14.04.1928
Neðri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2640 í B-deild Alþingistíðinda. (2474)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg þarf ekki að svara miklu þessum reiðilestri hv. þm. Borgf. Jeg veit, að hv. þdm. skilja, að það er nokkur munur á að rekja sundur „prívat“-brjef og að gera að gamni sínu um það, sem mest „prívat“ er í brjefinu — eins og góðar óskir brjefritarans til kollega hans á nýju starfsári — eða hitt, að gera grein fyrir ákveðinni skoðun í málinu. Þetta veit jeg, að hv. deild skilur, þó að hv. þm. Borgf. sje ekki svo þroskaður að skilja það.

Jeg vil nú ekki eltast mjög lengi við það, hvernig þessi hv. þm. fer með prentaðar heimildir, en aðeins víkja að því, sem hann var að tala um smitunarhættuna, og benda á, hvernig hann slítur út úr samhengi það, sem Hannes dýralæknir segir um hana. Í bæklingi dýralæknisins segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Reyndar lítur prófessor Jensen svo á, að nokkurn veginn sje óhætt að treysta því, að efnabreytingarnar í smjörinu og ostinum eyðileggi sýkiefnið“. (PO: Áfram svolítið!). Jeg er ekki svo óráðvandur að vilja misnota þetta, enda kemur það beint fram, að prófessor Jensen telur enga sýkingarhættu stafa af þessum vörum. Reyndar hefir Hannes dýralæknir sjálfur, eins og jeg tók fram áðan, ákveðna skoðun fyrir sig í þessu efni. Hann segir:

„En þó er sá möguleiki óneitanlega fyrir hendi, að báðar þessar vörutegundir geti smitast eftir að gerðinni er lokið“. (PO: Á, var svo!). En dýralæknirinn bætir við að lokum, og því hefir hv. þm. Borgf. algerlega slept. Þar stendur þetta:

„En sennilega er þessi hætta engan veginn mikil“. Hann segir ekkert um, í hverju þessir möguleikar liggi. Með ályktun sinni gerir þm. Borgf. sig að yfirdýralækni allra dýralækna. (LH: En hættan má engin vera !).

Nú vil jeg gjarnan spyrja þessa hv. þm., ef frv. verður samþ. með þessum breytingum, hvaða tryggingu þeir geti gefið fyrir því, að veikin berist ekki til landsins. Er öll sótthætta þá horfin? Svo einfaldir eru þeir ekki, að trúa því. Nú er því haldið fram, að langmesta smitunarhættan stafi af ferðamönnum, sem fara úr einu landi í annað. Hjer hafa menn ferðast með skipum landa milli svo hundruðum skiftir, og mjer er ekki kunnugt um, að þeir hafi gefið neinar yfirlýsingar í þessu efni, sem nokkuð sje byggjandi á. Jeg veit að vísu, að menn eiga að gefa yfirlýsingu um, að þeir hafi ekki verið á þeim stöðum, sem gin- og klaufaveiki geisar, — en hver getur sagt um það, sem ekki dvelur nema skamma stund á hverjum stað, ferðast úr einum stað í annan og er ókunnugur staðháttum?

Þá væri og jafnframt gott að fá upplýsingar um það frá þessum yfirsjerfræðingum heimsins í gin- og klaufaveiki, eins og hv. þm. Borgf., hvenær og hvar veikin hafi borist með smjöri, ostum, eggjum eða kartöflum. Þetta væri óneitanlega gott að fá upplýst af lærdómi hans! En vesalings vísindamennirnir, sem erlendis starfa að rannsókn slíkra mála, hafa ekki fundið nein slík dæmi, þó að heimsdýralæknirinn viti sjálfsagt um aragrúa.

Þá sagði hann, að það gerði fátækri alþýðu ekkert til, þó að þetta bann kæmist á, vegna þess að kjör alþýðu væru þann veg, að hún gæti ekki lifað á smjöri, eggjum eða annari kjarnfæðu, sem hann svo nefndi. En hv. þm. Borgf. ætti þó ekki að gleyma sjúkrahúsunum. Því að það eru einmitt sjúklingarnir, sem ekki mega vera án þessara vara. Og að því er snertir niðursoðna mjólk og kartöflur, þá eru það nauðsynjavörur, er fátækt fólk kaupir mikið af og notar til lífsviðurværis sjer.

