagið, eins og hæstv. atvmrh. meðal annars tók fram. Jeg efast alls ekki um, að þetta sje hægt. En jeg sje ekki betur en að peningarnir sjeu teknir í öðrum vasanum og látnir í hinn. Því vitanlega verður ríkissjóður að taka á sig hallann, þegar Eimskipafjelagið vill ekki lengur bera hann. Annars var mjer bent á það utan umr. í dag, að þar sem ríkissjóður ætti skip, þá væri ekki nema náttúrlegt, að það yrði látið annast áburðarflutninginn milli hafna, þar sem því yrði komið við.

Hv. þm. Mýr. þarf jeg litlu að svara. Ræða hans var prúðmannleg í minn garð. Honum hefir misheyrst, ef honum hefir heyrst jeg segja, að mikið væri um tilbúinn áburð úti um sveitir. En hitt sagði jeg, að mikið væri til af ónotuðum áburði úti um sveitir landsins, og átti þar vitanlega við heimafenginn áburð. Hinu hefi jeg heldur ekki neitað, að notkun tilbúins áburðar mundi, þar sem henni verður við komið með hægu móti, verða lyftistöng undir aukna ræktun landsins. Í þessu sambandi vil jeg þá nota tækifærið og leiðrjetta misskilning, sem mjer virtist koma fram í orðum þeim, er hv. 2. þm. Rang. beindi til mín. Jeg lýsti því aldrei yfir, að jeg hefði enga trú á notkun tilbúins áburðar. Hinsvegar vil jeg mótmæla því, að þessi ívilnun á flutningnum sje nokkur styrkur frá sjávarútveginum, og segi jeg það ekki af því, að jeg vilji á neinn hátt móðga þann atvinnuveg eða þá menn, sem að honum standa, enda hefi jeg jafnan reynt að vera hans styrktarmaður, engu síður en landbúnaðarins.

Í sambandi við þau ummæli, sem fallið hafa hjer í dag, að þetta áburðarmál væri allmikil hvatning til bænda landsins um að auka jarðræktina, og vil jeg ekki mótmæla því, að svo sje þar, sem staðhættir eru þann veg, að auðvelt er að notfæra sjer þetta. En alt er þetta á byrjunarstigi, og fyrstu reynsluárin er tæplega að vænta mikils árangurs, sjerstaklega þegar um fátæka menn er að ræða, sem eiga fult í fangi að sjá fyrir allra nauðsynlegustu þörfum sínum og sinna. En þetta skilja kannske ekki þeir — eða vilja ekki skilja það —, sem hafa nóg af öllu og búa við þau bestu lífsskilyrði, sem fáanleg eru hjer í landi.

Þá var það hv. frsm., sem ljet sjer sæma að fara þannig orðum um mig út af því, sem jeg sagði í dag um þetta mál, að auðheyrt væri á öllu, að jeg hefði enga trú á ræktun landsins.

Hvað á nú að segja um slíka afbökun á orðum andstæðings síns? Er það heyrnarleysi að kenna eða sprottið af sjerstakri tilhneiging hans um að rangfæra orð andstæðinganna sjer í vil? Að minsta kosti geri jeg fastlega ráð fyrir, að enginn annar hv. þdm. hafi getað fengið þetta út úr orðum mínum. Jeg einmitt tók það fram í dag, hve nauðsynlegt það væri, að landið væri sem mest og best ræktað, en hv. frsm. segir í sambandi við það, að undarlegt sje, að bóndi úr sveit skuli standa upp til þess að tala á móti þessu máli. En mjer finst enn undarlegra, að hann sem bóndi og maður, sem jeg ætla að sje góðgjarn, skuli láta sjer sæma að koma með jafnrakalausar getsakir í garð samþingismanns síns.

Jeg vil beina þessum orðum til hæstv. atvmrh., sem sagði, að jeg hefði á sínum tíma staðið framarlega í flokki þeirra manna, sem vildu koma einkasölu á. En það var á þeim tíma, er þeir atburðir gerðust, sem best er að fara ekki langt inn á, vegna hæstv. atvmrh. — Jeg hefi þá trú, að þótt þetta frv. verði að lögum, þá verði það ekki lyftistöng fyrir þau mörgu fátæku hjeruð, sem hjálpar þarfnast í þessum efnum.

