22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í C-deild Alþingistíðinda. (1698)

108. mál, einkasala á tóbaki

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Hv. þm. Dal, lagði mesta áherslu á það, að ekki væri altaf verið að breyta til í þessu efni. Þess er því að vænta, að þegar hann kemst til valda og hans flokkur, verði ekki breytt til aftur og horfið frá því, sem nú verður væntanlega gert, að samþykkja einkasöluna.

Þá voru það þeir hv. 2. þm. G.-K. og hv. 1. þm. Reykv., sem vildu halda því fram, að ríkissjóður hefði meiri tekjur af tóbakstolluin í frjálsri samkeppni, en búast mætti við með einkasölu nú.

Sje nú árið 1926 borið saman við árið 1925, sem var síðasta ár einkasölunnar, verður útkoman mjög svipuð, en sje árið 1927 tekið til samanburðar, verða tekjur ríkissjóðs um 200 þús. krónum lægri en 1925, þegar tekið er hvorttveggja saman, einkasölutekjur og tollur. — Hv. 1. þm. Reykv. taldi rjett að taka meðaltal af tekjum einkasöluáranna. Jeg álít það af ýmsum ástæðum ekki rjett, meðal annars er það vitanlegt, að innflutningur á hinum ýmsu vörutegundum getur farið minkandi eftir árferði og síðar vaxið aftur, og gefa því einkasöluárin, sem flest voru í kreppudalnum, ekki rjetta hugmynd um framtíðartolla og hagnað af tóbakinu, enda sjest hið sama af athugun á innflutningi af kaffi og öðrum nauðsynjavörum, sem engin einkasala var á, yfir sama tímabil. Þetta er ekki af neinu öðru en því, að kaupgeta fólks er ekki altaf hin sama, og það kemur fram á erfiðleikatímum, að menn spara við sig jafnvel hið allra nauðsynlegasta, hvað þá heldur tóbak. Innflutningurinn verður ekki meiri, þó frjáls verslun sje, heldur en einkasala. Þá verður úr því einkasala einstakra manna og fjelaga, í stað ríkisins, og hvernig er hægt skynsamlega að hugsa sjer, að notkunin minki, þó að verslunin komist á eina hönd í stað 3–5 heildsala, sem einkasölu hafa, eins og nú gengur. Það, að tolltekjur tapist, vegna þess að meira verði smyglað, ef einkasalan væri, sje jeg ekki ástæðu til að óttast. Jeg hefi það traust á núverandi stjórn, að hún gæti laganna á því sviði ekki ver en sú stjórn, sem sat við völdin á fyrra tímabili einkasölunnar. Enda væri það óeðlilegt, að meira væri smyglað fyrir því, þó að ríkið hefði einkasölu, en ef verslunin væri frjáls. Varla geri jeg ráð fyrir því, að þeir, sem mistu helst spón úr aski sínum við að einkasala kæmist á, legðu þá fyrir sig smyglun tóbaks í stað heildsölu.

Þá vildu háttv. andmælendur mínir fá sterkari rök fyrir því, að einkasölu ætti að taka upp. Jeg geri ráð fyrir því, að eins og skoðunum er háttað, þá hafi mín rök lítið að segja fyrir þá, og þeir vita líka vel, hver þau eru. Mín skoðun er sú, alment á litið, að stærri fyrirtæki beri sig betur, vegna minni reksturskostnaðar, en hin smærri, ef þeim er jafn vel stjórnað, og geti einkasala því meiri arð gefið en samkeppnisverslanir. Því sje einkasala heppileg frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Ennfremur megi með einkasölu ríkisins koma versluninni þannig fyrir, að neytendur fái vöruna með lægra verði en annars, vegna færri milliliða. Loks renni hinn eiginlegi verslunarhagnaður með einkasölu í ríkissjóð, en ekki vasa einstaklinga, og fái ríkissjóður því bæði toll og verslunarhagnað í stað tollsins eins. Sje það vilji þingsins, að lækka ekki vöruverðið, verður hagnaðurinn því meiri, en hann rennur þá í ríkissjóðinn. Jeg verð að segja það, að eftir þeirri reynslu, sem jeg hefi haft fyr og síðar af verslun með þessa vörutegund, veit jeg, að það er heppilegra fyrir fjárhagslega afkomu verslunarinnar, að hún sje á einni hendi, og má telja víst, að ríkissjóður gæti fengið aldrei minna en 200 þús. kr. tekjuauka, án þess að verðlag vörunnar til almennings hækkaði.

Hv. 1. þm. Reykv. var að tala um gengisgróða landsverslunar, 68 þús. kr., og vildi telja það til tekna. En með þessu fje var greitt útsvar, sem verslunin varð að greiða samkvæmt dómi. Einkasalan hefir greitt útsvör til Reykjavíkurbæjar, sem voru mörgum tugum þúsunda meiri en kaupmenn greiða nú árlega, og má af því, auk hagnaðar ríkissjóðs, telja þann tekjuauka fyrir bæjarsjóð Reykjavíkur, sem kæmi, ef einkasala hæfist að nýju.

Þá vildi hv. 1. þm. Reykv. halda því fram, að með samkeppnisverslun fengjust yfirleitt betri vörur en ef einkasala væri. Jeg vil aðeins svara því til, að þær vörur, sem nú eru á boðstólum, eru yfirleitt nákvæmlega þær sömu og áður voru á tímum einkasölunnar, og þó síst betri nú. Sömuleiðis er verðið síst lægra nú í innkaupi fyrir heildsala, og hafa þeir þó miklu skemri gjaldfrest.

Jeg vil að lokum aðeins benda á það, sem jeg hefi áður sagt, að meiri arðsvon af rekstri verslunarinnar, ef hún er á einni hendi og ef hún er rekin með sem minstum tilkostnaði, hvað snertir mannahald og annað. Jeg sje ekki hvaða gagn er að því fyrir þjóðfjelagið, að fleiri sjeu látnir starfa við slíka verslun en þörf er á.

Jeg vil loks mælast til þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.