28.03.1928
Efri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í C-deild Alþingistíðinda. (1855)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Frsm. 1. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg hefði getað vænst þess, að hæstv. fjrh., sem þetta mál heyrir undir, væri hjer viðstaddur umr. og ljeti álit sitt í ljós. En um það þýðir ekki að fást. Jeg ætla aðeins að segja nokkur orð áður en gengið er til atkv.

Hv. 5. landsk. er í rauninni sammála okkur í þessu máli, en telur þó varhugavert að samþ. það, vegna þess að bankastjórar Landsbankans sjeu því mótfallnir, að bankinn taki þessa starfsemi að sjer. Eftir 1. gr. er nú ekki um annað að ræða en heimild fyrir stjórnina að veita ábyrgð fyrir slíku láni. Það er nú í rauninni ekki bankastjóranna að kveða á um þetta, heldur bankaráðsins. Eins og öllum er kunnugt, er bankaráðið líka þannig skipað, að altaf má vænta, að ályktanir þess verði í samræmi við skynsamlegar ályktanir, sem teknar eru á þingi. Eins og nú stendur á, hygg jeg, að Landsbankinn geti gert alt, sem nauðsynlegt er í þessu máli, án þess að taka ný lán. Hann hefir reikningslán erlendis, sem hann ekki hefir notað enn. Það er ameríska lánið, eða sá hluti þess, sem framlengdur hefir verið um eitt ár og sýnist sjerstaklega aðgengilegt að nota þetta. Okkur er fyllilega ljóst, að menn hlaupa ekki upp til að hagnýta sjer þetta alment þegar á fyrsta ári. Það verður hafist handa á nokkrum stöðum, en starfsemin fer svo vaxandi og verður almennari, smátt og smátt. Einmitt meðan þetta byrjunarástand stendur yfir, tel jeg sjálfsagt að nota aðstöðu Landsbankans til að nota þetta fje, sem hann hefir á reikningsláni hvort sem er, með ábyrgð ríkissjóðs. Það vita allir, að menn þurfa umhugsunartíma og undirbúning, áður en þeir fara að nota þetta alment, og einmitt þess vegna er nauðsynlegt, að byrjunin geti hafist sem fyrst. Mjer finst því nauðsynlegt, að þetta frv. verði afgreitt frá þessu þingi, til þess að menn viti, að hverju þeir eiga að ganga. Menn eru misfljótir að átta sig á þessu og þurfa tíma til að koma sjer saman við stjórnir sparisjóðanna um þessi viðskifti. Við álítum því, af þeim ástæðum, sem jeg nú hefi greint, misráðið að fresta þessari lagasetningu eða vísa málinu til stjórnarinnar.

Hv frsm. (IP) ljet í ljós, að hann og hv. 1. þm. Eyf. hefðu beygt sig fyrir áliti bankaeftirlitsmannsins og Landsbankastjórnarinnar. Hann hafði ennfremur eftir mjer, að jeg liti á þetta sem tilraun og teldi mestu varða að fá reynslu á þessu. Jeg hefi sagt eitthvað á þá leið, að við mundum fara hægt á stað, og það er alt annað en að gera tilraun. Byrjunin getur vitanlega ekki orðið mjög ör, meðan þessi starfsemi er að breiðast út og verða almenn. Fjárframlagið verður þá og þeim mun minna framan af, eftir því sem byrjað er í smærri stíl.

Þá talaði hv. þm. um að lánin yrðu dýr og fyrirkomulagið þunglamalegt. Hann setti fram nokkurn útreikning um, hversu vextirnir mundu verða háir, og þó að hann væri ekki alveg rjettur, því að hann gerði ráð fyrir 1%, þar sem frv. gerir ráð fyrir ½%, þá hygg jeg, að niðurstaðan láti nærri. Jeg geng inn á það, að vextirnir verði ekki lægri en 7½ fyrir árið. En hvað þýðir þetta? Hjer er um að ræða reikningslán, sem hver viðskiftamaður sparisjóðanna tekur út frá áramótum eftir þörfum og fer skuldin vaxandi til haustkauptíðar. Það er náttúrlega ekki hægt að segja fyrirfram, hve langur tími það yrði að meðaltali, sem hver lántakandi hefði, sem svaraði fullri upphæðinni. Ef gert er ráð fyrir, að lánin sjeu tekin út með jafnri upphæð mánaðarlega yfir tímabilið frá 1. janúar til 31. október, eða í 10 mánuði, og þá borguð upp, þá er það sama sem að öll upphæð hvers láns sje ekki notuð nema 5 mánuði, með 7% ársvöxtum. Þyrfti lántakandi þá að greiða 5/12 af 7 krónum fyrir hvert hundrað af hámarksupphæð lánsins, en það verða tæp 3%. Nú er það spurningin, hvers virði það er atvinnurekandanum í sinni atvinnu, að hafa alt árið peninga í sínar greiðslur jafnóðum og hann þarf að kaupa og gjalda. Er það honum þess virði, að hann megi borga þrjá aura aukreitis af hverri krónu, til þess að geta notið viðskiftanna þannig, eða getur hann reiknað sjer að fá meira en 3% lægra verð á því, sem hann þarf að kaupa eða gjalda? Jeg held, að þeir, sem þekkja alment til viðskiftanna hjer, geti ekki verið í neinum vafa um það, að munurinn fyrir þann smávaxna atvinnurekanda er miklu meiri en 3%. Hann er oft miklu meiri, svo að jeg er sannfærður um það, að þótt hv. 2. þm. S.-M., þyki 7% vera háir vextir, þá er það samt miklu haganlegra fyrir þann, sem kann með peningana að fara, að fá að njóta þeirra til sinna viðskifta, þótt hann þurfi að borga sem svarar 7% á ári, fyrir þann tíma, sem hann þarf á peningunum að halda. En að hinir raunverulegu vextir verða svo miklu lægri en ársvextirnir, liggur í reikningsláns-fyrirkomulaginu, og að ekki er hægt að taka vexti nema þann tíma, sem hver upphæð af láninu er notuð. Það er ennfremur gert ráð fyrir því, að ekki verði notað sparifje landsmanna sem hægt er að vaxta alt árið, heldur sje það útlent reikningslán, sem aðeins þarf að greiða vexti af þann hluta ársins, sem þarf að nota það.

