13.03.1928
Efri deild: 46. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (1473)

105. mál, nýbýli

Jónas Kristjánsson:

Það má kanske virðast óþarfi að taka til máls um þetta frv., en jeg get samt ekki stilt mig um það, og þá fyrst og fremst til þess að geta þess, að jeg tel ófært að frv. þetta verði samþykt nú, vegna ónógs undirbúnings.

Það er aðallega eitt, sem vantar, til þess að frv. þetta megi að haldi koma, og það eru nægilega góðar samgöngur. Meðan svo er ástatt sem nú í því efni hjer á landi, er þýðingarlaust að vera að tala um nýbýli í því formi, sem frv. þetta gerir. (JBald: Má jeg skjóta því fram í ræðu háttv. þm., að býlin eru hugsuð bygð við bestu samgöngur, sem við nú eigum völ á.) Já, jeg veit það. En það dugir ekki til. Búskapur á þeim mundi ekki bera sig, meðan samgöngur eru ekki betri en nú á sjer stað. Það er gott að fá góðar hugmyndir. Hitt er þó betra, að sjá, að þær sjeu framkvæmanlegar og nothæfar. Góðar hugmyndir eru gagnslausar, nema þær sje framkvæmanlegar og standi á traustum grundvelli. Frv. er óframkvæmanlegt, nema því aðeins, að samgöngur verði bættar frá því sem nú er, og það tel jeg óhugsandi, nema með því einu móti, að við fáum járnbraut austur yfir fjall. Fyr er ekki hugsandi til slíkra framkvæmda, er frv. þetta fjallar um, en komnar eru greiðar samgöngur alt árið um kring austur yfir fjall. Eins og kunnugt er, eru þær marga vetur erfiðar eða stöðvast algerlega langan tíma vetrar, sakir fannfergis. Það er ekki að miða við veturinn, sem er að líða, því að hann hefir verið óvenju snjóljettur. Eins og nú standa sakir, er þetta mál því með öllu ótímabært.

Að flytja fólkið upp í sveitirnar, án þess að sjá því fyrir samgöngum, sem það getur ekki lifað án, finst mjer líkt og það, ef farið væri að veita ánum, sem flóa til ónýtis og ógreiða yfir bakka sína, upp í fjöllin aftur. Fólkið flýr þaðan, sem það getur ekki dregið fram lífið, og leitar til þeirra staða, þar sem það býst við bjargvænlegri afkomu.

Viðvíkjandi því atriði, að íbúarnir á Stokkseyri og Eyrarbakka fái land til ræktunar á Flóaáveitusvæðinu, verð jeg að segja það, að mjer finst það dálítið vanhugsað, því að ef þeir eiga að búa áfram í húsum sínum niðri í kaupstöðunum, þyrfti nýbýlin að vera sem næst bústöðum þeirra og nær en hægt er að koma við, eftir því sem þar til hagar. Það er óhugsandi, að nýrækt verði stunduð af þeirri alvöru og krafti, sem til þarf, til þess að hún beri ávöxt, ef ekki er bygt á afmælda landinu sjálfu.

Land það, sem ætlað er hverju nýbýli, virðist mjer alt of lítið, til þess að heil fjölskylda geti lifað af því, nema með ódýrum samgöngum, sem eiga sjer stað helst daglega, til þess að afurðasalan gangi greitt. 10 hektarar er ekki stórt land, bæði til ræktunar og beitar. Að minni hyggju getur engin fjölskylda lifað af því eingöngu. Jeg tel því, að þessu athuguðu rjett, það sem hin rökstudda dagskrá fer fram á, að fresta þessu máli og undirbúa það betur.