10.04.1928
Efri deild: 66. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2248 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

30. mál, tilbúinn áburður

Frsm. minni hl. (Jónas Kristjánsson):

Jeg varð í minni hl., er þetta mál kom hjer til nefndar eftir 1. umr., eins og hv. þdm. er kunnugt um. Varð sá og endirinn, að frv. var samþ. hjeðan úr deildinni án þess að brtt. væru samþyktar. Í hv. Nd. voru svo gerðar brtt. við það, er fóru í sömu átt og mínar, en fæstar þeirra náðu fram að ganga. Þó var sumt í frv. fært í það horf, sem jeg óskaði eftir, eins og t. d. það, að salan skyldi ekki eingöngu bundin við hrepps-, sveitar-, samvinnu- og búnaðarfjelög, heldur skyldu líka kaupmenn hafa leyfi til þess að versla með þessa vöru, og tel jeg það mikið til bóta. Þá er og það, að hundraðsgjaldið, sem leggja má á áburðinn fyrir það að útvega hann, hefir verið lækkað úr 5% niður í 2%, og tel jeg frv. miklu aðgengilegra en það var fyrir þetta. Eitt þýðingarmikið atriði vantar þó ennþá í frv., en það er um það, að ljett skuli undir með bændum, er fjarri búa kaupstöðunum og erfitt eiga með að flytja áburðinn heim til sín. Gleður það mig, að hæstv. fors.- og atvmrh. hefir sjeð, að þetta er rjettlátt, sem jeg hefi farið fram á, og að hann hefir haft góð orð um, að till. þessa efnis verði lagðar fyrir næsta þing. Þó get jeg ekki greitt atkv. með frv., því jeg tel það ekki rjetta aðferð, er hjer er notuð, að verja svo miklu fje í flutningskostnað. Fyndist mjer nær að verja því til þess að bæta vegina hjer innanlands, svo bændur ættu hægara með að flytja áburðinn til sín. En ef einhver styrkur er veittur, þá ætti hann að ganga til þess að styrkja áburðarflutninga þeirra, er versta hafa aðstöðuna og fjærst búa hafnarstöðunum.