17.03.1928
Efri deild: 50. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

1. mál, fjárlög 1929

Ingibjörg H. Bjarnason:

Hæstv. fjmrh. virðist enn halda, að spítalinn geti komið að fullum notum, þótt byggingin sje ekki fullgerð. (Fjmrh. MK: Nei). En jeg held því fram, að spítalinn geti alls ekki komið að notum fyr en báðum þeim byggingum, sem hjer er um að ræða, sem sje spítalabyggingunni sjálfri og starfsmannahúsi með þvottahúsi og nauðsynlegum herbergjum, er fulllokið.

Það er þetta, sem ber á milli mín og þeirrar nefndar, sem sjerstaklega hefir haft afskifti af þessu máli, og jeg hefi þann heiður að vera í annarsvegar og hæstv. fjmrh. hinsvegar.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál að sinni; vona sem sagt, að tækifæri gefist til þess síðar að taka það til rækilegrar athugunar.