Þá var það smáatriði, sem hann var að geta um, svo sem verðlækkun á smjöri í vetur, og virtist helst halda því fram, að vörur lækkuðu í verði eftir því sem minna kæmi af þeim á markaðinn. Það er að vísu satt, að ísl. smjör hefir nú um tíma lækkað í verði í Reykjavík frá því, sem það var í haust. En þessi verðlækkun stafaði af samgönguteppu austur yfir fjall eftir nýárið, og safnaðist þá talsvert fyrir hjá bændum, sem nú er nýlega komið á markaðinn. En þegar þessar birgðir eru seldar og reglubundnar ferðir takast upp til framleiðslusveitanna, er sennilegt, að verð á ísl. smjöri hækki aftur.

Það hefir verið hjer á ferðinni brjef frá smjörlíkisgerðinni Ásgarði, þar sem farið er fram á, að nauðsynlegt væri að banna innflutning á smjöri og smjörlíki. Þetta brjef hefir nú horfið á einhvern leyndardómsfullan hátt, en um efni þess er náttúrlega ekki margt að segja, því það er ekkert undarlegt, þó að óskir komi frá smjörlíkisgerð um að banna innflutning á erlendu smjöri eða smjörlíki; því að á því mundi smjörlíkisgerðin mest græða.

Þá talaði hv. þm. Borgf. um ostinn og þá hættu, sem stafað gæti af innflutningi hans.

Fyrir hv. landbn. hefir legið brjef frá aðalræðismanni Svisslendinga, sem hann sendir fyrir hönd stjórnar sinnar til íslensku stjórnarinnar, og er dagsett 10. janúar síðastl. Upp úr þessu brjefi ætla jeg að lesa nokkrar glefsur í þýðingu, hv. þm. Borgf. og fleirum til athugunar, sem haldnir eru þeirri firru, að hætta geti stafað af því, að innflutningur á ostum haldist eins og verið hefir.

Brjefið hefst á því, að stjórnin svissneska mótmælir banni á innflutningi osta til Íslands af heilbrigðisástæðum, bæði vegna þess, að gin- og klaufaveikin sje þar ekki í landi nema sjaldan og á fáum stöðum, og eins sje smitun frá osti algerlega útilokuð, eins og hjer segir í þýðingu:

„Þar sem sýklar þeir, sem fyrir hendi gætu verið, eyðast algerlega við upphitun mjólkurinnar í 65° Celcíus. Það er heldur ekki kunnugt um nein tilfelli, þar sem gin- og klaufaveikin hefir borist með osti. — Þess vegna vitum vjer hingað til ekki til þess, að neitt ríki hafi bannað af heilbrigðisástæðum innflutning osts. Eitt suðurþýska ríkið, sem fyrir nokkru krafðist þess af heilbrigðisástæðum, að með innfluttum osti ætti að fylgja upprunaskírteini, hefir þegar numið þá ráðstöfun úr gildi, af þeirri ástæðu, að ostainnflutningur sje alveg hættulaus“.

Þetta sýnir það, að svissneska stjórnin er alveg á sama máli og prófessor Jensen, þó að hv. þm. Borgf. þykist betur vita og vilji þar með knjesetja alheimsskoðanir á þessu máli.

Þó að við, sem við sjávarsíðuna búum, höfum ekki jafnmikilla hagsmuna að gæta, þá erum við þó sama sinnis og bændur um það, að stemma eigi stigu fyrir því, að veikin berist til landsins.

En ef þessir bannmenn hugsuðu eins mikið um hag annara eins og sjálfra sín, þá ættu þeir að bera fram till, um að tryggja það, að þessar vörur hækkuðu ekki í verði, með hámarksverði á slíkum afurðum, og að jafnframt væri nóg til af þeim, bæði handa sjúklingum og öðrum þeim, sem ekki geta verið án þeirra. En á meðan þeir hrinda ekki af sjer, að þetta sje í eiginhagsmunaskyni gert, til þess að fá hærra verð fyrir vörur sínar, þá verða þeir að sætta sig við, þó bæði jeg og aðrir leggjumst fast á móti, að slíkum þvingunarráðstöfunum verði beitt.