27.03.1928
Efri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (1484)

68. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Guðmundur Ólafsson:

Ef jeg hefi tekið rjett eftir orðum hæstv. dómsmrh., þá hefir hann ekkert á móti rannsókn málsins. Það er auðvitað styrkur fyrir málið, að hæstv. stjórn flytji það; og jeg tek ummæli nefndarinnar svo, að þegar hún leggur til að vísa málinu til stjórnarinnar til undirbúnings og frekari rannsóknar, þá sje ætlast til, að hæstv. stjórn taki málið að sjer og leggi það fyrir næsta þing, ef rannsóknin leiðir í ljós, að æskilegt þykir að ráðast í slíkt mannvirki.

Okkur hv. frsm. hefir ekki greint á að öðru leyti en því, að jeg tel það ekki rjett hjá honum, að botninn hafi ekki verið rannsakaður, því að það stendur þó í brjefi vitamálastjóra. Er það sannast að segja, að þó að rannsókn þurfi að gera aftur, þá er það ekkert nýtt; það er oft svo um stórfyrirtæki, að undirbúningsrannsókn fer fram oftar en einu sinni, enda er auðvitað varhugavert, að ráða stórmálum til lykta, nema alt sje rannsakað sem best.