21.02.1928
Neðri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í C-deild Alþingistíðinda. (1657)

89. mál, einkasala á saltfisk

Jón Ólafsson:

Greinargerð þessa mikla frv. er ekki nema 4 línur. Jeg hefi þó svolítið reynt að kynna mjer málið, og sje ekki, að það hafi við annað að styðjast en það, sem fram kom hjá hv. flm. nú, slagorð og upptuggu eftir ýmsum mönnum, sem fyr og síðar hafa vaðið reyk í þessu máli. Þegar svona vandskilin mál eru á ferðinni, er hætt við, að ryki sje þyrlað upp í kringum menn og málefni. Þrátt fyrir alt, sem hv. flm. hefir lesið yfir okkur, hefir hann lítið bætt úr vöntun greinargerðarinnar. Aðeins er það eitt atriði í ræðu flm., sem vert er að athuga, sem sje, að greitt verði betur fyrir útbreiðslu nýrra markaða. En hv. flm. minnist ekki á það aðalatriði, að Spánarmarkaðurinn er bestur saltfisksmarkaður í heimi. Hann borgar hæst verð, og á síðari árum hefir mikið áunnist í því, að víkja öðrum þjóðum frá þeim markaði, þótt nokkuð sje þar óunnið enn. Þetta er nægilega ástæða til þess, að ekki sje lögð mikil áhersla á Suður-Ameríku. Samt sem áður eru þó tvö fjelög að vinna að því, að senda þangað fisk, með frekar ljelegum árangri. Aðalatriðið er því, að við getum haldið besta markaðinum og rutt öðrum frá honum að mestu eða öllu leyti, svo sem við höfum nú gert á Suður-Spáni.

Hv. flm. hjelt, að frv. fengi betri byr hjer á Alþingi og skapaði þessari hugsjón betri skilyrði, af því að nýjar kosningar hefðu farið fram. Það má vera, að svo sje, en jeg efast samt um, að þm. sjeu hrifnir af þessu. Mjer þætti ekki undarlegt, þó að þeim blöskraði þessar háu tölur — 40 miljónir. En þó er ekki óeðlilegt, að þeir, sem eru þjóðnýtingarsinnar, vilji gjarnan fara höndum um ekki minni fjárhæð. Hv. flm. taldi líklegt, að fiskverslunin væri ekki rjett rekin. Það má segja það um flesta hluti, sem einstaklingarnir framkvæma, að þeir mættu betur fara. En þjóðin mundi reka þessa verslun að ráði einstaklinga þjóðfjelagsins, nema verslunin eigi, eins og var fyrir aldamót, að vera í Dana höndum. Síðan 1908 hefir hún verið rekin af Íslendingum, og þó að einkasala kæmist á, þá er líklegt, að þeim sömu mönnum, sem gert hafa þau dæmalausu glappaskot, sem hv. flm. vill vera láta, yrði falið eftirlit með henni, því að ekki er líklegt, að sótt verði ráð til þeirra, sem enga reynslu hafa við að styðjast, þótt flm. og fleiri álíti, að ekki þurfi annað en ráðstjórnir til allra framkvæmda í verslun o. fl. Versluninni fylgir mikil áhætta, og enn meiri, ef þjóðfjelagið á að taka ábyrgð á vitleysum þeim, sem vænta mætti af stjórn slíkra mála. Þó að ríkið beri ekki beinlínis ábyrgð eftir frv., þá ber það þó siðferðislega ábyrgð á stjórn slíks fyrirtækis, sem rekið er að tilhlutun þess.

