31.03.1928
Neðri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (2048)

118. mál, hafnarbætur í Aðalvík og lendingarbætur í Arnardal

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Svo stendur á, að á sumri komandi verður framkvæmd rannsókn á hafnarbótum í Hnífsdal og eins, hvernig hægt muni að varna snjóflóðum, sem oft gera þar mikinn usla. Þar sem verkfræðingur mun fara þangað vestur, hafa hjeraðsbúar óskað eftir því, að rannsakaðar yrðu lendingarbætur í Arnardal við Skutulsfjörð, og ennfremur hvort hægt sje með hæfilegum kostnaði að bæta svo höfnina að Sæbóli í Aðalvík, að örugg verði til legu fyrir smábáta. Áður hefir farið fram rannsókn á Látrahöfn, en þar sem kostnaður við það er áætlaður 900 þús. kr., er það með öllu óframkvæmanlegt. En í Vestur-Aðalvík er önnur bátahöfn, er heitir Sæbólshöfn, og er að kunnugra manna dómi vel löguð til þess, með tiltölulega litlum kostnaði, að verða góð smábátahöfn.

Vænti jeg þess, að hv. deild samþ. þessa till. ásamt viðbótartill. um rannsókn á lendingarbótum í Arnardal við Skutulsfjörð. Í Arnardal var einu sinni blómleg bátastöð, en nú hefir bátunum fækkað, vegna þess, að þar er erfið lending. En þar má gera sæmilega lendingu fyrir smámótorbáta, engu síður en í Hnífsdal, en þar er stór verstöð. Útræði frá Arnardal er mest notað af heimamönnum og Ísafjarðarbílum, sem hafa stundað þar róðra vor og haust. Væri lending góð, er víst, að fleiri mundu nota hina hægu aðstöðu, sem þarna yrði, ef lendingin væri bætt, því frá Arnardal er mjög stutt á góð fiskimið.

Jeg vil ekki tefja deildina meira, en vona, að hún geti fallist á till. ásamt brtt. á þskj. 448.