16.04.1928
Sameinað þing: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í D-deild Alþingistíðinda. (2357)

109. mál, einkasala á steinolíu

Magnús Guðmundsson:

Jeg hafði ekki ætlað að taka til máls, en þegar fór að líða á ræðu hv. flm. (HG), fór jeg að skilja, hvað fyrir honum vakti. Ræða hans var ekkert annað en árás á íslenska Shellfjelagið. Jeg ætla að leyfa mjer að leiðrjetta sumt af því, sem hann sagði.

Annars verð jeg að segja það, að í ræðu hv. þm. (HG) kom ekki fram neitt annað en það, sem hæstv. dómsmrh. (JJ) lofaði okkur að heyra á eldhúsdaginn. Hv. þm. hafði, svo að segja, ræðuna eftir ráðherranum, enda er auðsjeð, að náinn fjelagsskapur er á milli þeirra um þetta mál. Hv. þm. er með skýrslu, sem hæstv. ráðh. (JJ) hafði, en aðrir hafa ekki fengið að sjá.

Hv. þm. þótti ilt, að Shellfjelagið skyldi vera íslenskt fjelag, og áleit það mjög hættulegt, að íslenskir menn skyldu stjórna því, en hins vegar ágætt, ef það hefðu verið útlendingar.

Jeg get ekki haldið, að það sje verra, að fyrirtækið sje undir stjórn íslenskra manna en útlendra, enda fer það, sem hann sagði um þetta, algerlega í bága við það, sem hann sagði að öðru leyti.

Þá reyndi hann að gera það tortryggilegt, hve stórir geymarnir væru, en hann verður að athuga það, að olíunotkun hefir farið hraðvaxandi undanfarið, og fer líklega vaxandi, eins hjer eftir sem hingað til, því að það er yfirleitt uppi sú alda, að setja olíuvjelar í skip, þ. á. m. togara, í stað gufuvjela. Því virðist ástæða til þess að hafa geymana nokkuð stærri en beint er þörf í bráð, til þess að vera viðbúinn þeirri aukningu á olíunotkuninni, sem allir búast við.

Engin þjóð, nema við, hefir orðið að búa jafnlengi við það ástand, að flytja olíuna óraveg í tunnum. Og það vita allir, sem til þekkja, hvílíkt vandræðaástand það hefir verið. Því að oft, þegar farið hefir verið að vigta olíutunnurnar úti á landi, þá hefir alt að helmingur innihaldsins verið lekinn niður. Það er það, sem landsmenn hafa orðið að borga fyrir að hafa þetta ótæka fyrirkomulag á olíuversluninni. Það fyrsta, sem gert var til þess að bæta úr þessu, var það, að Landsverslun tók upp stáltunnur í stað trjetunnanna. En það reyndist ákaflega dýrt, og er ekki eins heppilegt og geymar. Það er því stórkostleg framför í olíuversluninni að hafa fengið geymana, og það er í meira lagi undarlegt að heyra í þingsal reynt að gera tortryggilega þá tilraun, sem hjer hefir verið gerð til þess að láta landsmenn fá olíu með eins hagfeldum kjörum og í öðrum löndum.

Hv. þm. (HG) sagði, að það væri auðsjeð, að engin samkepni yrði milli fjelaganna um olíuverðið, því að það væri alstaðar það sama. En það sýnir alls ekki, að engin samkepni eigi sjer stað. Hv. þm. á að geta skilið, að það getur verið samkepni og hún hörð um verslunina, þótt ekki sje um mismunandi verð að ræða. Ef t. d. hefði verið aðeins eitt fjelag um hituna, þá er ekki ólíklegt, að verðið á olíunni væri nú hærra. Þessi „sönnun“ hv. þm. (HG) á því, að engin samkepni sje milli fjelaganna, er því aðeins „bluff“, blekking ein.

Jeg álasa honum ekki fyrir það, þótt hann sem jafnaðarmaður vilji ríkisrekstur á olíuverslun sem öðru; það er alt annað mál. Jeg sje ekki annað en að hann geti rætt málið á sínum skoðanagrundvelli, en þurfi ekki að grípa til þess sem röksemda, sem er algerlega rangt.

Þá talaði hv. þm. um hættu fyrir hlutleysi þjóðarinnar, ef ófrið bæri að höndum. Hefir nú hv. þm. athugað, hve miklar eru þarfir útlendra herskipa, er komið gæti til mála að styddist við þann olíuforða, sem hjer er um að ræða? (HG: Jú, dálítið). Já, hann mundi nefnilega duga handa 1–2 herskipum í 1–2 skifti. (HG: Færi það ekki eftir því, hve stór þau væru?). Jú, jeg miða við meðalherskip. Jeg vildi annars í því sambandi spyrja hv. þm., hvort hann heldur, að dreadnoughtarnir ensku t. d. muni fara hjerna inn á Skerjafjörðinn til þess að fá sjer olíu.

Jeg held nefnilega, að þeir mundu fljótlega reka sig á nokkuð óþyrmilega. En honum dettur ekki í hug, að ensk herskip kunni heldur að fara hjer inn á höfnina og fá sjer olíu úr geymum British Petroleum. Gæti þetta legið ólíkt nær, ef svo er sem margir álíta, að breska stjórnin eigi mikinn hluta í þeim mannvirkjum. Það er þó ekki svo, að mjer detti í hug, að þau muni verða notuð af herskipum, en því síður er stöðin við Skerjafjörð fallin til þess, svo að jeg held, að það verði lítið úr staðhæfingum hv. þm. og þeim grun, sem verið er að læða inn um hættu, sem af þeim á að stafa.

Hv. þm. (HG) var að segja, að það mundi eitthvað svipað um þann anda, sem hjer muni búa undir, og sál framliðins dykkjumanns, sem ekki kæmist á túr í himnaríki, þar sem hann kvað vera bann. Jeg hefi ekki trú á, að sálir dauðra drykkjuræfla fari í líkami lifandi manna, og jeg er alveg jafnvantrúaður á hitt, að nokkur annarlegur andi fari í geymana við Skerjafjörð, og jeg get notað þetta dæmi hv. þm. til þess að sýna, með hve mikla fjarstæðu hann fer.

Þá sagði hv. þm., að það væri hvenær sem væri hægt að nota heimildina um, einkasölu á steinolíu frá 1917, þrátt fyrir það, þótt þessir geymar væru komnir upp. Jeg get alveg tekið undir þetta með hv. þm. Þeir, sem sett hafa upp geyma hjer, vita vel um heimildina, og að altaf er hægt að nota hana. Og ef nú væri eitthvað annað bak við, þá kæmi það í ljós, þegar ætti að fara að nota þessa heimild. Jeg sje ekki, að svo þurfi endilega að vera. En hjer liggur ekkert annað á bak við en það, sem liggur bak við geyma British Petroleum. Alt tal um annað er aðeins ætlað til þess að vekja tortrygni.

Það var að vísu ýmislegt fleira í ræðu hv. þm. (HG), sem jeg hefði gjarnan viljað svara, en jeg er nýbúinn að svara sömu ræðunni og sje ekki ástæðu til þess að endurtaka það. Enda sýnist mjer ekki gustuk að lengja umræðurnar mjög, þar sem hv. þm. er nú sem óðast að búast brott og þunnskipað er í sölunum þess vegna.

2358