Hv. flm. talar um að útiloka samkeppni. Veit ekki hv. flm., að það er ekki hægt að útiloka samkeppni í fiskversluninni, þar sem við eigum að etja við sterka samkeppendur, aðallega Norðmenn. Þeir koma sínum fiski alstaðar inn, einkum þar sem þeir finna veikan punkt á öðrum þjóðum. Það er höfuðvilla hjá hv. flm., að halda, að við getum sett fiskineytendum stólinn fyrir dyrnar í verðlagi, því að þau tilfelli koma ekki fyrir nema einu sinni máske á 10 árum. Hitt er rjett, að við getum dregið okkur í hlje með framboð á ýmsum tímum, en gæta verður þó margs, þar á meðal framboða annara þjóða, ásamt heimsbirgðum vörunnar, og í öllum tilfellum virðist farsælast að fylgja alheimsverðlaginu á þessari vöru sem annari. Þetta verðum við að þola, til þess að aðrar þjóðir ryðji okkur ekki burt af markaðinum. Það kemur enn í ljós, að sumstaðar á Norður-Spáni er ekki spurt um annað en norskan fisk. En okkar kaupmönnum til lofs má segja, að nú eru ýms hjeruð á Spáni að vinnast, fyrir milligöngu þeirra á síðari árum. Við erum til dæmis búnir að ná Catalóníu-markaðinum öllum á okkar vald, og að mestu leyti höfum við rutt Norðmönnum af Bilbaó-markaðinum. Síðustu árin hafa þeir selt mikið af fiski sínum til Portúgal. Fyrst og fremst verða þeir, sem fást við fiskverslun, að afla sjer allra þeirra upplýsinga, sem mögulegt er að fá, um framleiðslu annara þjóða og fiskframboð þeirra. Það er eitt af því allra nauðsynlegasta. Það er óhætt að segja, að í seinni tíð liggja fyrir greinilegri skýrslur um þetta efni en áður. En af mörgum ástæðum er ómögulegt að spá neinu um það, hve lengi framleiðslan muni endast. Þar kemur margt til greina, t. d. uppskera og fjárrækt og framboð á þeim vörum. Þetta kemur máske alt í einu í ljós á þann hátt, að það dregur óeðlilega úr neyslu fiskjarins. En slíkt er aldrei hægt að sjá fyrir, og menn komast að raun um, að ómögulegt er að reka fiskverslun á öruggum grundvelli um verðlag. Þegar verðlagið lækkar, er reynt að halda því dálítið uppi, með því að draga úr útflutningnum, en þrátt fyrir það dregur úr neyslunni og verðið fellur, í samkeppninni við aðrar matvörur, sem einstaklingurinn sjer sjer hag í að brúka. En slíkt verður sem sagt ekki sjeð fyrir. Sumir hafa reynt að láta aðra taka áhættuna á sig, en í ríkissölu mundi sú leið ekki verða tekin. Þessar lágsveiflur á fiskverði sýnast vera eðlilegar. Þær byrja þannig, að framboð hefst á vöru, sem keppir við fiskinn, eða af því að fiskframleiðslan er óeðlilega mikil. Það stafar aftur af síðustu hásveiflu verðsins. Þegar verðið lækkar, dregur úr framleiðslunni. Menn fara að stunda annað, sem borgar sig betur.

Jeg geri ekki ráð fyrir, að þótt stjórnin hefði fiskverslunina með höndum, eða þá sjerstök nefnd, sem til þess væri valin, að hún yrði naskari um þessa hluti en þeir, sem fengist hafa við verslunina hingað til. Þvert á móti, því að eins og hv. flm. mintist á, hefir sú orðið reyndin, að mistökin hafa orðið því meiri sem fiskverslunarfjelögin hafa orðið stærri, og því oft ekki gætt þess, að þau voru ekki megnug þess að ráða verðlaginu á heimsmarkaðinum, meðal annars af þeim ástæðum, sem jeg hefi hjer tekið fram. Þegar því þannig mistekst að leggja sanngjarnt verð á fiskinn, leitar einstaklingurinn á aðrar slóðir um kaup á neysluvörum. Einkasalan mundi ekki undanþegin þessari ófrávíkjanlegu hættu, nema síður sje.

