08.03.1928
Neðri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í C-deild Alþingistíðinda. (1772)

135. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Gunnar Sigurðsson:

Jeg er einn af flm. þessa frv., og ber það helst til, að jeg var sá maður í allshn., sem ákveðnast hjelt því fram, að byrja ætti nú þegar á útvarpinu. Það sýnir sig hvarvetna í heiminum, þar sem menn eru farnir að kynnast útvarpi, hve bráðnauðsynlegt menningartæki það er og að notendafjöldinn fer hraðvaxandi. Nýlega las jeg grein í þýsku blaði, þar sem skýrt er frá útvarpsmálunum þar í landi. Og útbreiðsluna má marka af því, sem þar segir, að 1924 voru notendur útvarpsins aðeins 1500, en nú eru þeir fullar 2 milj. Jeg skýrði frá því í framsöguræðu minni, hve fljótt milliþinganefndin hefði álitið, að notkunin mundi aukast hjer, og jeg ætla, að svo muni fara. En til þess þarf að vekja athygli almennings á nauðsyn málsins og gera mönnum sem ljettast fyrir að afla tækjanna. Þetta vil jeg sjerstaklega undirstrika fyrir hönd bændanna. Þeir geta áreiðanlega haft mikinn beinan hagnað af útvarpinu, ef nokkuð er á annað borð að marka fregnir frá veðurstofunni. Það er t. d. ekki lítils virði í óþurkatíð að vita, hvernig viðra muni næsta dag.

Jeg er ekki eins hræddur og hv. þm. Dal. um, að sú ráðstöfun, sem frv. fer fram á, muni tefja byggingu þjóðleikhússins. Engin ástæða er til að byrja á henni fyr en fje er nægilegt fyrir hendi. Og það er ekki nú sem stendur. Auk þess er það ómótmælanlegt, að útvarpið kemur öllum landslýð, og þá sjerstaklega sveitunum, að meiri notum en leikhúsið. Og það þolir enga bið. En þjóðleikhúsið þolir bið. Hinsvegar mætti semja svo við stjórn þjóðleikhússjóðsins, að lánið skyldi endurgreiðast innan ákveðins tíma, t. d. 2–3 ára. Væri þá sjeð um það, að fjenu yrði eigi haldið svo lengi, að þjóðleikhússmálið biði skaða af.

Hvað sem öðru líður, tel jeg, að gera verði það ítrasta til þess að útvarpinu verði þegar í stað hrundið í framkvæmd. Og jeg skal taka það skýrt fram, að ef til þess kæmi, að jeg tæki frv. aftur fyrir mitt leyti, væri það með því skilorði einu, að ég fengi ákveðið heit hæst. forsrh. um það, að ríkið skyldi samt hefja rekstur útvarpsins þegar í stað. Og jeg æski svars hæstv. stjórnar um það, hvernig hún lítur á þetta mál, fjáröflunina til útvarpsins.