21.03.1928
Efri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í C-deild Alþingistíðinda. (1444)

49. mál, útsvör

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Allshn. hefir ekki getað orðið sammála um frv. það, sem hjer liggur fyrir. Eins og sjá má á þskj. 490, leggjum við hv. 3. landsk. til, að frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Að nokkru leyti eru færð fram rök fyrir dagskránni í nál., og hefi jeg þar ekki miklu við að bæta. Jeg geri ráð fyrir því, að svipaðar orsakir valdi því um okkur báða, meirihlutamenn, að við viljum, að málið verði afgreitt þannig að þessu sinni.

Jeg vil taka það fram, að mínu leyti, að strax í upphafi, þegar lög þessi voru samin, þótti mjer á þeim ýmsir annmarkar, enda mundu þau ekki allsstaðar eiga við. Það mun eflaust erfitt að semja þessi lög svo, að öllum líki, en þótt þessi löggjöf kunni að ýmsu leyti að vera varhugaverð, og jafnvel í einstöku tilfellum ranglát, þá tel jeg ekki rjett að gera breytingar á henni nú þegar. Þegar þær breytingar verða gerðar, álít jeg, að mest velti á því, að þær verði sem mest í samræmi við þá reynslu, sem þá er fengin, og þá bætt úr þeim megingöllum, sem við reynsluna hafa komið í ljós, gagnvart þeim, sem við lögin eiga að búa.

Það hefir strax komið fram, við 2. umr. þessa máls, að skoðanir manna eru töluvert skiftar um þau atriði, og ef nú á að fara að hrófla við þessum lögum, er ekki víst, hvað að kemst, nje heldur, að það verði til bóta.

Frv. þetta er fram borið aðallega vegna eins kaupstaðar á landinu, og skal jeg játa, að hann verður sennilega nokkuð hart úti, eftir þessum lögum.

En þess ber að gæta, að eins og frv. þetta liggur fyrir, hlýtur það að grípa inn í þetta mál, einnig á öðrum stöðum á landinu, og leiðir það af sjer, að ósamræmi kemur inn í löggjöfina. Það, sem erfiðast þótti með gömlu löggjöfina, var þessi endalausi eltingaleikur um útsvarsálagningu. Var þá það ráð tekið upp, að leggja ekki á gjaldþegn nema á einum stað, en skifta útsvarinu milli þeirra sveitafjelaga, sem hlut eiga að máli. En ranglætið með hinni gömlu útsvarsálagningu var alveg orðið óþolandi, og algert ósamræmi um aðferðir við slíkar útsvarsálagningar. Má segja, að með aðferð núverandi löggjafar megi vænta nokkurs samræmis. Nú leggjum við meiri hl. til, að löggjafarvaldið láti lögin reyna sig betur. Ekki af því, að við ætlum, að eigi væri hægt að breyta þeim til batnaðar, heldur af því, að reynsla sú, er menn hafa af þeim enn, er eigi nógu löng, að okkar dómi, til þess að á henni verði bygðar breytingar til verulegra bóta.

Út af framkomnum brtt. skal jeg geta þess, að afstaða okkar gildir einnig um þær. Það er ekki af því, að við teljum þær allar raska grundvelli laganna, því að við viðurkennum, að sumar þeirra kunni jafnvel að vera til bóta, heldur af því, að þótt kanske hafi sýnt sig, að breyta þurfi einstökum atriðum í lögunum, þá er reynslan ekki enn búin að sýna, hvar gallarnir eru mestir, og því teljum við ekki tímabært að fara að hringla í þeim strax. Þótt misfellur kunni einhverjar að vera á lögunum, og eitthvert misrjetti kunni af þeim að leiða, þá teljum vjer, að reynslan geti einmitt verið gagnlegur skóli til að kippa þessum ágöllum í betra horf.

Reynslan hefir sýnt, að ófært er að hringla í útsvarslögum frá ári til árs. Þegar núgildandi lög voru sett, leiddu þau allmikið rask af sjer. Með breytingu reikningsársins úr fardagaári í almanaksár leiddi það, að gera varð þrjú misseri að reikningsári, er lögin gengu í gildi. Ef þessar nýju breytingar ná fram að ganga, kemur svipað fyrir aftur.

Hjer hefir komið fram ein brtt. um að breyta reikningsárinu í fardagaár að nýju, í hreppsfjelögum. Skal jeg viðurkenna, að vel má vera, að heppilegra sje, að reikningsár þeirra hreppa, sem eru eingöngu landbúnaðarhreppar, sje fardagaárið, vegna ábúðar- og vistaskifta. Þetta kann að skifta nokkru máli fyrir hreina sveitahreppa. En fyrir þá hreppa, sem eru kauptún, að miklu eða einhverju leyti, er það allmiklum örðugleikum bundið, að miða reikningsárið við fardagaár. Nú er svo komið, að reikningsskil allra stofnana eru miðuð við almanaksárið, nema ábúðaskifti og greiðsla verkkaups árshjúa.

Í fljótu bragði kynni að virðast, að hægt væri að bæta úr þessu á þann hátt, að hafa annað reikningsár fyrir sveitahreppa en kauptún. En nú stendur svo á, að margir hreppar eru blandaðir, bæði sveit og kauptún teljast í sama hreppi, og innan sömu sýslu liggja bæði kauptúna- og sveitahreppar. Svo er þessu háttað í Suður-Múlasýslu, Ísafjarðarsýslu, Snæfellsnessýslu, Gullbringu- og Kjósarsýslu og víðar. Mun það reynast erfitt, ef ekki óframkvæmanlegt, að hafa tvennskonar reikningsár innan sömu sýslu. Hygg jeg því, að erfitt verði að breyta reikingsárinu svo, að eigi verði það til erfiðleika fyrir einhverja þeirra, sem við þessi kjör eiga að búa. Kemur þá það til greina, hvort meira óhagræði leiði af því fyrir sveitahreppana, að hafa almanaksár, en kauptúnin að hafa fardagaár að reikningsári. Jeg held, að reynslan hafi sýnt, að rjett sje, að reikningsárið sje almanaksár. Það er svo komið inn í viðskiftalíf og viðskiftavitund þjóðarinnar, að jeg hygg, að sveitahrepparnir geti á stuttum tíma sætt sig við það fyrirkomulag, án þess að það valdi þeim örðugleikum.

Þá vildi jeg drepa nokkuð á brtt. minni hl., sem gengur inn á þá braut, að setja það sjerákvæði um einn kaupstað, Siglufjörð, að hið sama skuli gilda þar um útsvarsálagningu og áður en lögin gengu í gildi. Jeg skal játa, að nokkuð sjerstaklega stendur á um þennan kaupstað, en jeg er hræddur um, að þessi breyting dragi á eftir sjer breytingar á öðrum stöðum, t. d. í Vestmannaeyjum. Gæti jafnvel farið svo, að fleiri breytingar bættust aftan í, þegar á þessu þingi, og þykist jeg mega sjá þess merki þegar við 2. umr.

Þótt jeg viðurkenni, að agnúar sjeu á lögunum, tel jeg ekki fengna næga reynslu um þau, til að farið sje að breyta þeim nú þegar, og einnig býst jeg við, að sumir þessara agnúa mundi hverfa, er farið væri að framkvæma lögin. En þær brtt., er hjer hafa komið fram, toga hver í sinn skanka, og heppilegra mun að samþykkja ekki mikið af þeim, ef ekki á að komast ósamræmi inn í þessa löggjöf.