09.02.1928
Neðri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (1640)

78. mál, bændaskóli

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg gerði ekki ráð fyrir að þurfa að taka þátt í umr. á þessu stigi málsins, því að jeg er hv. flm. frv. að nokkru sammála, þótt okkur greini nokkuð á.

En það er hv. þm. Borgf., sem jeg vildi segja nokkur orð við, því að sá hv. þm. hefir mjög misskilið það, sem jeg sagði um daginn.

Það, sem gerði, að jeg bar fram mitt frv., var þörfin um að auka verklega námið. En það er nú svo, að það verður mjög erfitt að koma við verulega auknu verklegu námi, ef ríkið rekur ekki búið. Það verður að þreifa sig áfram um, hvernig á að gera þetta. Þess vegna vildi jeg láta gera þessa tilraun norður á Hólum, en jeg tók það skýrt fram, að jeg hefði ekki komið með þessar tillögur fyrir báða skólana, af því að jeg áliti það í alt of mikið ráðist, að láta ríkið reka bæði þessi bú, og jeg minti á þá reynslu, sem fengist hefir í því efni, og sem gerði það að verkum fyrir ca. 20 árum, að fjögur opinber bú voru lögð niður. Þess vegna er það einmitt það atriðið, sem jeg hefi að athuga við þetta frv., að þar er gert ráð fyrir því, að gerbreyta báðum bændaskólunum og fara að reka bæði búin fyrir opinbert fje. Jeg álít, að reynslan frá 1905 sje sú, að við eigum ekki að taka upp þegar sama fyrirkomulagið á báðum skólunum, heldur ættum við í mesta lagi að reyna það á öðrum þeirra, þegar tækifæri gefst til þess. — Um hinn skólann er það að segja, að hann hefir mjög góða aðsókn nú.