14.04.1928
Neðri deild: 71. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í C-deild Alþingistíðinda. (1882)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Magnús Jónsson:

Hv. 1. þm. S.-M. virtist frv. þetta vera illa undirbúið. Hann talaði þó ekki um það, í hverju sá ónógi undirbúningur lægi. Máske byggir hann það aðeins á því, að þetta er þingmannafrumvarp. En jeg held, að hv. þm. hafi þar skotið yfir markið. Því þó að stundum kunni að vera hætt við, að þm. skjótist yfir ýms atriði við samningu frv., þá er því ekki til að dreifa með þetta frv., því það er bygt á reynslunni, og reynslan er ávalt góður grundvöllur við undirbúning mála.

Frv. þetta var í fyrstu undirbúið svo vel sem kostur var. Og þegar búið var að semja það, var það látið ganga í gegnum tvo hreinsunarelda. Var það því áreiðanlega betur undirbúið en sum stjórnarfrv. Enda hefir ekki verið bent á neina flaustursgalla á frv. í Ed. Mótstaðan þar hefir komið fram í almennum orðatiltækjum, svo sem hvort það mundi duga eða vera heppilegt, og þessháttar. Frv. er áreiðanlega bygt fast upp. Og jeg held, að ef nokkuð má að því finna, þá væri það einmitt það, að það væri helst til fast uppbygt. En það er líka kostur, að þetta fari hægt af stað, en vinni sig upp með hægð. Það er betra en að það sje laust uppbygt og skrapi svo alt í skinnavirkjunum. Þótt það kunni með því móti að vera minna notað í byrjun, þá er áhættan líka minni, og er það gott. Stjórn lánsstofnananna þarf að vera sterk. Hún á að ákveða lánsupphæðir hvers eins og sjá um, að þeir, sem misbeita rjetti sínum til þessara lána, fái ekki að vera með. Jeg fullyrði því, að frv. þetta er vandlega undirbúið, þótt jeg hinsvegar neiti því ekki, að það geti á einhvern hátt staðið til bóta.

Hv. þm. gat þess, að agnúar væri á frv., en nefndi ekki nema þann, er jeg hafði áður talað um. Sá agnúi er auðvitað nokkur, en þó altaf álitamál, eins og svo margt er. — Að þeir fátæku, sem helst þurfa á lánum að halda, verði útilokaðir frá svona fjelagsskap, held jeg þurfi ekki að óttast. Reynslan hefir sýnt það, að efnamennirnir draga sig ekki í hlje um slíkan fjelagsskap. Auk þess er það svo í sveitunum, að þótt um stórefnaða menn sje að ræða, þá hafa þeir eigi ávalt handbært fje. Eignir þeirra eru fastar í jörðum og bústofni, svo að þannig löguð lán mundu líka koma sjer vel fyrir þá. Svona var það, þegar eg þekti til í sveit, og þannig mun það vera enn. Þeir efnaminni mundu því áreiðanlega fá að vera með. Reynslan hefir nú sýnt, að t. d. í kaupfjelögum hafa þeir fengið að vera með. Jeg held því, að þetta yrði ekki hættulegt. Það færi fráleitt hart af stað heldur. Fá fjelög yrðu að líkindum stofnuð í byrjun, svo að þetta fengi að vinna sig upp smámsaman. En þegar bændur hefðu áttað sig á því, þá er jeg viss um, að þetta yrði mikið notað. Og líklega hefðu þessar 5 milj., sem um er talað, verið notaðar mjög fljótt. Jeg veit það að vísu, að hægt væri að finna fleiri leiðir til að bæta úr lánsfjárþörfinni. Jeg hefi heyrt, að stjórnin og flokkur hennar, sem mænt hefir öfundaraugum til þessa góða máls, ætli sjer að gera það, með því að setja upp landbúnaðarbanka, eða með öðrum orðum, að víkka út ræktunarsjóðinn. En það þarf að meta það, hvort fyrirkomulagið muni reynast hentugra. Að hafa eina útlánsstofnun hjer, með einni yfirstjórn, sem brestur vitanlega kunnugleika á högum lántakenda um land alt, mundi áreiðanlega reynast óheppilegra, heldur en að lánin væru veitt frá hinum ýmsu lánsstofnunum, sem dreifðar eru yfir land alt, þar sem forstjórarnir eru gagnkunnugir hver í sínu bygðarlagi. Það er vitanlega gott að hafa eina stofnun til að útvega lánsfjeð. En dreifing þess er áreiðanlega hagkvæmara fyrir komið á þann hátt, er jeg lýsti nú. Jeg vona því, að ekki verði fram hjá því grundvallaratriði gengið, þegar skipun verður gerð á þessu máli. Jeg er hinsvegar ekkert á móti því, að sú stofnun, sem útvegar fjeð, heiti landbúnaðarbanki. Jeg var algerlega sammála því, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði, nema hvað jeg legg ekki eins mikið upp úr því eins og hann gerði, að nauðsynlegt sje að vextirnir sjeu svo ákaflega lágir. Aðalatriði er, að peningarnir fáist. Hitt er minna um vert, hvort rentan er 1% hærri eða lægri, því með slíkum lánum má oft spara 10–15% í vörukaupum. Hitt er aftur nauðsynlegt, að löng lán sjeu með sem vægustum kjörum. En þess gætir minna um skyndilánin.

Það hefir komið fram till. um að vísa þessu frv. til stjórnarinnar. Jeg geri ráð fyrir því, að sú till. verði samþykt. En það skyldi þá vera til stjórnar að vísa! Jeg fyrir mitt leyti hefi ekki mikla trú á því, að snúa mjer til stjórnarinnar með þetta. Hæstv. stjórn hefir sýnt meiri áhuga á því, að koma fram allskonar síldarmálum, heldur en svona nauðsynjamáli. Ef þetta mál á ekki að ná fram að ganga, þá vil jeg þó ekki, að því sje vísað til stjórnarinnar. Það má þá heldur falla.