Jeg skal ekki fara langt út í það, sem hv. þm. sagði um sparisjóðsfjeð, en jeg vona, að þetta sýni, að það er ekki sjerstaklega hentugt að nota sparisjóðsfje landsmanna til slíkra útlána, vegna þess, að það verða þá nokkrir erfiðleikar á því að finna ávöxtun fyrir það fje þann tíma ársins, sem slíkir lántakendur þurfa ekki á því að halda, þó að slíkt sje ávalt nokkuð teygjanlegt. En ef svona löguð lánastarfsemi verður hafin og eykst svo nokkru nemi, þá er líklegt, að hún noti eitthvað af sparifje landsins, því að hver sparisjóður er engan veginn bundinn við að nota ekki meira fje en það, sem hann fær frá Landsbankanum. En jeg hygg líka, að Landsbankinn mundi sjá sjer það fært, að lána sparisjóðum nokkuð af sínu eigin innlánsfje, en það getur ekki orðið mjög mikið, og ekki rjett að fara á stað með slíka starfsemi, nema því að eins, að á bak við standi slíkt reikningslán, sem 1. gr. getur um.

Þetta var nú um kostnaðinn. Jeg er á alveg gagnstæðri skoðun við hv. þm. Jeg hygg, að það verði varla fundin önnur heppilegri tilhögun, sem geri það mögulegt að koma lánum fyrir á annan kostnaðarminni hátt, án þess að um gjafir sje að ræða. En það er alt annað, ef á að leggja fram gjafir af opinberu fje. En við höfum ekki farið fram á það.

Þá sagði hv. þm., að fyrirkomulagið væri þunglamalegt. Það finst mjer ekki. Mjer finst, að frumskilyrðið fyrir því, að fyrirkomulagið verði ekki þunglamalegt, sje einmitt það, að viðskiftin fara fram á milli einstaklinga og þeirra peningastofnana, sem í nágrenni þeirra eru. Seðlabankinn hefir altaf viðskifti við sparisjóðina, þannig, að á milli hans og sparisjóðanna ganga altaf ávísanir fram og til baka, hvort sem þessi starfsemi er tekin upp eða ekki, og það er líka það, sem þarf að vera. Það er hvort sem er ekki heldur hægt að gera þetta greiðara, t. d. með því að fela útvegun fjárins einhverri annari stofnun. Það mætti miklu fremur segja, að það yrði þunglamalegt, því að hver sparisjóður yrði þá að skifta við í ær stofnanir í staðinn farir eina.

Hitt, að menn þurfi að stofna fjelag, til að verða þessara hlunninda aðnjótandi, er þriðji liðurinn. Það má náttúrlega segja, að það sje þunglamalegt, samanborið við það, að hver einstaklingur geti gengið að stofnuninni; en leiðin að þessu fyrir smærri framleiðendur getur ekki verið önnur en í gegnum fjelagsskap þeirra sjálfra. Jeg held, að jeg hafi mikið að mótbárum hv. þm. við þessu, og jeg er honum ekki sammála um þá niðurstöðu, sem þeir komast að, um að vísa málinu til stjórnarinnar. Jeg álít, að þó að ekki sjeu miklar horfur á því, að slíkt mál sem þetta geti fengið fulla afgreiðslu á þingi, eftir að það kemur svo seint til 2. umr. í þessari þingdeild, ætti það þó a. m. k. að koma til athugunar í nefnd í hinni þingdeildinni, og jeg álít yfir höfuð, að sjer hvað það, sem gert er til að tefja fyrir málinu, sje gert til að tefja fyrir umbótum, sem allir viðurkenna að sjeu nauðsynlegar, og því rjettast að byrja sem fyrst á, eins og jeg hefi áður sagt.