03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

1. mál, fjárlög 1929

Haraldur Guðmundsson:

Jeg verð nú að biðja hv. deild velvirðingar á því, að jeg get ekki lagt fram jafnáþreifanleg sönnunargögn og sá hv. þm., er seinast talaði, heldur verð jeg að bjargast við orðin ein.

Þótt jeg hafi skrifað undir álit fjvn., gat jeg þess þegar í nefndinni, að jeg teldi mig hafa óbundnar hendur, bæði um fjárlagafrv. stjórnarinnar og brtt. einstakra þm., og mun það koma í ljós við atkvgr. um einstaka liði, og hefir þegar gert.

Vil jeg þá fyrst minnast nokkuð á 27. brtt. fjvn., við XIII. lið 14. gr. B., þar sem nefndin leggur til, að feldur sje niður 1500 kr. styrkur til útgáfu kenslubóka fyrir barnaskóla. Jeg er nefndinni hjer með öllu ósammála. Fjárveiting þessi mun hafa verið tekin upp í fjárlagafrv. eftir tillögum fræðslumálastjóra, og er með öllu óverjandi að fella hana niður, ekki síst nú, er skipuð verður sjerstök fræðslumálanefnd, því að vitanlega kemur starf hennar að sáralitlu gagni, nema hún hafi yfir einhverju fje að ráða. Nauðsyn á að styrkja þessar útgáfur er afarmikil, því að mörgum fjölskylduföður er erfitt eða jafnvel ókleift að sjá börnum sínum fyrir nægum kenslubókum, svo dýrar sem þær nú eru. Jeg get því ekki orðið samferða nefndinni í þessu máli.

Þá á jeg 5 brtt. á þskj. 353. Þótt mjer þyki leiðinlegt að bera meðnefndarmönnum mínum illa söguna, verð jeg að játa, að þær fundu ekki náð fyrir augum þeirra. Mun það þó fremur stafa af umhyggju fyrir þröngum fjárhag ríkissjóðsins en af því, að þeir hafi ekki kunnað að meta nauðsyn till. minna. Vona jeg nú, að hv. deild reynist nefndarbetrungur.

1. till. mín, sem er XII. brtt. á þskj. 353, er í tveim liðum og fer fram á að styrkja tvo menn, Hannibal Valdimarsson og Andrjes J. Straumland, til að kynna sjer starfshætti og kenslufyrirkomulag í enskum alþýðuskólum. Þekki jeg báða þessa menn að góðu. Hannibal Valdimarsson hefir lokið ágætu prófi við kennaraskóla í Danmörku. Hann hefir mikinn áhuga á barna- og alþýðufræðslu og vill nú kynna sjer kenslustarfsemi í hinum svonefndu frjálsu skólum í Englandi, þar sem meiri áhersla er lögð á að kenna börnunum að hugsa og starfa sjálfstætt en að láta þau læra námsgreinarnar utan að í belg og biðu. Hygg jeg, að oss væri ekki vanþörf á að kynnast kensluaðferð þeirri.

Andrjes J. Straumland hefir fengist við barnakenslu í 8 ár og gerir ráð fyrir að gera hana að lífsstarfi sínu. Þessir menn eru báðir svo vel að sjer alment, og í enskri tungu sjerstaklega, að þeir geta áreiðanlega haft full not kenslunnar strax í upphafi.

Þar sem fræðslumálunum hefir tiltölulega nýlega verið komið í fast horf, er hin fyllsta þörf á því, að menn kynnist nýjum aðferðum og skoðunum, er þau mál varða. Í fjárlagafrv. stjórnarinnar eru ætlaðar 3 þús. kr. til utanferða barnakennara. Geri jeg ráð fyrir, að sú fjárveiting sje tekin upp eftir till. fræðslumálastjóra. Jeg hygg, að upphæð þessi nemi h. u. b. 1% af því fje, sem veitt er til barnafræðslunnar, og verður því ekki sagt, að of ríflega sje skamtað. Öll sanngirni mælir með því, að bætt sje við þessa upphæð, og það er best gert á þann hátt að styrkja þessa tvo menn, sem jeg hefi getið um. Þeir eru báðir snauðir menn, annar giftur, en hinn hefir fyrir móður að sjá. Þótt hærri upphæðin, 2000 kr., yrði samþ., myndu báðir verða að leggja fram fje úr eigin vasa, og það fje yrðu þeir að taka til láns. Eru þó laun barnakennara ekki svo rífleg, að þeir geti staðið straum af háum lánum. En þótt hv. deild geti ekki fallist á hærri upphæðina, vona jeg, að lægri upphæðin, 1200 kr., nái samþ. hennar. Það er sami styrkur og stúdentum hefir verið veittur til náms erlendis. Þótt það sje gott og nauðsynlegt, er ekki síður þörf á því, að þeir, sem starfa að alþýðufræðslu, hljóti sem bestan undirbúning.