Það væri fróðlegt að líta yfir það, hvernig fiskverslun okkar hefir gengið í seinni tíð, og hverjir hafa rekið hana. Við höfum að mestu selt útlendingum, sem hingað hafa komið til innkaupa á þeim tegundum fiskjar, sem sú þjóð hefir haft brúk fyrir. Þessi tíska er svo alþekt um allan heim, í vöruviðskiftum þjóðanna, og er það því hið eðlilegasta, að sá kaupmaður, hvort sem hann er innlendur eða útlendur, kaupi hjer vörur fyrir það verð, sem framleiðandi vill selja þær á, að fengnum öllum upplýsingum frá sendimanni á Spáni um horfurnar þar. Jeg verð að vísu að segja, að það hefir ekki altaf reynst örugt, sem sendimaðurinn á Spáni hefir sagt. Mín reynsla er sú, að oft, þegar hann hefir spáð verðlækkun, hefir orðið verðhækkun, og öfugt. Þetta sýnir, að ómögulegt er, að sjá fyrir, hvað verða muni í þessu efni, enda hafa útlendingar tapað stórfje á að kaupa fisk hjer. 1908 varð hæsta verðsveifla, sem jeg man eftir á fiski. Hann komst upp í rúmar 85 krónur pr. skpd. Þá versluðu hjer með fisk Edinborg, Miljónafjelagið og H. P. Duus. Þessi hásveifla kom hinum útlendu fjelögum svo á knje, að þau risu ekki úr rústum aftur. Þau vildu nota sjer sem best væntanlega verðhækkun á Spáni. Jeg held ekki, að hægt sje að segja, að landsmenn hafi þá orðið fyrir miklum halla, af því að fiskverslunin var ekki í ríkisins höndum. Það er svo um framleiðendur, að þeir vilja koma af sjer áhættunni á aðra, og í sjálfu sjer álít jeg ekkert varhugavert við það.

Jeg skal enn færa fram nokkur rök, sem ekki verður á móti mælt, nema með slagorðum um að það megi bæta skipulag fiskverslunarinnar. Við megum ekki gleyma því, að við eigum ætíð í bardaga við aðrar þjóðir og óvissuna um það, hvernig þær koma fram á heimsmarkaðinum. Síðastliðið ár þótti sumum líta út fyrir verðhækkun, og gerðust ýmsir þá til spákaupmensku. En áður en varði kom það í ljós, að birgðirnar voru meiri en gert var ráð fyrir, svo að verðið fór lækkandi, og varð að síðustu að selja fyrir fáanlegt boð, og tap útlendra og innlendra kaupmanna varð gífurlegt. En flestir framleiðendur höfðu fengið meira en sannvirði, og eru mjög mörg dæmi þess í fiskverslunarsögu vorri hin síðari árin, og skal jeg skýra það nokkru nánar.

Framan af stríðsárunum og til 1920 safnaðist nokkurt fje á hendur stórkaupmönnum þeim, er fiskverslun höfðu haft með höndum. En þá byrjar hrunið. Verðið fellur stórkostlega, og þessir stórkaupmenn verða fyrir verulegum skakkaföllum. Þá sópast burt allur fyrri ára ágóði og mikið meira, sem því miður lenti á bankanum, eins og allir munu kannast við. En það fje, sem þessir menn töpuðu frá sjálfum sjer, rann alt inn í landið. Þannig hefir Coplandsfjelagið tapað um 1½ milj. kr. Nokkrir efnamenn töpuðu og miklu af eignum sínum, eða um 2 milj. kr. — Þessar nærri 4 milj. hafa því runnið inn í landið aftur. Þessi fjelagsskapur reisti flugið nokkuð hátt. Hann ætlaði sjer að ráða markaðinum, með því að komast yfir sem mest af fiskinum. Þeir keyptu af framleiðendum fyrir óeðlilega hátt verð, sem vitanlega kom framleiðendunum að notum. En hjer með er ekki alt upp talið. Þrjú fjelög, öll útlend, sigldu í kjölfar Coplands & Co. með of hátt verð. Munu sum þeirra hafa skilið hjer eftir um 5 milj. kr., eða öll alt að 8 milj. kr.

