23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í C-deild Alþingistíðinda. (1953)

130. mál, Þingvallaprestakall

Halldór Steinsson:

Hæstv. dómsmrh. sagði, að brauðið væri ekki vel fengið. Hann varð þó að viðurkenna, að núverandi prestur ætti enga sök á því. Hefndin þarf því ekki að koma niður á honum. Þetta er því engin ástæða.

Ennfremur sagði hæstv. dómsmrh., að þingið gæti ávalt lagt niður slík embætti. Að vísu mun vera til heimild um þetta í lögum, en henni hefir ekki verið beitt, og álitið hefir verið, að henni ætti ekki að beita, nema brýna nauðsyn bæri til. (Dómsmrh. JJ: Þó mætti nefna landritara og amtmannaembættin). Um þau embætti stóð alveg sjerstaklega á. En jeg get ekki sjeð neitt, sem rjettlæti þessa aðferð í því máli, er hjer liggur fyrir.