Þá á jeg XIV. till. á þskj. 353, um hækkun á styrk til kvenfjelagsins „óskar“ á Ísafirði úr 4000 kr. upp í 8000 kr. Því verður ekki neitað, að Vestfirðir hafa yfirleitt verið allmjög afskiftir um fje úr ríkissjóði, eins og jeg drap á í umr. um gagnfræðaskólann á Ísafirði. Kvenfjelag þetta hefir haldið uppi húsmæðrakenslu undanfarið í allstórum stíl. Hefir húsmæðraskóli þess verið hinn eini á Ísafirði og sóttur af öllum Vestfjörðum. Hafa verið haldin tvö námsskeið, í 4 mánuði hvort, á vetri. Síðasta ár voru þar 24 námsmeyjar. Þrátt fyrir það, að sparlega var á haldið, varð kostnaður við skólahaldið 1926–'27 15060 kr. Af þeirri upphæð nam tillag ríkissjóðs 3500 kr., tillag Ísafjarðarsýslu- og kaupstaðar 1000 kr., skólagjöld 8000 kr., en úr sjóði kvenfjelagsins voru lagðar 2560 kr. Auk þess greiddi fjelagið halla frá fyrra ári að upphæð 3500 kr. Það liggur í hlutarins eðli, að fátæku kvenfjelagi er um megn að leggja fram slíkar upphæðir. Hinsvegar er ilt fyrir Ísafjörð og Vestfirði í heild, ef skólinn yrði að leggjast niður. Vænti jeg því, að háttv. deild geti fallist á að styðja þessa till. mína, ekki síst þar sem jeg sje, að bæði hæstv. stjórn og fjvn. hafa opin augun fyrir ágæti húsmæðrafræðslunnar á öðrum stöðum. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 11 þús. kr. til húsmæðraskóla í Þingeyjarsýslu, og fjvn. tekur svo vel í þetta, að hún hækkar styrkinn upp í 13 þús. kr., eða úr 2/5 í helming kostnaðar. Þess má og geta, að skóli þessi á Ísafirði er tiltölulega ódýr; skólagjaldið mun nú vera 75 kr. á mánuði og þar í falið húsnæði, fæði og kenslugjald.

Þá er XVIII. brtt. á þskj. 353, um að hækka styrkinn til leikfjelagsins á Ísafirði úr 600 kr. upp í 1000 kr. Þarf jeg ekki langan formála fyrir þeirri brtt. Nægir að benda á, að leikfjelagi Akureyrar eru ætlaðar 1000 kr. Get jeg ekki sjeð, hvaða ástæða er til að gera því hærra undir höfði en leikfjelagi Ísafjarðar; aðstaða þeirra beggja er jöfn, og sama má segja um gagnsemi þeirra fyrir andlegt líf kaupstaðanna. Það myndi vera leikfjelaginu á Ísafirði hin mesta hvöt til að spjara sig, ef það fengi jafnháan styrk og leikfjelagið á Akureyri. Hjer er um svo litla upphæð að ræða, að jeg trúi ekki, að hv. deild neiti um þetta lítilræði.

Þá kem jeg að XXI. brtt., sem fer fram á, að Gunnari Hallgrímssyni sje veittur styrkur til utanfarar til að bíta sig undir kenslu í fiðluleik og stjórn hljómsveitar. Þessi maður hefir haldið uppi lúðrasveit á Ísafirði um nokkur ár og lagt stund á og kent fiðluleik. Ef hans nyti ekki við, myndi Ísfirðingum ókleift að afla sjer hinnar fyrstu mentunar í fræðum þessum, nema að kaupa rándýra kenslu í Reykjavík. En það er tilfinnanleg vöntun í lífi bæjarins, ef hljómleikar þurfa að leggjast niður með öllu, en svo fer, ef þessa manns nýtur ekki við. En þessi maður er svo skapi farinn, að hann vill afla sjer meiri fræðslu, ef hann á að halda áfram að kenna öðrum. Hann hefir notið kenslu hjá kennurum í Reykjavík með ærnum kostnaði og hefir ágæta vitnisburði frá þeim. Verður honum ekki sýnd makleg viðurkenning fyrir það, sem hann hefir á sig lagt, á annan betri hátt en þann, að veita honum tækifæri til að menta sig enn betur. Er þó sá styrkur, sem hjer er farið fram á, aðeins lítill hluti af kostnaði þeim, sem af utanförinni leiðir. Þessi maður hefir meðmæli frá leikfjelaginu á Ísafirði, sem telur, sem rjett er, að mikið skorti á leiksýningar, ef hljóðfærasláttur verður að leggjast niður. Einnig hefir hann meðmæli lúðrasveitarinnar og organleikarans á Ísafirði, Jónasar Tómassonar, sem er einn okkar álitlegustu söngstjóra og sönglagasmiða. Þetta er lítil upphæð og það hefir áður komið í ljós, að fjvn. kann vel að meta gildi hljómlistar, þar sem hún hefir hækkað tillag til hljómsveitar Reykjavíkur. Þá kom og fram brtt. frá einstökum þm. um fjárveitingu til Páls Ísólfssonar, sem jeg skal játa, að er alls góðs maklegur. En ef svo ljós nauðsyn er á að styrkja list þessa hjer í Reykjavík, þá hlýtur sú sama nauðsyn að gilda um Ísafjörð. Gunnar þessi er, eins og aðrir þeir, sem jeg ber hjer fyrir brjósti, alveg efnalaus og myndi þurfa að fá fje að láni til viðbótar, þótt hann fengi þennan litla styrk, en fái hann ekki styrkinn, er honum ókleift með öllu að komast utan og afla sjer þeirrar aukinnar kunnáttu í list sinni, sem honum er nauðsynleg og bæjarfjelaginu líka.

Jeg mun láta þetta nægja að sinni og ekki tefja tímann lengur.