12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

1. mál, fjárlög 1929

Halldór Stefánsson:

Jeg hefi ekki gerst hlutsamur um afgreiðslu fjárlaganna, en er þó dálítið riðinn við þennan kafla, sem nú er til umræðu, þar sem jeg er flm. að 2 till. — Um aðra þeirra mun jeg þó ekki ræða að sinni, því það eftirlæt jeg aðalflm. þeirrar till. En till. sú, er jeg vil minnast á, er á þskj. 435, LXVI, við 16. gr. 39, nýr liður: Til Gunnars Jónssonar, Fossvöllum, styrkur til húsabóta, til að geta veitt ferðamönnum gistingu, 5000 kr.

Hjer hefir nú þegar, við fyrri hl. umræðunnar, verið allmikið rætt um hinar almennu ástæður fyrir slíkum styrkjum sem þessum, í sambandi við aðra samskonar fjárbeiðni. Menn hefir heldur ekki greint á um þörfina, þótt menn hafi greint á um, hvort ætti að sinna slíkum fjárbeiðnum. Jeg mun því ekki ræða um hinar almennu ástæður fyrir þörfinni á slíkum styrkjum, heldur aðeins lýsa staðháttum á þessum stað og hinum sjerstöku ástæðum, en þær eru í stuttu máli þessar.

Þessi bær er á krossgötum við fjölfarna vegi. Hann er við þjóðveginn frá Austfjörðum til Norðurlandsins og er undir Smjörvatnsheiði — þjóðvegurinn liggur þó ekki yfir hana —, sem er ein með lengstu og allra hæstu heiðum hjer á landi og mjög illviðrasöm. Er mönnum því oft þörf á góðri aðhlynningu, er þeir koma af henni. Framhjá þessum bæ liggur líka vegur til Möðrudalsheiðar, ekki þó svo að skilja, að hann standi við heiðina, heldur liggur vegurinn frá og til heiðarinnar, fyrst eftir Jökuldalnum. — Þarna er því vegur í fjórar áttir, auk þess sem bærinn liggur við hina torfærustu heiði, sem áður er sagt.

Þarna er líka símstöð, og sækir að henni stórt svæði, sem eykur umferðina að mun. Verða bæði langferðamenn og símanotendur, sem eru langt að komnir, að gista þarna; auk þess þurfa langferðamenn einatt að fá fylgd og hesta. Bóndinn, sem nú er þarna, er úrræðagóður og hjálpsamur um að útvega hesta og fylgd og margvíslegan beina annan, sem með þarf. Híbýlin, sem voru allgóð á sínum tíma, eru nú nær fallin. Langt er þarna til næstu bæja, að undanteknum einum, en þar eru ekki úrkostir til að taka á móti hinum mikla ferðamannastraum, enda liggur ver við umferðinni. Bóndinn á Fossvöllum er nú orðinn roskinn og er fátækur barnamaður, sem hefir alið upp fjölda barna. Telur hann sig ekki geta bygt upp vegna fátæktar og neyðist því til að leita burt. Er vansjeð, þótt nýr bóndi fengist, að hann yrði fær um að byggja upp, svo nægði til að veita þann beina og aðstoð, sem altaf verður þörf á á þessum stað. Væri mjög bagalegt allri umferð, ef gisting og önnur aðstoð fjelli þarna niður. Þessi till. er því eingöngu borin fram til samgöngubóta, en ekki vegna bóndans sjálfs. Hygg jeg, að ekki sje minni nauðsyn að veita nokkurn fjárstyrk til þessa heldur en til ýmislegs annars, sem í fjárlögum stendur. En jeg skal þó ekki fara út í samanburð á því. Jeg hefi þá gert nokkra grein fyrir þessari till. Vænti jeg þess, að háttv. þdm. samþykki þessa till. mína, ef samskonar till., styrkur til byggingar á Ásólfsstöðum, sem er við fyrri kafla fjárlagafrv., verður samþykt.