Það getur vel verið, að hv. þm. V.-Sk. viti, hve mikið af áburði er flutt til Skaftafellssýslu. En er það nú virkilega sami hv. þm., sem sagði, að bændur bæru sig illa yfir kostnaðinum? En hverjir bera sig illa yfir kostnaðinum við flutning á áburðinum til landsins, nema hann og samnefndarmenn hans? Jeg hefði litið svo til, að þessi hv. þm. væri ekki líklegur til að bera sig illa, en hefði jafnframt haldið, að með honum feldist betra Íslendingseðli en fram kom í ræðu hans í dag, er hann lagði illar meiningar og ósannar og ómaklegar í mín orð.

Það hafa komið fram loforð frá ýmsum hliðum um lagfæringar á þessu frv. við 3. umr., og er gott að lifa í voninni um það, eins og hæstv. atvmrh. lifir í þeirri von, að nöfn þeirra, sem standa fyrir því að koma þessu á, muni lengi í minnum höfð. En jeg verð nú að segja, að það „varðar mestu, að allra orða undirstaðan sje rjettleg fundin“. En nú eru horfnar allar þær ástæður, sem jeg taldi mæla mest með einkasölu á þessu sviði, þegar jeg var með henni, og er því ekki rjett að bendla mig við skoðanaskifti í þessu máli. Í þessu nál., sem jeg þegar hefi getið um, segir í brtt., sem nefndin bar fram: „Heimild þessa skal ekki nota, ef Búnaðarfjelag Íslands hefir 1. janúar 1927 fengið aftur í sínar hendur einkaumboð fyrir sölu á Noregssaltpjetri eða öðrum jafngóðum kalksaltpjeturstegundum“. Og þótt ekki sje ennþá beinlínis svo komið, þá er aðstaðan breytt á þann hátt, að sölufyrirkomulagið stendur ekki, hvorki að mínu áliti nje annara, í vegi fyrir sæmilegu verði. Enda er það kunnugt, að mikilsvirtur fjelagsskapur, sem samanstendur af mörgum bændum, hefir nú mikið af sölu áburðarins með höndum.

Það er ekki svo, að jeg vilji líkja þessari einkasölu við einokunina gömlu, en jeg verð að álíta einkasölu í alla staði óhentuga og óhagstæða fyrir ríkissjóð yfirleitt. En hitt er annað mál, að á neyðartímum verður ríkið stundum að taka að sjer sölu einhverra vörutegunda.

Jeg hjelt satt að segja, að jeg hefði í dag stilt orðum mínum svo í hóf, að enginn þyrfti að leggja í þau illar meiningar, og jafnvel ekki hv. þm. V.-Sk. Sönnun þess eru orð hæstv. atvmrh., er hann sagði, að orð mín hefðu verið í alla staði áreitnislaus. Jeg gat talað um málið alveg hitalaust og ekki persónulega. Held jeg og, að jeg sje grandvar og yfirleitt laus við það að ráðast á menn að fyrra bragði. Hæstv. atvmrh. sagði raunar, að það væri sá munur á okkur, að hann hefði trúna, en jeg væri eins og Tómas. Þetta er að nokkru leyti rjett. Hann hefir trú á málið eins og það liggur fyrir, en það hefi jeg ekki. Mín trú er einungis sú, að við bændur þurfum að fá áburðinn með því verði, að allir geti aflað sjer hans.

Jeg skal líka viðurkenna það, sem hv. þm. Mýr. sagði í sinni mjög hógværu ræðu, að það sjest best hjer í kringum Reykjavík, hvað hægt er að gera með tilbúnum áburði. En þess finnast líka dæmi ekki langt frá Reykjavík, að stórar lendur liggja alveg óhreyfðar og sýna, að þar vantar sem víðar afl þeirra hluta, sem gera skal, sem sje peningana.

Jeg held jeg láti svo úttalað um þetta mál að sinni. Jeg vona, að jeg og stórvinur minn, hinn mæti þm. V.-Sk., sjeum nú kvittir, og ef honum sýnist að leggja meira inn í reikning sinn hjá mjer, þá megi það bíða til 3. umr.