12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

1. mál, fjárlög 1929

Haraldur Guðmundsson:

Jeg vildi að þessu sinni mæla með fjórum smábrtt., sem jeg á á þskj. 435, og einni á þskj. 454.

Það kann nú að vera, að hv. þd. finnist það vera að bera í bakkafullan lækinn að auka á þær beiðnir um námsstyrki, sem aðrir hv. þdm. hafa borið fram hjer í deildinni. En jeg hefi nú samt leyft mjer að gera þetta, því að þrjár af þessum brtt. mínum eru um námsstyrki til ungra, efnilegra manna.

Það er þá fyrst á þskj. 435, brtt. XXIII, styrkur til Gísla Guðmundssonar til að nema rafmagnsfræði í Þýskalandi, 1200 kr. Þessi maður lauk stúdentsprófi í vor með ágætum vitnisburði, en hefir ekki lánast að komast í tölu þeirra stúdenta, sem styrks njóta til náms erlendis, og hefir hann því leyft sjer að sækja um, að þingið veitti honum styrk. Hann les, eins og áður er sagt, rafmagnsfræði, og sjerstaklega um notkun allskonar rafmagnsvjela, en það er mesta nauðsyn á, að menn afli sjer sem fullkomnastrar þekkingar á hverskonar vinnuvjelum. Þessi maður er talinn ágætlega vel gefinn og hið besta mannsefni; vænti jeg því, að hv. þdm. sjái sjer fært að samþykkja þessa brtt.

Þá er önnur brtt. mín á sama þskj. nr. XLIV, um styrk til Eggerts Guðmundssonar til listanáms í Danmörku. En upphæðin hefir misprentast hjer, 1200 krónur í staðinn fyrir 1000 kr.; vænti jeg að hæstv. forseti taki það til athugunar. Það stendur mjög sjerstaklega á með þennan mann. Öllum, sem þekkja hann, kemur saman um að hann sje óvenjulega listfengur. Hann leggur sjerstaklega stund á myndagerð, en hefir auk þess töluvert iðkað dráttlist og er mjög efnilegur í þeirri grein. Hann hefir alt sitt líf unnið algenga erfiðisvinnu, en jafnframt því notað allar tómstundir sínar til að iðka þessar tvær listir, það er málaralist og myndgerðarlist. Hann hefir notið tilsagnar hjá þeim tveim mönnum, sem færastir eru til að kenna þær hjer, Ríkarði Jónssyni og Einari Jónssyni, og hefir hann bestu meðmæli frá þeim báðum. Síðastliðið haust hafði hann sýningu á myndum sínum, og kemur öllum saman um, að hjer sje að ræða um mjög efnilegan listamann. Vil jeg leyfa mjer að benda á það, sem Einar Jónsson segir, að hann hafi ekki sjeð efnilegri sýningu hjá nokkrum byrjanda, að hann sje frjór í hugsun og alveg óvenjulega sýnt um að velja sjer verkefni. Einar Jónsson telur hann búinn óvenjulegum listhæfileikum. Það ber líka öllum saman um, að hann sje sjerlega ástundunarsamur og reglusamur. Jeg álít, að maður, sem býr við þröngan kost og vinnur fyrir sjer með erfiðisvinnu og hefir tekist að komast svo langt, sýni það ljóslega og sanni, að hann sje gæddur óvenjulegum listhæfileikum, sem vert sje að hjálpa honum til að fullkomna.

Þá er þriðji námsstyrkurinn, sem jeg ber fram, brtt. II. á þskj. 454, til ungfrú Maríu Markan. Mjer vitanlega er nú engin íslensk stúlka, sem stundar söngnám erlendis, önnur en hún. Hún hefir lært það, sem hægt er að læra hjer heima, sungið nokkrum sinnum opinberlega og hlotið einróma lof; nú rjeðist hún í að fara til Þýskalands í haust til að afla sjer frekari þekkingar og hefir fengið og sent hingað mjög lofsamleg ummæli kennara, sem hún nýtur þar tilsagnar hjá. Sigfús Einarsson hefir gefið henni meðmæli, þar sem hann tekur stórmannlega til orða og segir, að hún sje ágætt efni í framúrskarandi sönglistarkonu, segir, að þar fari saman einhver hin fegursta rödd, sem hann hafi heyrt í íslenskri konu, hún beiti henni vel og með miklum skilningi, sje sjerstaklega sönghneigð. og hafi óvenjulega mikið vit á söng. Jeg ætla, þar sem aðeins er farið fram á 1200 kr., að það væri mjög misráðið af hv. deild ef hún sæi sjer ekki fært að styrkja þessa stúlku.

