06.03.1928
Efri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í C-deild Alþingistíðinda. (1918)

111. mál, útflutningsgjald af síld o.fl.

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Hv. þm. Ak. hefir nú svarað bæði því, sem stendur í nál. hv. minni hl., og hinu, sem kom fram í ræðu hv. frsm. Það eru því aðallega tvö atriði, sem jeg vildi leiðrjetta hjá hv. minni hl. Hv. frsm. vildi halda því fram, að það mundi auka löngun manna til þess að salta meira en áður, ef útflutningsgjald af saltaðri síld yrði lækkað. En þessi 50 aura lækkun á hverri útfluttri tunnu af síld mun engin áhrif hafa í þessu efni. Þegar líkur eru til að saltsíld seljist, þá er verkað í salt eins og hægt er. Og ef ekki veiðist mjög mikið, þá er það talinn hagnaður að salta. Jeg held því, að þessi 50 aura tolllækkun hafi minna að segja en gróðavonin um að hafa sem mest upp úr þessari vöru, sem þó er svo breytilegt verð á, að það veltur frá því að vera langt fyrir neðan kostnaðarverð upp í mjög hátt verð, og svo að því ógleymdu, að stundum verður að borga fyrir það að moka síldinni í sjóinn, þegar engir vilja hirða hana. Það er þetta breytilega verð, sem gerir það svo lokkandi að fást við síldarverslun, en ekki þessir „litlu 50 aurar“, eins og einn kaupmaður hjer í bænum orðar það.

Hitt atriðið er um kryddsíldina. Hv. frsm. minni hl. áleit ekki rjett að greiða hærri toll af slíkri síld, af því að búið væri að greiða talsverðan innflutningstoll af því kryddi, sem látið er í tunnurnar. En þetta er engin ástæða. Því eins og jeg hefi sagt, að ekki sje nema eðlilegt, að þeir, sem flytja mikið inn, geta ekki sloppið við að greiða lögboðna tolla í ríkissjóð, svo það er engin ástæða til að ljetta gjaldinu af kryddsíldinni. Nú er verslun með kryddsíld talin mjög arðvænleg, a. m. k. mun láta nærri, að fyrir hverja tunnu af kryddsíld fáist helmingi eða þriðjungi hærra en fyrir sama þunga af saltsíld. Og það, sem með frv. er verið að gera, er það, að taka útflutningsgjaldið í rjettum hlutföllum eftir markaðsverði vörunnar. Saltaða síldin er í svo lágu verði, að 1.50 kr. útflutningsgjald af hverri tunnu er orðið of hátt hundraðsgjald, saman borið við söluverð síldarinnar.

Þá er það spurning hv. þm. Ak. viðvíkjandi 2. gr. Jeg get ekkert um það sagt, hvort samnefndarmenn mínir geti fallist á að láta 2. gr. frv. standa Jeg fyrir mitt leyti er því fylgjandi, og vil þá líka taka til greina athugasemd hv. flm. í þessu sambandi. En út af því, sem hv. frsm. minni hl. sagði, að fiskiúrgangur væri seldur til áburðar á 60 aura 100 kg., þá vil jeg ekki rengja, að svo kunni að vera, þó að jeg hafi heyrt getið um miklu hærra verð. Og sje verðið eins og hv. þm. vill halda fram, þá sje jeg ekki, að þessi útflutningsvara geti þolað það útflutningsgjald, sem hv. þm. vill þó á hana leggja. En jeg ætla raunar, að þetta 60 aura verð sje hvergi nálægt sanni.