24.02.1928
Neðri deild: 31. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í D-deild Alþingistíðinda. (2385)

80. mál, uppsögn sambandslagasamningsins

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Fyrirspurnin á þskj. 120 er í tvennu lagi, um uppsögn sambandslagasamningsins og um fyrirkomulag utanríkismálanna, þegar til kemur. Nú er svo kveðið á í 18. gr. sambandslaganna, að „eftir árslok 1940 getur Ríkisþing og Alþingi hvort fyrir sig, hvenær sem er, krafist, að byrjað verði á samningum um endurskoðun laga þessara“; því næst koma ákvæðin um, að ef nýr samningur er ekki gerður innan 3 ára frá því að krafan kom fram, þá geti Ríkisþing eða Alþingi hvort fyrir sig samþykt, að samningurinn sje úr gildi feldur. — — Og loks koma ákvæðin um atkvæðagreiðslur, sem fram eiga að fara, til þess að sú ályktun sje gild. Það eru því meira en 12 ár þangað til fyrsta framkvæmd að uppsögn sambandslagasamningsins getur farið fram, samkvæmt sambandslögunum. Nokkur tími virðist því til stefnu til þess að taka ákvarðanir í þessu efni, enda getur enginn sagt um það fyrir, hverjir þá fara með hin æðstu völd og þingmensku á Íslandi. Engu að síður er mjer ljúft að svara nú þegar báðum þeim atriðum, sem um er spurt í fyrirspurninni á þskj. 120. Og jeg tek það fram, að jeg svara þeim ekki einungis af hálfu ríkisstjórnarinnar, sem fyrirspurninni er beint til, heldur og af hálfu þess flokks, Framsóknarflokksins, sem myndað hefir og styður stjórnina, og stöndum við allir einhuga að þeirri yfirlýsingu:

Ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn telur það alveg sjálfsagt mál, „að sambandslagasamningnum verði sagt upp eins fljótt og lög standa til“, og þar af leiðandi er ríkisstjórnin og flokkurinn reiðubúin til „að vinna að því“. Ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn lítur svo á, að sambandslagasamningnum eigi að segja upp meðal annars til þess, að „vjer tökum utanríkismálin að fullu í vorar hendur“, og þar af leiðandi er ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn reiðubúin til þess að „íhuga eða láta íhuga sem fyrst, á hvern hátt utanríkismálum vorum verði komið fyrir bæði sem haganlegast og tryggilegast“, enda telur ríkisstjórnin sjer skylt að gefa því máli alveg sjerstakan gaum.