02.03.1928
Neðri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. (Ingólfur Bjarnarson):

Jeg sje, að hv. þm. Dal. (SE) er nú kominn í deildina, og vildi því segja við hann nokkur orð. Hann hjelt mjög volduga ræðu út af till. fjvn. um Vesturlandsveginn. En á þeirri ræðu var sá galli, að hún var að mestu leyti bygð á misskilningi. Hv. þm. var hræddur um, að sumir þdm. hefðu breytt skoðun um það mál síðan í fyrra, og gat þess sjerstaklega um mig, að jeg hefði þá greitt Vesturlandsveginum atkvæði við nafnakall. En jeg hefi þegar áður tekið það fram, að jeg hefi alveg sömu skoðun um þetta mál nú og jeg hafði í fyrra, en jeg vísaði í afstöðu fjvn. alment til ýmissa verklegra framkvæmda, sem hún er í sjálfu sjer fylgjandi, en vantar fje til að framkvæma. Þetta er aðalástæðan og nær eina ástæðan, sem mælir móti bæði Vesturlandsveginum og fjölda annara framkvæmda. Raunar tók jeg jafnframt þessu upp nokkur önnur mótmæli, svo sem ónógan undirbúning, sem hv. þm. talaði um sjálfur, en fyrir mjer var það ekkert höfuðatriði. — Jeg held, að besta ráðið fyrir hv. þm. Dal. til að fá fje í þennan veg sje að leggjast á eitt með okkur; sem fá viljum samþykt tekjuaukafrv. á þessu þingi, svo að meira fje fáist til verklegra framkvæmda. Mjer skildist hv. þm. vera með einhverjar heitingar um það að taka sjerstaklega vel eftir, hvernig þessu máli reiddi af framvegis. Get jeg sagt honum, að jeg óttast þær ekki hið minsta.

Um skólagjöldin hefi jeg í raun rjettri engu við að bæta. Jeg var ekki beinlínis að rengja hv. 2. þm. Reykv. (HjV) um það, að hann færi rjett með. Jeg hjelt, að hann ætti við árið 1927, en nú er upplýst, að svo var ekki. Annars er það ekkert undarlegt, þótt ekki beri saman skýrslu rektors og landsreikningnum. Hann er gerður fyrir almanaksárið, en skýrslan vitanlega fyrir skólaárið.

Þá talaði hv. þm. Vestm. (JJós) enn um spítalann í Vestmannaeyjum. Mjer skildist, að hann teldi bæinn eiga kröfu á að fá 1/3 hluta af kostnaðinum. (JJós: Jeg sagði, að þetta væri ekki nema 1/3 af því, sem skylt væri að leggja fram úr ríkissjóði). En mig furðar mjög á því, að bæjarstjórn skuli ekki hafa lagt málið fyrir á þeim grundvelli. Hún gefur engar skýrslur um það, hvað hún hefir lagt fram. Hv. þm. upplýsti, að hún hefði lagt fram 30 þús. kr. í peningum, lóð og eitthvað fleira. En það yrði samtals að nema 60 þús. kr., ef bærinn ætti að eiga kröfu til 20 þúsunda. En málið lá alls ekki svo fyrir, heldur var aðeins farið fram á, að ríkið legði fram 20 þús. kr. til röntgen- og ljóslækningatækja. Nú er það svo, að landlæknir, sem allir verða að játa, að nokkurt tillit verður að taka til í þessu máli, álítur ekki þörf á nýrri ljóslækningastofu í Vestmannaeyjum í bili. (JJós: Jeg hefi áður lýst því, að landlæknir hefir skýrt hv. nefnd villandi frá). Um það er jeg ekki fær að dæma, en skýrsla hans var alveg skýlaus, og fjvn. hafði ekki annað áreiðanlegra að halda sjer að. Hv. þm. talaði um það, að ekki væri annað en formið eitt, sem hægt væri að hafa á móti því, að landið legði spítalanum til þessi áhöld. En í svona málum verða menn að halda sjer við ákveðnar reglur. Ef þeim er slept, er ekki að vita, hvar lendir.