22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í C-deild Alþingistíðinda. (1711)

114. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Ólafur Thors:

Jeg vildi aðeins segja nokkur orð vegna þeirra ummæla, sem komu frá hv. 4. þm. Reykv., að þessu máli hafi verið hnuplað af okkur flm. þess, enda þótt 1. flm., hv. þm. Vestm., sje að nokkru leyti búinn að svara þessu. Við þurfum ekki að hafa nein dulmæli um það, Íhaldsmenn, sem fram fer í þessu máli. Sannleikurinn er sá, að nokkrir okkar hafa frá síðasta þingi verið að vinna að undirbúningi þessa máls; þegar svo þingmenn komu saman í þingbyrjun, var þetta eitt af þeim málum, sem við fórum að ræða, um það bil sem frv. var að mestu fullsamið og komið í frambærilegt form. En þá sáum við, að fiskiþingið hafði einnig tekið ákvarðanir um málið, með því að skora á forseta Fiskifjelagsins að vinna að framgangi þess. Þegar við nú sáum þetta, snerum við okkur brjeflega til forseta Fiskifjelagsins og tilkyntum honum, að við hefðum ætlað okkur að bera þetta mál fram, en ef hann tæki það upp á sína arma, þá mundum við láta okkur það vel líka, en óskuðum aðeins að fá að vita, hvora leiðina hann mundi velja. Við þessu fengum við svo skriflegt svar frá forseta Fiskifjelagsins, þar sem hann kveðst mundi eiga tal um málið við sjávarútvegsnefndir beggja deilda Alþingis. Þegar hjer var komið, þótti okkur þetta mál orðið of sameiginlegt mál allra, til þess að nokkuð næði fram að ganga, því að það er sem kunnugt er, að þegar allir eiga eitt mál saman, þá er það ávalt til þess, að ekkert verður gert. Þess vegna þótti okkur rjett að flýta fyrir málinu, með því að leggja fram þetta frv. Erum við fúsir til samvinnu og reiðubúnir til að hlýða á tillögur, hvaðan sem þær koma.

Að því er snertir tillögur þær, sem hv. 4. þm. Reykv. gat um að lægi fyrir sjútvn. Nd., tillögur, sem komnar eru frá milliþinganefnd, sem fjallaði um þetta mál, verð jeg að segja það, enda þótt sú nefnd hafi verið skipuð ágætis mönnum, þá höfum við flm. ekki getað aðhylst tillögur þeirra, frekar en þetta frv. ber með sjer. Sá var aðalmunurinn, að nefndin ætlaðist til að starfað yrði á tvennan hátt, vildi bæði veita lán til bátakaupa og rekstrarlán annarsvegar, en í frv. okkar hníga tillögurnar að því, að lána til skipakaupa og til að stofnsetja iðnaðarfyrirtæki til þess að vinna úr fiskúrgangi. Þetta er höfuðmunurinn, en hann er líka allverulegur.

Jeg vil að öðru leyti taka undir það með hv. 1. flm. frv., að jeg vil lýsa ánægju minni yfir því, að hv. 4. þm. Reykv. hefir lýst fylgi sínu við þetta mál. En af því leiðir þá líka, að hann mun leggja á móti frv. á þskj. 253, sem flutt er af hv. 5. landsk., því að það frv. fer fram á alt aðra ráðstöfun á fiskiveiðasjóði, og getur á engan hátt samrýmst því frv., sem hjer liggur fyrir. Jeg finn sjerstaklega ástæðu til að undirstrika það þakklæti, sem hv. þm. Vestm. hefir látið í ljósi, til hv. 4. þm. Reykv., fyrir það, að taka svo gersamlega andstöðu við flokksbróður sinn. Jeg á ekki slíku að venjast úr þeim Herbúðum, og finn því ríkari hvöt til að þakka hv. þm. (SÁÓ), þegar það kemur svo greinilega í ljós.