17.03.1928
Efri deild: 50. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

1. mál, fjárlög 1929

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg get þegar svarað annari fyrirspurn hv. 5. landsk., um Kleppsspítalann. Það er rjett, að viðbótarbygging þessi hefir verið lengi á leiðinni, þar sem á henni var byrjað, eins og hv. þm. gat um, áður en kreppan kom, og svo lá hún niðri um tíma, en nú má búast við, að henni verði lokið í sumar. En fje það, sem nú er til í fjárlögum, mun alls ekki verða nóg til þess að ljúka byggingunni; til þess að fullgera hana mun vanta um 50 þús. kr. En það hefir fjvn. Nd. lagt til, að tekið yrði upp í fjárlögin fyrir 1929, og með því móti er hægt að fullgera spítalann í sumar. En það skiftir miklu máli fyrir menn úti á landi, sökum þess, hve erfitt er að koma sjúklingum hingað að vetrarlagi víðsvegar að af landinu.

Til viðbótar þessu skal jeg geta þess, að það var ákveðið af fyrverandi stj., að nýr maður kæmi með þessum nýja spítala, og hefir því verið, ráðinn að spítalanum sá maður, sem við eigum lærðastan á þessum sviðum, maður, sem nýlega hefir hlotið doktorsnafnbót fyrir vísindalega ritgerð í þessum fræðum. Hann kemur einhvern næstu daga til landsins. Verður því ekki lögð síðasta hönd á verkið fyr en báðir læknarnir eru komnir til skrafs og ráðagerðar. Það lítur því vel út fyrir, að hinn nýi spítali geti byrjað með nýjum lækni að hausti, og er ekki nema gott til þess að hugsa, því að þörfin fyrir hann er orðin mjög tilfinnanleg. En þetta verður geysidýr ríkisrekstur, því að gert er ráð fyrir, að 100 sjúklingar geti bætst við þá, sem fyrir eru. Og mjer varð alls ekki fyllilega ljóst, hvern feikna kostnað spítali þessi kemur til með að hafa í för með sjer, fyr en jeg sá allan þann fjölda herbergja á efstu hæð byggingarinnar, sem ætlaður er fyrir þjónustufólk.

Um Kjalarnesveginn get jeg ekkert sagt. Hann var bygður í tíð fyrv. stj., og er mjer því ókunnugt um, hvort hann er óeðlilega mjór eða ekki. En hitt hefi jeg heyrt, að sumar bifreiðar hjer væru óeðlilega breiðar, eða með öðrum orðum breiðari en lög leyfa, og má því vera, að vegur þessi sje of mjór fyrir þær.

Hefi jeg svo ekkert frekara að segja út af fyrirspurnum þessum að svo komnu, en jeg get búist við, að hægt verði að gefa frekari upplýsingar síðar.