10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

1. mál, fjárlög 1929

Sigurjón Á. Ólafsson:

Það hefir verið rætt mikið um nál. samgmn., en af því að jeg er við það riðinn, ætla jeg að segja nokkur orð. Aðalgagnrýning hv. l. þm. Skagf. (MG) beindist að því, að slíkar kröfur, sem fram hafa komið, sjeu ekki rjettmætar. Áður en jeg fer inn á það, skal jeg taka það fram, að jeg get verið hv. þm. sammála um, að það sje rjettasta fyrirkomulagið, að stjórnin hafi úthlutunarrjett á styrknum. Hún er því kunnugust, hvar þarfirnar eru mestar. Hinsvegar get jeg fallist á, að óþarfi sje að krefjast þess af samgmn., að hún búti styrkinn milli hinna einstöku umsækjenda. En þessi hluti fjárlaganna liggur nú fyrir og það er verkefni nefndarinnar að segja, hvort henni þykir þetta nóg eða ekki. En til þess að geta skapað sjer rjetta hugmynd, hafa nefndarmenn ekkert að byggja á, ef ekki liggja fyrir skýrslur um hag, rekstur, flutninga- og fargjöld og áætlanir bátanna. Annars er alt, sem nefndin gerir, fálm út í loftið. Við tveir, sem erum nýir hjer á þingi og höfum aldrei í samgmn. setið, höfðum ekkert að byggja á. Við hugsuðum sem svo: Ef við viljum fara sem næst því, sem stjórnin vill, hvað eigum við þá að gera? Ef við viljum fylgja nefndinni og fara eftir gömlum siðvenjum, höfum við ekkert að byggja á. Þetta kemur bersýnilega í ljós hjá hinum margumtalaða Eyjafjarðarbát. Þar hefir óviljandi verið nefnd Húsavík í staðinn fyrir Þórshöfn, af því að ekki er einu sinni til áætlun um, hvaða svæði báturinn á að annast.

Um hina smærri báta þarf jeg ekki að tala. En jeg get ekki mælt með því, að til gufuskipa eins og Suðurlands leggi ríkissjóður fram 30 þús. kr. án þess að nokkur vissa sje um það, hvernig fyrirtækið er rekið. Það mun þó ekki tilætlunin, að ríkissjóður greiði hluthöfum þess skips arð. Um Djúpbátinn hefi jeg ekki annað fyrir mjer en það, sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) sagði, að hagur hans sje slæmur; við höfum ekkert annað að byggja á en hans eigin orð, og hann mun vera einn af eigendum þess báts. Jeg hefi því skrifað undir nál. með fyrirvara og tek því enga ábyrgð á till. nefndarinnar. Jeg vil helst hallast að till. hæstv. stj. og láta svo kylfu ráða kasti, hvort komast má af með þá upphæð eða ekki.