1925 fer alt á sömu leið, að allir, sem versla með saltfisk, tapa á honum. Þar á meðal Truepa & Pardo í Bilbao um 400 þúsund kr. Alt þetta útlenda fje hefir runnið inn til landsmanna, og að sjálfsögðu aukið þjóðarauðinn mikið.

1926 er mjög erfitt að selja fisk og lítil eftirspurn. Öflugt firma hjer, sem hafði mjög víðtæka þekkingu á fiskverslun, áleit þá, að eftirspurnin mundi aukast og verðið hækka. Bankarnir nota tækifærið og láta smærri fiskeigendur selja firmanu fisk sinn. Firmað greiddi hverjum einum sitt, en tapaði sjálft ca. 2 milj. af veltufje sínu.

Af þessu má sjá, að einkasala ríkissjóðs mundi eiga við alla hina sömu erfiðleika að stríða sem þessir stóru fiskseljendur. Eins og sjá má á þessu yfirliti, þá eru það þessir stóru fiskkaupmenn, sem mest hafa tapað. Jeg held nú, að hv. flm. muni ekki harma það svo mjög, þótt þeir hafi offrað sjer fyrir hina smærri framleiðendur.

Jeg geri nú ráð fyrir því, að þegar þessir fiskframleiðendur, sem seldu stóra firmanu í síðastnefndu dæmi, fengu 30–40 kr. meira fyrir hver 160 kg. af fiski, heldur en firmað gat selt hann aftur, þá muni jafnaðarmenn segja, að það hafi ekki verið sannvirði, sem þeir fengu fyrir fiskinn, heldur hærra verð. En þótt þeir sjálfsagt kalli það eitt sannvirði, sem einhverjum klaufanum tekst að selja fiskinn fyrir með einokunarfyrirkomulagi, þá munu þeir þó varla sjá eftir því, þegar útlendir menn verða til þess að borga hátt verð inn í landið, þótt þeir sjálfir tapi á því. Slíka hvalreka til handa landsmönnum skaffar einkasalan ekki, og því síður öryggi fyrir glappaskotum.

Jeg skal svo ekki fjölyrða mikið meira um þetta. Jeg býst við, að af þessu megi sjá, að þótt horfið verði að einkasölu, þá eru það þó altaf mannlegar verur, sem eiga með söluna að fara. Og þegar þeir, þótt þriggja manna nefnd sje, eiga svo að fara að selja milliliðalaust — því, að nota þá þekkingu og færni, sem slíkir menn hafa, mega jafnaðarmenn ekki heyra nefnt — getur orðið veruleg hætta á skakkaföllum. Og því meiri sem fyrirtækið er stærra. Hjer væri því um stóra hættu fyrir ríkissjóð að ræða. Annars er þetta milliliðahjal tóm endileysa. Það er eins og þeir haldi, að þessir milliliðir leggi hvorki fram hæfileika, þekkingu eða vinnu við sitt starf. Slíkar fjarstæður ættu ekki að heyrast til greindra manna.

Kæliskip og flutningur á kældum fiski kemur þessu máli ekki við. Það atriði er alveg hliðstætt því, sem byrjað hefir verið með útflutning á t. d. kjöti. Það getur verið framtíðarmál, og ekki óeðlilegt, að ríkissjóður styrki það, ef það gæfi von um betra verð í framtíðinni.

Þótt stundum hafi gengið erfiðlega með fisksöluna á liðnum árum, þá er þó framtíðarleiðin til að tryggja söluna áreiðanlega ekki sú, að taka upp einkasölu. Hitt er heillavænlegra, að byggja á þeirri reynslu, sem fengin er, reyna að komast yfir mannlegan breyskleika og vanþekkingu og fika sig áfram smátt og smátt, þangað til erfiðleikunum er rutt úr vegi, að svo miklu leyti sem hægt er, með aukinni þekkingu á þessu sviði sem öðrum.