23.01.1928
Efri deild: 4. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2249 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

22. mál, menningarsjóður

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Í þessu frv. er farið fram á nýmæli í íslenskri löggjöf. Með því er stigið spor í áttina til þess að draga úr þeirri þjóðarspillingu, sem leiðir af áfengisnautninni, á þann hátt að láta þá, sem spillingunni valda, greiða fje til menningarstofnana.

Í frv. er gert ráð fyrir, að það fje, sem inn kemur fyrir upptækt áfengi og í áfengissektir, renni í sjerstakan sjóð til styrktar listum og vísindum. Jeg hefi áður borið fram á Alþingi frv. í líka átt, en það fór allmiklu lengra en þetta. Það mun einmitt hafa fallið að miklu leyti fyrir þá sök, að það þótti svifta ríkissjóð of miklum tekjum.

Fje þess menningarsjóðs, sem hjer er talað um að stofna, á einkum að verja í þrennum tilgangi: Til náttúrufræðirannsókna á Íslandi, til að skapa markað handa innlendum listaverkum og til útgáfu alþýðlegra fræðibóka og skáldrita. — Það hefir altaf verið mjög erfitt að vera náttúrufræðingur á Íslandi. Eggert Ólafsson gerði rannsóknir sínar á náttúru landsins fyrir danskt fje. Það var náttúrlega eðlilegt á sínum tíma, því að þá var hvorttveggja kallað sama ríkið, Ísland og Danmörk, en jeg vil samt minna á, að Eggert hlaut engan beinan stuðning hjeðan. Alveg sama máli var að gegna um Jónas Hallgrímsson. Þegar Þorvaldur Thoroddsen fór að ferðast um landið og skoða náttúru þess, fjekk hann aðalstyrk sinn frá sjóði í Danmörku. Alþingi veitti honum að vísu ofurlítinn árlegan styrk, en það var svo lág upphæð, að hann hefði lítið getað gert af því, sem eftir hann liggur, fyrir það fje eitt saman. Nú er alveg eins ástatt hjer og áður. Ef hjer kæmi nú einhver Eggert, Jónas eða Þorvaldur, þá gæti hann lítinn styrk fengið í landinu. Ríkið hefir ekkert fje handbært til rannsókna á náttúru landsins. Og við, sem sæti höfum átt á Alþingi, vitum, hve erfitt er að koma slíkum styrkjum í fjárlögin.

Sú fasta, árlega fjárhæð, sem hjer er gert ráð fyrir, yrði, þótt lítil sje, til þess, að hjer gætu átt sjer stað einhverjar náttúrufræðilegar rannsóknir.

Það er og kunnugt, að landið á nú talsvert marga unga, efnilega listamenn, sem hafa komist furðanlega langt, þegar tekið er tillit til þeirra aðstæðna, er þeir hafa átt við að búa. Alþingi hefir styrkt marga þessara manna utan til náms, og hafa því margir þeirra getað klöngrast fram úr þeim hluta baráttunnar. En eftir námið hafa örðugleikarnir fyrst byrjað fyrir alvöru, — þegar mennirnir þurftu að fara að lifa af list sinni. — Það gæti ef til vill komið til mála, að þessir menn reyndu að lifa erlendis eða selja verk sín þar. En það má teljast næstum lokuð leið. Að vísu hafa nú nýlega selst 10–15 íslensk málverk á sýningu í Danmörku, en það er ekki mikill fjöldi, síst þegar þess er gætt, að sýningin nýtur sjerstaklega góðrar aðstöðu. Því er augljóst, að hinn erlendi markaður getur ekki haft neina þýðingu fyrir listamennina í þá átt að skapa þeim atvinnu. Í öðrum löndum eru listamenn svo margir, að vonlaust er um, að þeir geti unnið fyrir sjer með list sinni. Aðeins þeir, sem ná svo langt að verða frægir, geta vænst þess að hafa nokkuð, sem heitið geti, upp úr henni. En það er altaf. fæstra hlutskifti að ná frægð. — Jeg vænti því, að mönnum sje það ljóst, að íslensk list verður að treysta á íslenskan markað fyrst og fremst. En hann er mjög þröngur. Bæði eru þeir fáir, sem hafa efni á því að prýða húsakynni sín með dýrum listaverkum, og efnuðu mennirnir hafa ekki ávalt smekk fyrir fögrum listum. Fyrir þær sakir sje jeg ekki, að hjer geti dafnað sjálfstæð list, nema þjóðfjelagið sjálft geri eitthvað til þess að skapa markað fyrir listaverkin. Á því er þetta frv. bygt, og það fer fram á að ráðstafa nokkrum tekjum árlega í þessu skyni, tekjum, sem vitanlega muna ekki miklu fyrir ríkissjóð, en geta orðið þessu málefni til verulegrar styrktar. — Jeg lít ekki svo á, að hjer sje verið að gera nokkurt miskunnarverk á listamönnunum. En mjer finst fara vel á því að hafa þessa aðferð. Það er mikils virði fyrir landið að eignast þau verk íslenskra listamanna, sem fremst mega teljast. Og með sýningum erlendis geta listamennirnir margborgað það fje sem til þeirra fer. Það er enginn efi á því, að sýningin í Kaupmannahöfn í vetur hefir verið Íslandi mikil og góð auglýsing. — Og þegar talað er um það, hvað sýna skuli þeim útlendingum, sem hjer koma 1930, hljóta listir landsmanna að vera eitt af því, sem mönnum kemur fyrst til hugar. Vitanlega megnum við ekki að gera gesti okkar agndofa með því, sem við getum sýnt þeim, en við getum þó sannfært þá um, að hjer býr þjóð, er má teljast þroskavænleg á menningarbrautinni.

Um þriðja atriðið get jeg verið fáorður, en það er auðsætt, að þar sem þorri manna verður að búa við þá eina gleði, sem heimilin veita, eru góðar bækur ákaflega mikils virði. Þessi þjóð talar nú alveg einangrað tungumál, og mikill minni hluti manna á kost á því að lesa erlendar bækur. Ef 1/3 af því fje, sem hjer er talað um, — nálægt 7 þús. kr. á ári, — færi til bókaútgáfu, gæti hún orðið allmikil. Jeg ætlast ekki til þess, að val bóka þeirra, sem út verða gefnar, verði einskorðað við annað en það, að eingöngu sjeu út gefnar góðar og gagnlegar bækur.

Jeg hefi orðið þess var, að einstöku menn, einkum templarar, eru þessu frv. andvígir, af því að þeim finst fjeð heldur illa fengið. Jeg get nú ekki fallist á þetta. Fjeð rennur hvort sem er til opinberra þarfa, og jeg sje ekki, að frá þjóðfjelagsins hálfu skifti nokkru máli, hvort því er varið til þessa eða annars.

Jeg get ekki fullyrt, hve mikið fje þetta verður árlega. En meðalsektir til bæjarsjóðs Reykjavíkur fyrir óspektir af völdum áfengis eru 6–7 þús. kr. á ári, og auk þess fellur nokkuð til landssjóðs. Þegar sjerstakir hvalrekar koma, eins og t. d. full skip af áfengi, er lagt til í frv., að því fje, sem inn kemur umfram meðallag. sje varið til að koma upp húsi yfir listasafn ríkisins.

Þetta mál mundi að umr. lokinni best komið í hv. mentmn., og vona jeg að því verði vísað þangað.