17.02.1928
Efri deild: 25. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (1430)

79. mál, yfirsetukvennalög

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg þarf ekki að vera langorð um þetta mál, því, eins og tekið hefir verið fram áður, er það ekki nýtt hjer í deildinni, þar sem það hefir verið til umr. áður á tveimur þingum.

Mjer þykir vænt um, hversu hlýlega andaði til þessa frv. frá hv. frsm., og að málið virðist nú hafa betra gengi að fagna en áður, hjer í hv. deild. En það leið þó eigi á löngu, áður en gustur kæmi fram gegn málinu. Sá gustur kom frá hv. 1. þm. Eyf. Er það leitt, um svo mætan mann og sanngjarnan sem þessi hv. þm. venjulega er, að hann skuli leggjast móti jafnsjálfsögðum sanngirniskröfum og hjer er farið fram á. En jeg held, að andstaða hans stafi ekki frá því, að hann í raun og veru bresti skilning og þekkingu, heldur að hann hafi valið sjer of þröngan sjónarhól í þessu máli.

Jeg skal nú færa nokkur rök fyrir nauðsyn þess, að laun ljósmæðra sjeu bætt. En rjett er fyrst að benda á það, að yfirsetukonurnar hafa stofnað fjelag, sem heitir „Ljósmæðrafjelag Íslands“. Heimili þess er í Reykjavík, en í fjelaginu eru flestar yfirsetukonur hjer á landi. Tilgangur þessa fjelagsskapar er fyrst og fremst sá, að auka kynni innan þessarar stjettar og bera boð um framfarir og nýjungar, er stjettina varða, til fjelagskvenna. Þá er og einn þáttur í tilgangi fjelagsins sá, að bæta kjör þessarar stjettar, svo að trygt verði, að í þessar stöður veljist jafnan góðar, duglegar og áhugasamar konur, sem sint geti af alúð starfi sínu. Þetta starf er þannig vaxið, að það er sannarlega ekkert aukaatriði, að það sje stundað vel, og að í það veljist hæfar konur. En fyrst verða ljósmæðraefnin að leggja fram allmikið fje, til þess að kosta nám sitt, í að jeg hygg, 10 mánuði. Og þótt þær njóti nokkurs námsstyrks af almanna fje, þá verða þær að leggja fje fram sjálfar allmikið, sennilega um helming námskostnaðar. Að minsta kosti hefir því verið haldið fram fyr, að svo væri, og þá ekki mótmælt. Er því skiljanlegt, að ekki leggi aðrar stúlkur út á þessa braut en þær, sem löngun hafa og áhuga fyrir starfinu.

Það er athugað og viðurkent, að starf ljósmæðra er þýðingarmikið, en námið hinsvegar all-kostnaðarsamt. Ennfremur er upplýst, að mörg ljósmæðraumdæmi standa nú óskipuð. Orsökin er ekki sú, að ekki sje nóg til af lærðum yfirsetukonum, heldur hin, að þær sjá sjer ekki fært að taka að sjer umdæmi með núverandi launakjörum. Það ættu því allir að sjá, hversu ósanngjarnt það er, að launa ljósmæðrunum svo illa, að góðir kraftar dragi sig í hlje frá þessu starfi. — Að áður hafi starfað að þessu ólærðar konur, sem oft hafi hepnast starf sitt vel, er að vísu satt. En þegar kröfurnar til ljósmæðra hafa verið hækkaðar, með auknu námi, þá er og eðlilegt, að kröfur um bætt launakjör komi á móti.

Hv. þm. Eyf. líkti starfi ljósmæðranna við kaupstaðarferð. En slík samlíking er algerlega gripin úr lausu lofti. Slíkt á sjer ekki stað, nema þar sem allra greiðast gengur, eða þá þar sem heimilisástæður eru á einhvern hátt því til fyrirstöðu, að hægt sje að halda yfirsetukonuna lengi. Er þetta því alveg óframbærileg ástæða. Sje það satt, að svo sje alment í sveitum, þá sannar það einungis það, að launin eru svo lág, að ljósmæðurnar geta ekki sint starfi sínu eins vel og vera ber.

Mjer þótti vænt um að heyra, að hæstv. dómsmrh. tók vel í þetta mál, svo sem hann hefir og gert áður. En því miður var jeg kölluð frá og gat því ekki heyrt alla ræðu hans, en mjer er sagt, að hann hugsi sjer, að setja ljósmæðurnar til 5 ára í senn. Mjer þykir leitt, ef þessi till. hæstv. dómsmrh. miðar að því að draga á nokkurn hátt úr þeim rjettarbótum, sem frv. veitir. Vona, að svo sje ekki. En um það skal jeg ekki dæma, þar sem jeg heyrði ekki alla ræðuna.

Jeg skal svo ekki lengja þessa ræðu mikið meira. Öllum ætti að vera ljós þörfin fyrir góðar ljósmæður. En þær eru ekki einungis þarfar vegna starfs síns, heldur eru þær og víða um land hollvinir heimilanna, sem leggja þeim góð ráð um hollustuhætti, þrifnað og fleira. Ekki síst eru þær mikilsverðir ráðgjafar fyrir ungar og óreyndar mæður.

Vona jeg, að þótt háttv. 1. þm. Eyf. hafi tekið þessu máli á sama veg og hann hefir áður gert, þá nái þó frv. fram að ganga á þessu þingi.