27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2381 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

141. mál, bankavaxtabréf

Ólafur Thors:

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð út af brtt. hv. þm. N.-Ísf. Jeg hefi áður átt tal um þetta við stjórn Landsbankans og get upplýst, að bankastjórnin lagði á móti slíkri breytingu. Jeg hefi nú aftur haft tækifæri til að tala við bankastjórnina, og hún lítur þannig á, að það sje að vísu rjett, sem hv. þm. N.-Ísf. tók fram, að verðgildi húseignar, sem liggur nærri kaupstöðum, sje oft jafnmikið verðgildi þeirra eigna, sem liggja innan kaupstaðarins, en hinsvegar bendir bankastjórnin á það með rjettu, að þurrabúðir sjeu hæpið veð, af því að verðgildi þeirra fer mjög eftir því, hver er ábúandi á hverjum tíma. Við skulum taka til dæmis, að söðlasmiður fari austur í Árnessýslu og reisi þar hús. Það hús er ágætlega veðhæft meðan söðlasmiðurinn býr þar, vegna atvinnu hans. En ef hann flytur burt, fellur verðgildi hússins. Ef alment væri að leggja kvöð á veðdeildina til þess að lána út á slíkar húseignir, er það mjög illa farið. En ef um er að ræða eign, sem er vel veðhæf, hefir bankastjórnin tekið tillit til þess. Af því að mjer finnast rök bankastjórnar Landsbankans rjett, er jeg á móti tillögu hv. þm. N.-Ísf. Vænti jeg þess, að hv. þdm. geti aðhylst skoðun bankastjórnarinnar, eins og jeg hefi nú skýrt frá henni.