15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2226 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

30. mál, tilbúinn áburður

Frsm. (Lárus Helgason):

Jeg ætla aðeins að gera stutta athugasemd. Hv. þm. Barð. hefir tekið sjer nærri orð, sem jeg ljet falla í síðustu ræðu minni til hans, enda mun honum þykja að sjer stefnt úr ýmsum áttum. Hann brigslaði mjer um, að jeg hefði snúið út úr ræðu sinni. Þessu þarf jeg raunar ekki að svara, því að hann viðurkendi síðar í ræðunni, að jeg hefði engan útúrsnúning haft í frammi. Hann endurtók nefnil. sín fyrri orð, að hann hefði ekki trú á því, að áburðurinn mundi flýta fyrir ræktun landsins. (HK: Þetta sagði jeg ekki, heldur hitt, að jeg hefði ekki trú á frv. Hv. þm. ætti að reyna að fara rjett með nú, þó að honum tækist það ekki í dag). Ójú, þetta viðurkendi hv. þm., en raunar er það satt, sem hv. 1. þm. Rang. sagði, að erfitt var að fylgjast með í ræðu hans, því að hann óð úr einu í annað:

Hv. þm. spurði, hvort jeg byggist við mikilli áburðarnotkun í Skaftafellssýslu. Jeg fæ raunar ekki sjeð, að það komi málinu beinlínis við, en get þó sagt það, að jeg vonast eftir, að svo verði, þó að hjeraðið sje afskekt.

Jeg held annars, að hv. þm. Barð. hafi verið í mjög slæmu skapi, þegar hann talaði áðan. Eitthvað mun það hafa breytst til batnaðar nú við þær áminningar, sem hann hefir fengið. En alt tal hans um útúrsnúning frá minni hálfu er á misskilningi bygt. Hann hefir sjálfur sannað, að svo er. Jeg hefi togað það upp úr honum, að hann hefir vantrú á frv. Nú fer frv. fram á að auka notkun tilbúins áburðar, og yfirfærist því vantrú hv. þm. á möguleika áburðarins til að flýta fyrir ræktun landsins.

Hv. þm. Dal. bar sig illa yfir því, að jeg hefði sagt, að hann hefði ekki meint það, sem hann sagði um einokun 17. og 18. aldar og ríkisverslun nú á tímum. Hann verður að þola það. Jeg endurtek þau ummæli mín, að hvorki hann nje aðrir vitibornir menn geta talað í alvöru, þegar þeir leggja þetta tvent að jöfnu. Sjálfum hlýtur þeim að vera ljóst, að þeir fara með fimbulfamb og markleysu. (MJ: Hver er aðalmunurinn). Mjer dettur ekki í hug að svara þessari fyrirspurn. Hvorki hv. 1. þm. Reykv. nje aðrir hv. þdm. eru svo mikil börn, að þess sje þörf.