04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2463 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

34. mál, varðskip landsins

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg vil aðeins leggja áherslu á eitt atriði í þessu máli við þessa umr., en það eru launakjör hásetanna, enda þótt jeg sje ósamþykkur frv. að ýmsu öðru leyti. Jeg fæ ekki betur sjeð en það sje mjög óákveðið eftir frv., við hvaða launakjör þessir menn eigi að búa, og meðal annars af því hefir hv. 2. þm. Reykv. borið fram brtt. á þskj. 666 um að samræma kjör þeirra við kjör háseta á Eimskipafjelagsskipunum. Á það hefir verið bent áður, og það með rjettu, að brýn nauðsyn krefji að fá ötula og góða menn fyrir háseta á þessi skip. Ef menn því kunna að halda, að það sje tekið með sitjandi sælu að vera háseti á skipum þessum, þá er það misskilningur. Það kann máske að vera svo, að erfiði sje ekki að jafnaði eins mikið á þeim og t. d. togurum, en þar er síst hættuminna að vera en á öðrum skipum. Þeir verða að fara í skipsbátum frá varðskipunum út í togarana, sem staðnir eru að ólöglegri veiði, svo að segja í hvernig veðri sem er, ef fært þykir bátum á sjónum. Er slíkt oft hin mesta hættuför, og er sagt, að skipstjórinn sje oft skjálfandi á stjórnpallinum af hræðslu um afdrif þeirra. Til slíkra svaðilfara þarf því sannarlega dugandi menn og ótrauða.

Jeg hefi gert lauslegan samanburð á launakjörum hásetanna á þessum skipum og launakjörum háseta alment á verslunarskipum, og fæ jeg ekki betur sjeð en þar sje um allverulegan mismun að ræða. Um laun yfirmannanna tala jeg ekki, því að frá þeim gekk hv. Ed. svo, að þau virðast viðunandi, þar sem aðeins munar örlitlu á þeim og launakjörum samsvarandi starfsmanna hjá Eimskipafjelaginu. Jeg skal játa, að frá því, sem verið hefir, er breytingin mest á launum skipstjóranna, enda er þar mestu af að taka. Nú eru þeim ætluð um 9000 kr. laun, miðað við þá dýrtíðaruppbót, sem nú er, og fylsta þjónustutíma. Auk þess fá þeir sömu hlunnindi og aðrir skipverjar, t. d. fæði og einkennisbúning. Líka geta þeim stundum áskotnast aukatekjur, eins og t. d. síðastl. ár, er mun hafa numið alt að 2 þús. kr. Jeg verð því að telja, að sæmilega sje gengið frá launakjörum allra yfirmannanna. En þá eru eftir þeir mennirnir, sem leggja sig í mestu hættuna, sem sje hásetarnir, og sömuleiðis kyndararnir, og mjer finst, að þm. geti ekki annað en gengið sæmilega frá launakjörum þessara manna, svo þau verði í samræmi við laun yfirmanna skipsins, sem þegar eru orðin næstum samhljóða launum samskonar manna hjá Eimskipafjelagi Íslands. — Eins og jeg tók fram áðan, er munurinn á kaupi þeirra, samanborið við aðra háseta, allmikill. Eins og nú standa sakir, hafa þessir menn um 2500 kr. á ári. Sje þetta borið saman t. d. við yfirmennina, er munurinn mikill. Þá ber og þess að gæta, að menn þessir eru háðir sömu reglum og aðrir verkamenn. Þeim er vikið frá starfinu eftir geðþótta yfirmannanna; þeir eru látnir fara, ef t. d. skipstjóri eða einhverjir ráðamenn aðrir þurfa að koma einhverjum skjólstæðingi sínum að. (JJós: Skipstjórarnir geta þetta ekki eftir gildandi lögum). Það er rjett, samkvæmt lögum frá síðasta þingi þurfti uppsagnarfrest hjá hásetum alt að 6 mán., en skipstjóri gat vikið fyrirvaralaust úr skiprúmi fyrir sakir, sem hann einn dæmdi um að mestu. En sem betur fer, hafa þau lög aldrei komið til framkvæmda. Þetta er því sú hlið málsins, sem jeg legg mesta áherslu á, að rýmkað verði um kjör fullgildra háseta, sem heimtað er fullkomið verk af, því jeg á ekki við vikadrengi, sem settir eru um borð í skipin til þess að læra sjómensku. Á síðastliðnum árum hafa hásetar t. d. á Gullfossi haft um 100 kr. í eftirvinnu á mánuði. Hefir mánaðarkaup þeirra því orðið um 300 kr., auk annara fríðinda, sem þeir hafa samkvæmt samningi. Líkt því hefir kaup hásetanna á ríkissjóðsskipunum orðið, því þar gilda sömu samningar. Nú fæ jeg ekki skilið, hvers vegna svona mikill munur þarf að vera á kaupi þessara manna, þó þeir vinni á varðskipi, sem ríkið á og starfrækir. Eins og það sje ekki sama, hvort mennirnir vinna að því að elta togara eða flytja fólk og vörur hafna á milli. Nei, á því á engan mun að gera. Hvorirtveggja eiga að vera undir sömu lögum og búa við sömu launakjör; á því getur enginn vafi leikið. Þess vegna ber að samþykkja brtt. hv. 2. þm. Reykv. Með því er líka bætt úr þeim agnúa, sem hv. þm. Vestm. benti á, að væri á frv.

Annars mun jeg geyma til 3. umr. að tala frekar um málið.