21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í C-deild Alþingistíðinda. (1736)

128. mál, fiskiræktarfélög

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg gat þess í umr. um annað mál, sem nýlega lá hjer fyrir, að mjer væri ekki fyllilega ljóst, hve mikið vald þessum fjelögum væri gefið samkv. þessu frv. til þess að friða fisk, enda þótt þess sje getið í 2 greinum. En það eru til önnur lög um friðun á fiski, laxveiðalögin, sem eru í eðli sínu líka friðunarlög. Það er því ljóst, að ef veita á þessum fiskiræktarfjelögum leyfi til þess að friða lax, þá rekast þau á laxveiðalögin. Það vantar því ákvæði í þessi lög um það, að þau hafi frekari rjett til friðunar en hin lögin. Jeg hefi borið þetta undir merkan lögfræðing, og er hann mjer sammála um þetta. Það er því annaðhvort, að bæta því í þessi lög, að þau hafi vald til friðunar fram yfir hin lögin, en að öðrum kosti verða þau algerlega þýðingarlaus.

Þá er að athuga það, hvort rjett er að láta frv. þetta ná inn á verksvið þeirra gildandi laga, eða greina á milli þeirra og láta þau ná yfir sitt verksviðið hvor. Skiftingin yrði þá þannig að fiskiræktarlögin fengjust eingöngu við klak og þessháttar, en farið skyldi eftir ákvæðum laxveiðilaganna að því er snerti veiði og friðun. Jeg fyrir mitt leyti hallast hiklaust að því, að hjer sje greint vel á milli og hvor lögin um sig hafi sitt takmarkaða svið. Því jeg er sannfærður um það, að ef leyfa ætti fiskiræktarfjelögum að friða fisk og takmarka netalagnir, þá mundi það verða til þess að vekja sífeldan ófriðareld innan hjeraðanna. Og þar verður betra, þó löggjöf þessi verði óvinsæl, heldur en að hún verði til þess að vekja ófriðareld innan hjeraðanna. Það verður því heppilegast, að vísa laxveiðalögunum til stjórnarinnar og fela henni að koma inn í þau öllum þeim ákvæðum, sem nauðsynleg eru til þess að þau geti verið fullgildandi um friðun á fiski, en láta þessi lög eingöngu fjalla um klakhliðina. Því það getur farið svo, að ef fiskiræktarfjelögunum er gefin heimild til þess að friða eða takmarka veiðirjett manna, að þá verði gengið nær eignarrjetti einstaklingsins en heimilt er samkv. 63. gr. stjskr. En vitanlega yrði þá að setja ákvæði um þær bætur, er koma skyldu í stað þeirrar veiði, er tekin væri. Vegna alls þessa er rjettara að binda fiskiræktarfjelagsskapinn eingöngu við klakið, en sleppa hinu. Sama máli gegnir um eyðing sels. Þar væri rjettara að setja ákvæði um það í laxveiðalöggjöfina.

Að því er snertir ákvæðið í 13. gr., um það, að taka megi fjelagsgjöld lögtaki, þá finst mjer það alger óþarfi, að þessi gjöld sjeu gerð svo miklu rjetthærri en önnur svipuð, og legg jeg því til, að það sje felt niður. Annars væri gott að heyra, hvað hv. landbn. segir um þetta.