14.04.1928
Neðri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í D-deild Alþingistíðinda. (2305)

151. mál, rannsókn leigumála húsnæðis í Reykjavík

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Góður maður hjer í deildinni sagði við mig áðan, að þótt dýrt yrði, þá mundi fátt borga sig betur en að afla sjer vitneskju um húsaleiguna hjer í bænum, ef með því tækist að hnekkja okri því, sem þar ríkir. Húsaleiguokrið er eitthvert hið stærsta fjárhagsböl landsins. Ríkissjóðurinn fær átakanlega að kenna á því. Kaup starfsmanna er of hátt frá sjónarmiði ríkisins. Þó eru margir þeirra í fjárhagskröggum, og á hin afarháa húsaleiga sinn þátt í því. Verklýðurinn á við erfið kjör að búa, ekki síst fyrir það, að mikill hluti af kaupi hans fer til að greiða húsaleigu, og atvinnurekendur telja sig þó naumast geta goldið það kaup, sem nú er. Húsaleigubölið mergsýgur þannig landið.

Jeg þekki eitt dæmi, sem sýnir þetta átakanlega. Kona nokkur á sveit hjer í nærliggjandi sýslu. Hún er skilin við mann sinn og hefir 3 börn fram að færa. Henni hefir tekist að koma sjer svo fyrir, að hún fær að vera hjer í Reykjavík, og geldur sveitin með henni hingað. Þessi kona kostar fátæka sveit um 2000 kr. á ári. Hún er sjálfsagt ekki of vel haldin, en þetta er helmingur allra útsvara í sveitinni. Það hafa verið að berast brjef í stjórnarráðið frá hreppsnefndinni. Beiðist hún hjálpar til að losna við þennan gífurlega skatt. En það er ekki hægt að hjálpa. Konan er í sínum fulla rjetti til að dvelja hjerna. Þegar sveitahjeruðin, með takmarkaðar tekjur, komast í návist við slíka dýrtíð, lamast gervalt starfsþrek þeirra. Það er full þörf á að taka föstum tökum á þessu okri. Og jeg treysti því, að hin sjúka hagsmunastefna reykvískra húseigenda reynist ekki svo sterk hjer á þingi, að það takist að hindra rannsókn á þessu vandamáli.