10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

1. mál, fjárlög 1929

Jón Ólafsson:

Jeg flyt hjer eina brtt. með tveim hv. þdm. öðrum. Það er styrkur til bóndans á Ásólfsstöðum til að reisa gistihús á bæ sínum. Í rauninni er það þó ekki alveg rjett orðað, því að tilgangurinn er í raun rjettri sá, að hann geti húsað bæ sinn svo vel, að hann geti veitt móttöku sem flestum af þeim gestum, er þar ber að garði á sumrin. Víða hjer á landi er tilfinnanlegur skortur á góðum húsakynnum í þjóðbraut, en óvíða þó meiri en þarna. Mjer er sagt, að stundum sje það svo sum sumrin, að það sjeu aðeins sárfáar nætur, sem húsbændur eða heimafólk kemst í rúm sín fyrir útlendum og innlendum næturgestum. Hin mikla umferð á þessum stað stafar af því, að Þjórsárdalur hinn forni er ½ dagleið frá Ásólfsstöðum, þannig, að það tekur einmitt tímann myrkranna milli að fara í dalinn þaðan að heiman og þangað aftur.

Það er mjög vandræðalegt, að það skuli í jafnfögrum dal vera algerlega ómögulegt að hýsa gesti, sem ber að garði, innlenda og útlenda, sem leggja leið sína. þarna um og þurfa nauðsynlega að fá gistingu. Mjer er kunnugt um, að líkt stendur á um fleiri staði, en um þennan stað má fullyrða það, að þar verður afskaplega fjölfarið 1930, þegar allur sá mannfjöldi, sem búist er við, fer að hreyfa sig um landið. Það, sem við fyrst og fremst höfum að sýna, tel jeg vera okkar náttúrufegurð, og ættum við að sjá sæmd okkar í því, að aðbúnaður okkar gesta geti orðið viðunandi á þessum fegurstu stöðum. Þetta er ekki hægt að kalla neitt tildur, sem tjaldað er til einnar nætur, eins og búist er við á sumum sviðum í undirbúningnum undir hátíðina.

Jeg verð að lýsa yfir því, að jeg myndi fús að fylgja fleiri till. um styrk til húsabóta þar, sem þyrfti að bæta húsakynni í þessu augnamiði. Á síðasta þingi bar jeg fram till. um einn slíkan stað, sem fjekk ekki náð fyrir augum þessarar hv. deildar; hún var um að hjálpa bóndanum á Laugarvatni til að byggja. Það er einn af þessum fögru og fjölsóttu stöðum. Jeg vona því, að hv. deild sjái sjer fært að bæta þessum litla styrk við þann styrk, sem ætlaður er til að halda slík gistihús fyrir ferðamenn.