29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2239 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

30. mál, tilbúinn áburður

Pjetur Ottesen:

Það eru aðeins nokkur orð út af ræðu hv. form. landbn. Hv. aðalflm. að brtt. á þskj. 574 hefir gert mjög ljósa grein fyrir því, að einmitt á þann hátt, sem við leggjum til, er tilgangi frv. mjög vel náð, en það er ekki hægt með öðru móti. Því að hann er sá, að auka þekkingu manna á nytsemi áburðarins, og þess vegna er það vitanlega höfuðatriðið í þessu máli að styrkja þá menn, sem örðugt eiga með öflun áburðarins og hafa þar af leiðandi ekki fært sjer í nyt þá hagsmuni, sem leitt geta af notkun hans.

Hv. 2. þm. Skagf. hefir nú gert glögga grein fyrir því, hvernig við hugsum okkur, að þessi stuðningur komi niður. Samkv. frv. eins og það er nú, þá eiga þeir, sem í kaupstöðum búa eða nálægt þeim, að fá allan flutningskostnað greiddan, en því fjær sem menn búa kaupstöðum og eiga erfiðara með aðdrætti, því minna eiga menn að fá, og þeir, sem fjærst búa og örðugast eiga, fá minst, eða ekki nema örlítinn hundraðshluta.

Hv. frsm. gerði tilraun til þess að verja þetta ranglæti með því, að í kaupstöðum og nærliggjandi sveitum, þar sem margt fólk væri samankomið, þar kæmi þessi stuðningur að állverulegu liði. En hv. 2. þm. Skagf. hefir sýnt fram á það, að þessir bændur hafa yfirleitt miklu betri aðstöðu en aðrir, og eru alveg ósambærilegir við aðra að því leyti, hve þeir eiga miklu hægara með að koma afurðum sínum í verð en aðrir bændur.

Hv. frsm. sagði, að fyrirkomulag okkar væri mjög þungt í vöfum og mundi verða stirt til framkvæmda. En ef hv. þm. hefði nokkuð athugað málið, þá hefði hann átt að sjá, að það verður að minsta kosti ekki erfiðara heldur en að úthluta styrknum til hreppabúnaðarfjelaganna. Og skal jeg nú gera grein fyrir því, í hverju munurinn liggur, ef hann er nokkur. Við skiftingu þess styrks er lögð til grundvallar dagsverkatalan, en hjer verður lögð til grundvallar vegalengd og þungi. Jeg er hissa á því, að hv. þm. skuli ekki hafa gert sjer grein fyrir þessu.

Hv. þm. var að tala um, að alveg sama ástæða væri til þess að ljetta undir flutning á byggingarefnum út um sveitir eins og áburð. Þá má alveg eins segja, að sama ástæða sje til að borga flutningskostnað til landsins af þessum vörum eins og af áburði, úr því að það er hans grundvallarskoðun, að þeir, sem búa nærri kaupstöðum, eigi að fá allan flutningskostnað greiddan, en hinir aðeins örlítið brot.

Það, sem hv. frsm. (LH) talaði um 5% eða 2% álagningu, það kemur ekkert þessu máli við; það snertir aðeins verslunarreksturinn og þann kostnað, sem af honum leiðir fyrir ríkissjóð.

Þá sagði hv. þm., að hann hefði ekki mikla trú á því, að till. okkar yrði til þess að dreifa áburðinum út um landið. Hann hefir þá ekki mikla trú á tilgangi frv., því að það er vitanlega úti um land, sem þarf að auka þekkingu á nytsemi áburðarins, en ekki í kaupstöðum. Samt talar hv. þm. um það, að hann sje með aðalkjarna málsins. En aðalkjarna frv. verður best náð með því að styðja þá, sem fjærst búa, og það verður best gert með okkar till.

Þá talaði hv. frsm. um það, að það væri ekki vel viðkunnanlegt, að ríkið færi að borga bændum fyrir flutninga. frá kaupstöðum og heim á hlað. Hjer kemur fram það sama og áður hjá hv. frsm., að hann sjer ekkert nema þarfir kaupstaðanna. (LH: Er þá öll nefndin blind?). Það lítur út fyrir það, ef hún heldur þessu sama fram, en því vil jeg naumast trúa, því að jeg hefi átt tal við flesta nefndarmenn, en enginn þeirra hefir fært fram þessi rök nema hv. form., og held jeg, að þau sjeu hans rök, en ekki nefndarinnar. Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en það er sýnt, að ef menn á annað borð vilja ná höfuðtilgangi frv. eins og frekast er unt, þá verður það best gert með því að samþykkja brtt. okkar.

Jeg ætla ekki að tala um þann lið brtt. okkar, að fella niður einkasöluna, en að Búnaðarfjelag Íslands fái einkaumboð á þeim áburðartegundum, sem mest eru notaðar hjer, því að hv. 2. þm. Skagf. hefir gert glögga grein fyrir því, að á þann hátt er náð kostum einkasölunnar, en hinsvegar komist hjá aðalókostum hennar.