09.02.1928
Neðri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (2269)

67. mál, endurskoðun fátækralaganna

Hjeðinn Valdemarsson:

Jeg vil taka undir það, að mjer finst ekki ástæða til að vísa þessari till. til nefndar; hún er svo einföld, að það ætti að vera auðvelt fyrir hv. þd. að taka. afstöðu til hennar nú þegar, sjerstaklega þar sem málið lá fyrir síðasta þingi. Jeg skýrði frá afstöðu minni og Alþýðuflokksins þá, að við álitum endurskoðun fátækralaganna, sem kom frá hendi fráfarandi stjórnar, í alla staði ófullnægjandi og ekki nema að mjög litlu leyti reynt að bæta úr þeim ágöllum, sem tilfinnanlegastir eru á fátækralögunum. Eins og þingið skildi við fátækralögin, er heldur ekki hægt að segja, að þau hafi breytst mikið til batnaðar frá því, sem var, þó að nokkur minni atriði hafi kanske verið lagfærð.

Vil jeg þess vegna taka undir það með hv. flm. þessarar till. (HStef), að það sje hin mesta nauðsyn, að hæstv. stjórn taki fátækralögin til rækilegrar endurskoðunar. Vænti jeg þess, ef till. verður samþ., að það verði farið lengra út í málið að þessu sinni en fráfarandi stjórn gerði.