09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2541 í B-deild Alþingistíðinda. (2431)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Magnús Jónsson:

Jeg skal fúslega játa, að jeg muni ennþá eiga mikið ólært í þessu máli. En það er ekkert undarlegt, þar sem mjer líka skildist það á orðum hæstv. forsrh., að veröldin öll ætti mikið ólært í því enn, og það er satt. Menn vita ekkert, hvernig veiki þessi berst. Vita ekkert, hvernig á því stendur, að hún, alt í einu, gýs upp hjer og þar. Vita ekkert, hvernig á því stendur, að hún ásækir stundum aðeins sjerstaka landshluta. Menn vita, sem sagt ekkert frekar um hana en um mænuveikina í fólkinu.

Það er alveg rjett, að miklar ráðstafanir hafa verið gerðar víða til þess að hindra útbreiðslu sýki þessarar, en reynslan hefir sýnt, að ekkert dugir nema helst að skera búpeninginn nógu duglega niður. Það hneykslaði hv. þm. Borgf., að jeg skyldi tala brosandi um þetta mál. Jeg var nú alls ekki að brosa að málinu sjálfu. Það tel jeg mikið alvörumál og stórhættulegt, ef sýki þessi berst hingað. Það, sem jeg því var að brosa að, var, hvernig málið er upp tekið, því hjer er verið að vefja úlfhjeðni að höfðum manna, til þess að geta selt þeim vissar vörutegundir dýrara en annars. Mjer finst því, að óneitanlega hefði verið rjettara að flytja mál þetta í sinni upphaflegu og rjettu mynd, sem er frumvarp um verndartolla. Því að sem varnarráðstöfun gegn því, að gin- og klaufaveiki berist hingað til lands er það einskis vert. Fyrir þeirri hættu getum við ekki haft aðra vernd en aðrar þjóðir.

Hæstv. atvmrh. sagði, að ekki væri enn búið að skera úr því með neinni vissu, hvort veiki þessi gæti borist með smjöri eða ekki. Þetta er ekki rjett. Það hefir verið rannsakað, að sýklarnir geta ekki lifað lengur í smjöri en 2–3 daga, smjörsýran hefir hreint og beint reynst drepandi fyrir þá. Þetta hefir verið reynt, meðal annars með því að gefa kálfum smjör með gin- og klaufaveikisóttkveikju í. Það er því orðið viðurkent, að smjör geti ekki sýkt, nema meðan það er nýtt.

Annars er ekki til neins að vera að þrátta um þetta hjer. Jeg vildi aðeins láta þessa einu rödd heyrast, til þess að það kæmi fram, að ekki væru allir ánægðir með þessar ráðstafanir.