Að þessu sinni er jeg ekki einn um fleiri brtt., en meðflm. að allmörgum, sem jeg vona, að hv. deild taki vel.

Auk þessa á jeg hjer eina brtt., nr. LXXII á þskj. 435, um að veita gamalmennahælinu á Ísafirði 1000 króna styrk. Það orkar ekki tvímælis, að einhver hin allra ríkasta skylda hins opinbera, jafnt þjóðfjelaga sem bæjarfjelaga, er að sjá þeim, sem lagt hafa um langa æfi fram mikið starf til að vinna gagn þjóðfjelagi sínu, fyrir sæmilegri vistarveru í ellinni. Nú er komið svo í flestum nágrannalöndum vorum, að bæjarfjelögin víðast hvar hafa reist og rekið heimili fyrir gamalt fólk. Er það að sumu leyti gert af fjárhagsástæðum, en þó líklega engu síður af því, að mönnum er það skiljanlegt, að gamla fólkinu fellur best að umgangast menn á sínu reki, menn, sem líta svipuðum augum á lífið og það sjálft. Menn geta gert sjer það í hugarlund, þegar um gamalt fólk er að ræða, sem á fáa að og er holað niður á misjöfn heimili, þar sem það ekki á kost á að umgangast neitt af sínum jafnöldrum, að því muni líða misjafnlega vel, eins og oft vill verða, þegar slíkum einstaklingum er komið fyrir á mannmörgu heimili. Mjer vitanlega er ekki nema eitt gamalmennahæli til hjer á landi enn sem komið er, og það er gamalmennahæli Ísfirðinga. Það er prýðileg stofnun. Nú þætti mjer vel á því fara, að ríkissjóður vildi styrkja þetta hæli með 1000 krónum. Það er aðeins viðurkenning; getur ekki kallast styrkur, þegar tekið er tillit til þess, að verudagar í hælinu síðastliðið ár voru um 7000. Mjer finst, að þessi upphæð muni ríkissjóðinn ekki miklu; hún svarar til 14 aura uppbótar á hvern verudag. Auk þess býst jeg satt að segja við, að sparnaður ríkissjóðs við það, að Ísafjörður hefir reist þetta gamalmennahæli, nemi fast að því 1000 krónum. Með breytingu á fátækralögunum frá 1921 var ríkissjóði gert að greiða nokkurn hluta af sjúkrahúskostnaði fátæklinga. Mjer er kunnugt um, að margt af þessu gamla fólki, sem í gamalmennahælinu er, gæti hvergi annarstaðar verið en í sjúkrahúsi, ef það ætti ekki þarna hæli, og þyrfti þá ríkissjóður að borga sinn hluta af kostnaðinum. Jeg býst við, að þetta framlag nemi einu sinni ekki eins miklu og ríkissjóður þyrfti að greiða í meðlag með þessu gamla fólki. Jeg skal svo ekki þreyta hv. þdm. með lengri tölu að sinni.

Auk þessarar tillögu á jeg ennþá eina, sem jeg ber mjög fyrir brjósti, það er síðasta tillagan á þskj. 435, um að heimila ríkisstjórn að ganga í ábyrgð fyrir lánum til fjelagsmanna í Samvinnufjelagi Ísfirðinga. En þar sem fram er komin brtt. við hana og jeg gjarnan vildi eiga tal við hv. meðnefndarmenn mína í fjvn. um þetta, mun jeg geyma mjer að tala um hana.