10.04.1928
Efri deild: 66. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2245 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

30. mál, tilbúinn áburður

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Þetta frv. er komið hingað frá hv. Nd. Komu þar fram margar og róttækar brtt. við það, en niðurstaðan varð sú, að aðeins voru samþ. tvær smávægilegar brtt. við það. Er önnur við 3. gr. frv. og fjallar um hámark álagningarinnar, en hin er um það, sem nokkuð var rætt hjer í þessari háttv. deild, hverjir skyldu annast sölu áburðarins hjer á landi. Var bætt inn í frv. því ákvæði, að kaupmenn skyldu líka mega hafa hann til sölu. Nú hefir hv. landbn. þessarar deildar komið fram með brtt. á þskj. 672, því henni finst þetta ekki nógu skýrt í frv., því þar sje þetta eingöngu bundið við samvinnufjelög bænda og kaupmenn, en hún vill, að þetta nái líka til kaupfjelaga verkamanna. Jeg álít alveg sjálfsagt, úr því að búið er að breyta þessu, að allar þær verslanir, sem á annað borð geta greitt, fái áburðinn keyptan, en hinsvegar vildi jeg leyfa mjer að skjóta því til háttv. landbn., hvort hún vildi ekki taka aftur þessa brtt. sína, því meðan jeg hefi með þetta mál að gera, skal jeg láta þetta jafnt út yfir alla ganga, er á annað borð geta greitt áburðinn.

Í Nd. gat ekki orðið samkomulag um það, hvernig ljett skyldi undir um landflutningana. Komu fram allmargar brtt. í þá átt og höfðu þær talsvert fylgi, en sá varð endirinn. við 3. umr., að þær náðu ekki samþykki. Mun það mest hafa stafað af því, að landbn. leit svo á, að það væri nærri ómögulegt að gefa reglur fyrir því, hvernig þetta skyldi framkvæmt. En jeg skal lýsa því yfir, að stjórnin mun telja sjer skylt að reyna að finna sem best form fyrir því, hvernig unt væri að framkvæma þetta, og vonast jeg eftir því að geta þegar á næsta þingi lagt fram till. um þetta, þegar einhver reynsla er fengin.

Viðvíkjandi 2. gr. skal jeg geta þess, að jeg er þess fulltrúa, að stj., að því er snertir flutning áburðarins frá útlöndum, muni geta haft það í hendi sjer að komast að slíkum samningum, að það verði ekki verulegur kostnaðarauki, því bæði hefir ríkið sín eigin skip og svo trúi jeg ekki öðru en að hægt væri að komast að sæmilegum samningum við Eimskipafjelag Íslands. Af þessum ástæðum, er jeg nú hefi nefnt, vænti jeg þess, að háttv. landbn. taki nú brtt. sína aftur, svo málið verði afgreitt.