07.03.1928
Neðri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2659 í B-deild Alþingistíðinda. (2494)

15. mál, strandferðaskip

Frsm. minni hl. (Hannes Jónsson):

Nefndin hefir ekki getað orðið sammála um þetta frv. Að vísu er hún sammála að því leyti, að hún telur strandferðamálið ekki komið í gott horf fyr en fengin eru tvö skip svipuð og Esja, er gangi kringum land hvort á móti öðru.

Minni hl. nefndarinnar leggur það til, að stj. verði með lögum heimilað að koma upp þessu skipi eins fljótt og hún sjer sjer fært, en meiri hl. vill fella frumvarpið. Við, sem skrifuðum nál. minni hl., leggjum til, að nokkrar breytingar verði gerðar á frv. Breytingin er aðallega í því fólgin, að við viljum, að þetta nýja skip verði í öllum höfuðatriðum sem líkast Esju, með þeirri undantekningu, að 3. farrými sje felt niður, en 2. farrými haft nokkru stærra; auk þess sem við viljum halda ákvæðum frv. um frystiklefa í skipinu. Í frv. er aftur á móti aðallega gert ráð fyrir þessu skipi til vöruflutninga, og gerð þess ákveðin eftir því.

Það er nú svo komið, að allháværar raddir eru farnar að heyrast um land alt, hve mikil þörf sje á því að fá strandferðaskip með kælirúmi, og vil jeg leyfa mjer að fullyrða, að þessi krafa er á rökum bygð.

Bændur landsins eru flestir þannig settir, að þeim er fyrirmunað, eins og samgöngunum nú er háttað, að koma á innanlandsmarkað kjöti og öðru nýmeti, sem ekki þolir langa geymslu. En með hinum hraða vexti Reykjavíkur og annara kaupstaða eykst þörf þeirra að miklum mun á þessum vörutegundum. Nærsveitir kaupstaðanna geta ekki fullnægt þörfinni og verðið stígur upp úr öllu valdi. En sumpart er reynt að draga úr vandræðunum með innflutningi á niðursoðnum vörum og öðru slíku, sem komið getur í þess stað.

Jafnframt þessu eru bændur í vandræðum með að fá markað fyrir framleiðsluvörur sínar, af því að hentugar samgöngur vantar. Í stað þess að auka framleiðslu þessara vara í landinu verður niðurstaðan sú, að bændur reyna að draga sem mest úr henni.

Ef um fullkomnar samgöngur væri að ræða, myndu bændur standa vel við að selja þessa vöru talsvert lægra verði en nú á sjer stað, og það ætti að vera keppikefli landbúnaðarins að fullnægja þjóðinni á öllum árstíðum með nýtt kjöt, egg og smjör. Nú mun vera flutt inn í landið af þessum vörum fyrir hundruð þúsunda króna. Þær krónur hefir þjóðin kvatt að eilífu og algerlega að ástæðulausu.

Þjóð eins og vjer Íslendingar, sem hefir jafnlitla möguleika til þess að vera sjálfri sjer nóg, má ekki sleppa sjónum af þeim leiðum, sem hún hefir til þess að efla sjálfsbjargarviðleitni sína. Með þessu frv. er, að áliti minni hl., stigið allverulegt spor í rjetta átt, og þó einhverjir ágallar kunni að vera við frv., þá væntum við, að þeir verði leiðrjettir, svo að ekki saki.

Við teljum líka mjög nauðsynlegt, að vjer getum, áður en langt um líður, tekið í hendur vorar fólksflutninga með ströndum fram, eins og flestar þjóðir hafa þegar gert. Hjer hjá oss hafa þessir fólksflutningar að ýmsu leyti verið í ólagi, svo að fylsta nauðsyn er til bóta.

Jeg skal játa, að hjer er um mikið fje að ræða og að hæpið er, að hægt verði að leggja fram allan byggingarkostnaðinn á 1–2 árum. En við gerum ráð fyrir, eins og líka er vikið að í frv., að taka megi lán í því skyni, og hefi jeg á öðrum stað gert ráðstafanir — og mun það mál koma fyrir þingið —, sem gera kleift að takast það lán á hendur. Við leggjum mikla áherslu á, að nýtt skip verði bygt í þessu skyni, en ekki keypt gamalt skip, því að hætt er við, að gamalt skip gæti ekki verið hentugt að öllu leyti, og auk þess verða gömul skip oft dýrari en ný, þegar miðað er við not af þeim.

Það er ekki ný skoðun, hvorki hjá hæstv. stjórn nje minni hl. nefndarinnar, að skipi þessu sje komið upp. 1913 var ákveðið með lögum að byggja tvö skip á stærð við Esju. Þessi lög áttu að koma til framkvæmda 1916 þótt ekki yrði úr því. Síðan hafa ávalt verið uppi háværar raddir um þetta mál. Því hefir verið haldið fram af meiri hl., að svo mikil nauðsyn væri á samgöngubótum á landi, að bygging þessa skips geti ekki komið til mála á næstu 4 árum. Það er fjarri mjer að leggjast á nokkurn hátt á móti samgöngubótum á landi, — þvert á móti óska jeg, að þær geti gengið sem greiðast. En mjer finst eðlilegt, að þau hjeruð, sem ekki geta notið þeirra umbóta, fái leyst úr vandræðum sínum með byggingu nýs strandferðaskips, og ef hægt er að koma því máli í kring með lánsfje, álít jeg sjálfsagt að hefjast handa svo fljótt sem unt er. Jeg legg ekki áherslu á, að skipið verði endilega bygt í ár eða jafnvel að ári, en tel þó, að nauðsynlegt sje að hraða smíði þess sem mest. Leggjum við minnihlutamenn til, að frv. verði samþ. með brtt. þeim, sem eru á þskj. 248.